Íslensk hönnunarstofa frumsýnir óvenjulegt verk og vinnur til alþjóðlegra verðlauna.
„Þetta er auðvitað frábær árangur sem á eftir að vekja athygli á okkur erlendis og svo er þetta gríðarlega mikill heiður líka. Í raun staðfesting á því að það sem við erum að gera sé á pari við það besta sem er að gerast í þessum bransa úti í heimi,“ segir Kristín Eva Ólafsdóttir, hönnunarstjóri og einn eigenda Gagarín hönnunarstofu.
Stofan hlaut nýverið SEGD hönnunarverðlaunin fyrir gagnvirkt sýningaratriði sem hún hannaði fyrir fornleifa og sögusafnið Pointe-à-Callière í Montreal, Kanada. Í safninu stendur yfir sýning þar sem gestum gefst færi á að kanna heillandi heim Perú í gegnum siðmenningu Inka og hannaði Gagarín síðasta verk sýningarinnar, stafrænan vefstól sem kallast Weaving Time og færir gestina nær handverki Inkanna.
„Þetta er auðvitað frábær árangur sem á eftir að vekja athygli á okkur erlendis og svo er þetta gríðarlega mikill heiður líka.“
„Gestirnir velja sjálfir mynstur, pússla þeim saman og vefa í sameiningu stórt gagnvirkt teppi sem fléttast síðan um sýningarrýmið, þeir verða þar með meðhöfundar að atriðinu. Verkið er því gagnvirkt og síbreytilegt,“ útskýrir Kristín Eva og bætir við að mynstrin í verkinu byggi á aldagamalli hefð.
Hafa ekki séð lokaútgáfuna með eigin augum
SEGD, eða The Society for Experential Graphic Design, samanstendur af 2.200 félagsmönnum frá um þrjátíu löndum og eru þverfagleg alþjóðasamtök sýningahönnuða, arkitekta, grafískra hönnuða, markaðsfólks og kennara. Alls tóku 340 aðilar þátt í samkeppninni í ár og að sögn Kristínar Evu vann Gagarín í flokknum gagnvirkar innsetningar. Í umsögn dómnefndar segir að oft séu stafrænar innsetningar framsettar með snertiskjám og tölvum en hér sé á ferðinni „virkilega skemmtilegt áþreifanlegt notendaviðmót sem fær gesti til að upplifa vefnað á raunverulegan hátt þar sem gestir eru hvattir til að gefa sér tíma til að setja saman táknmyndir Inka í eigin vefnað,“ eins og það er orðað.
„Það sem gerir þetta verk líka svolítið sérstakt,“ heldur hún áfram, „er að öll vinnsla fór fram í gegnum netið. Kúnninn, Pointe-à-Callière safnið í Montreal, sendi okkur bara fyrirspurn, sögðu að til stæði að setja þessa sýningu upp í safninu og vildu kanna hvort við gætum hannað gagnvirkt lokaatriði, sem tengdist vefnaði Inka. Við héldum það nú, lögðumst í svolitla heimildavinnu og hugmyndin að vefstólnum varð til á hugarflugsfundi. En við hittum engan frá Pointe-à-Callière, heldur þróuðum og hönnuðum vefstólinn hér heima, þetta tók nú ekki lengri tíma en þrjá mánuði og sendum svo afraksturinn út. Við höfum ekki einu séð lokaútgáfuna, þ.e verkið uppsett með eigin augum, nema bara á videói og ljósmyndum.“
Fleiri spennandi verkefni á döfinni
Spurð hvort vefstóllinn sé eitthvað í líkingu við fyrri verk Gagarín segir Kristin Eva að hann sé klárlega í ætt við annað sem stofan hefur sent frá sér „Við sérhæfum okkur í gerð stafrænnar hönnunar og gagnvirkum upplifunum, mestmegnis fyrir söfn og sýningur. Miðlum gjarnan alls kyns upplýsingum og fræðslu til almennings, til dæmis varðandi sögu og náttúru,“ lýsir hún. „Þessi vefstóll fellur því vel að því sem við höfum verið að gera, í þessu tilviki er um að ræða stakt atriði en oft hönnum við heilu sýningarnar.“
Meðal sýninga sem Gagarín hefur komið að eru Lava eldfalla- og jarðskjálftasetur á Hvolsvelli, Landnámssýningin Aðalstræti, náttúruminjasafnið í Osló, mannréttindasafn í Kanada og rokksafn í Noregi. „Um þessar mundir erum við svo að vinna mjög spennandi verkefni fyrir Den Blå Planet í Kaupmannahöfn sem er í raun frétt út af fyrir sig því þar sem þetta er stærsta sædýrasafnið á Norðurlöndum,“ segir hún létt í bragði „Þanng að það er óhætt að segja að við höfum nóg fyrir stafni.“