Síðustu ár hefur plöntutískan verið mjög áberandi í innanhússhönnun en einnig sem hluti af arkitektúr.
Plöntutískan er ansi lífseig sem orskast líklega ef þeim jákvæðu áhrifum sem plöntur hafa á líðan fólks og ganga tískuspekúlantar svo langt að segja að plöntutískan muni aldrei deyja. Það er mikið til í því enda eykst þörf mannsins fyrir tengslum við náttúruna stöðugt þar sem stækkandi borgir og fólksfjölgun valda því að fjarlægðin milli manns og náttúru er sífellt að aukast.
Arkitektar víðsvegar um heiminn eru margir hverjir farnir að bregðast við þessu og gera því ráð fyrir plöntum í hönnun sinni þá sér í lagi þar sem mengun er mikil. Er það hugsað sem einn þátt af mörgum sem eru mikilvægir í baráttunni gegn hlýnun jarðar.
Bókin Evergreen: Living with plants frá árinu 2016, sem gefin er út af þýska bókaútgefandanum Gestalten, fjallar um mikilvægi plantna í daglegu lífi og gerir tilvist þeirra hátt undir höfði. Plöntur eru sem ferskur andblær á hverju heimili og sýnir bókin hvernig hægt er að gera inni rými áhugaverðari með þeim.
Einnig er sýnt hvernig hægt er að gera svalirnar meira spennandi sem og þakgarða af ýmsum gerðum. Í rýmum þar sem beinar línur og hrein form eru ríkjandi er fátt fallegra en að nota plöntur til þess að gera umhverfið líflegra.
Fjölbreyttir litir plantnanna, lögun þeirra og áferð gera hvern íverustað notalegri. Mikilvægt er að vanda valið vel og sýna fyrirhyggju þegar kemur að staðsetningu þeirra, þá sér í lagi hvað varðar ákjósanlegt hitastig og birtu.
Bókin er hafsjór fróðleiks, tilvalin fyrir plöntuunnendur og hefur hún fengist í HAF Store hér heima en einnig er hægt að panta bókina á Amazon.
Myndir / Gestalten