Rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir tjáir sig um Margréti Müller og séra Ágúst George.
Vigdís Grímsdóttur hefur skrifað færslu á Facebook þar sem hún þakkar þeim Gunnþórunni Jónsdóttur, Þóru Tómasdóttur, Margréti Örnólfsdóttur og Kristínu Andreu Þórðardóttur fyrir vinnslu að nýjum heimildarþáttum um voðverkin í Landakotsskóla, sem áttu sér stað á árunum 1954 til 1990 þegar skólastjórinn, kaþólski presturinn séra Ágúst George og kennarinn Margrét Muller beittu þar börn kynferðislegu og andlegu ofbeldi. Tilefnið er grein um þættina í Fréttablaðinu í dag.
Segist Vigdís hafa kennt við Landakotsskóla einn vetur og ofboðið hegðun Margrétar M Müller. „Ég kenndi einn vetur í skólanum fyrir 45 árum og gleymi aldrei, reyndi hvað ég gat að leita réttlætis vegna barna sem MM sá um í 8 ára bekk, kærði hana m.a. til yfirvaldsins sem hét því að breytingar yrðu á, ég gæti treyst því. Ég var tvítug manneskja og treysti loforðum. Yfirvaldið var séra G.“
„Nauðsynlegt uppgjör vegna voðans í Landakotsskóla.“
Það er engum blöðum að fletta um það að þar á Vigdís við ofangreindan séra Ágúst George, eða séra George eins og skólastjórinn illræmdi var gjarnan kallaður.
Árum saman höfðu gengið sögusagnir um slæma meðferð Margrétar og séra Georges á börnunum í Landakotsskóla og árið 2011 komu þessar sögur loks upp á yfiborðið, eftir að bæði séra George og Margrét voru látin. Þá stigu nokkrir þolendanna fram í Fréttatímanum, sem var og hét og lýstu þar hræðilegu og skefjalausu ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu, sem þeir höfðu mátt þola af hálfu bæði Margrétar og séra Georges.
Í kjölfarið setti kaþólska kirkjan á laggirnar rannsóknarnefnd til að rannsaka voðaverkin Þann 2. nóvember árið 2012 gaf kirkjan út skýrslu um glæpi þeirra og árið 2015 samþykkti Alþingi að greiða út sanngirnisbætur til þolenda. Þær Gunnþórunn, Þóra, Margrét og Andrea segja í Fréttablaðiu í dag að málinu sé þó engan veginn nærri lokið og kann Vigdís þeim þakkir fyrir að ætla að halda áfram að fjalla um það.
Eða eins og Vigdís segir á Facebook: „Þökk sé Gunnþórunni, Þóru, Margréti og Andreu. Baráttukveðjur inn í nauðsynlegt uppgjör vegna voðans í Landakotsskóla.“
Mynd: Skjáskot af RÚV