Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Varpar ljósi á fæðingarþunglyndi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rejúníon er nýtt íslenskt leikrit eftir Sóleyju Ómarsdóttur í framleiðslu Lakehouse. Verkið gerist í íslenskum samtíma og varpar ljósi á fæðingarþunglyndi, barneignir, sambönd og samfélagspressu.

„Ég byrjaði að skrifa leikritið þegar ég var ólétt af mínu öðru barni og var mikið hugsað til erfiðs tímabils þegar ég var ólétt í fyrsta sinn. Hugmyndin var að skrifa verk um konur sem væru á einhvern hátt aftengdar umhverfinu og fólkinu í kringum sig, og lifðu í einhverri ósýnilegri einangrun. Þetta hefur verið mjög langt þróunarferli og verkið hefur tekið miklum breytingum. Það er í rauninni enn þá í þróun núna á æfingaferlinu þar sem allur þessi fjöldi listamanna sem kemur að sýningunni kemur með nýja sýn og hugmyndir,“ segir Sóley.

Leikritið fjallar um íslensku ofurkonuna og ferlafræðinginn Júlíu, sem í staðinn fyrir að horfast í augu við þá erfiðleika sem hún upplifði við að verða móðir, sekkur sér í vinnu, bollakökubakstur og Snapchat-frægð. Hún tekur einnig að sér að sjá um 20 ára grunnskóla-rejúníon í leyndri von um að endurnýja tengslin við æskuvinkonu sína og lífið áður en allt varð svona flókið.

„Kveikjan að hugmyndinni kom frá því tímabili þegar ég flutti ólétt heim til Íslands og var að vinna fjarvinnu heiman frá mér. Ég upplifði mikla einangrun og var alveg úr tengslum við lífið hérna heima. Ég datt fljótt í þunglyndi og hafði einnig yfirþyrmandi áhyggjur af því hvernig ég myndi standa mig í móðurhlutverkinu. Eftir fæðinguna var ég einnig með mikinn kvíða sem tengdist því að vera ein heima með ungbarn og bera ábyrgð á lífi þess en slíkur kvíði tengist einnig fæðingarþunglyndi. Ég leitaði mér aldrei aðstoðar en ég sé það eftir á að ég hefði átt að gera það,“ segir Sóley.

Fordómarnir gagnvart þeim sjálfum

Sóley segir að umræðan um fæðingarþunglyndi hafi opnast mikið á síðastliðnum árum en hún heldur að enn þá sé ákveðið tabú í kringum það. „Eins og Sæunn Kjartansdóttir sálfræðingur orðaði svo vel á málþinginu sem Lakehouse hélt í Tjarnarbíói um daginn, þá eru konur með fordóma gagnvart sjálfum sér að upplifa þessar tilfinningar því það að líða svona er ekki eitthvað sem þær lögðu upp með í byrjun. Ég held að við séum yfirleitt umburðarlyndari gagnvart öðrum og þeirra erfiðleikum, en þegar við upplifum erfiðleika sjálf þá finnst okkur við vera svo misheppnuð,“ segir Sóley og heldur áfram. „Svo er annað, að fólk heldur oft að hugtakið fæðingarþunglyndi eigi bara við um konur sem elska ekki barnið sitt. En konur geta að sjálfsögðu upplifað fæðingartengt þunglyndi þó að þær elski barnið sitt. Þetta var allavega misskilningur hjá mér og kom að einhverju leyti í veg fyrir að ég leitaði mér aðstoðar. Það er því gott að opna meira á þessa umræðu því þunglyndi og kvíði í kringum barneignir er alveg ótrúlega algengt. Ég komst að því þegar ég var að skrifa að flestir sem ég talaði við um verkið tengdu eitthvað við málefnið.“

- Auglýsing -

Krafa um ofurkonu ímyndun

Hún telur að klárlega sé pressa frá samfélaginu um að konur eignist bæði börn og glæstan starfsferil. „Það eru næstum því fordómar í íslensku samfélagi gagnvart konum sem velja bara annað hvort. Margar konur eiga hins vegar ekkert val um að vera ofurkonur, eins og til dæmis einstæðar mæður sem kannski neyðast til að vinna í tvö störf. En þessi týpíska ofurkona sem við hugsum frekar um þegar við tölum um ofurkonur er frekar týpa sem er í flottu starfi en á samt nokkur börn, rekur fallegt heimili, sinnir félagsstörfum, fer í fjallgöngur og póstar chia-grautnum sínum á Instagram. Einhver krafa um slíkar ofurkonur er eitthvað sem ég held að sé bara ímyndun. Fólki er yfirhöfuð alveg sama hvað aðrir eru að gera.“

Verkið er frumsýnt 30. nóvember í Tjarnarbíó. Á bak við sýninguna stendur leikfélagið Lakehouse, en leikstjóri er Árni Kristjánsson. Leikarar eru Sólveig Guðmundsdóttir, Sara Martí Guðmundsdóttir og Orri Huginn Ágústsson. Framkvæmdastjórn, tónlist og hljóðheimur er í höndum Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur. Fiona Rigel sér um leikmynd og búninga, með aðstoð Bryndísar Óskar Þ. Ingvarsdóttur. Vala Ómarsdóttir sér um hreyfileikstjórn, Ingi Bekk um vídeó og Halldór Örn Óskarsson um ljós.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -