Mánudagur 27. janúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Borðplötur – ýmsir möguleikar í boði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Alls konar efni í borðpötur eru í boði, granít, marmari, kvartssteinn og basaltsteinn,  harðplast, harðviður og fleira. Hver og einn verður svo að velja borðplötu eftir sínu nefi og smekk. Allt hefur sína kosti og galla.

 

Marmari

Marmari er tignarlegur það verður ekki af honum tekið og algengastur er hann hvítur með gráum æðum en hann er samt til í mörgum litbrigðum. Gallinn við marmaraborðplötu í eldhúsi er að ef til dæmis rauðvín hellist niður og liggur á marmaranum geta myndast blettir sem erfitt er að ná af en ítalir setja það ekki fyrir sig og nota marmarann mikið og hafa gert í marga áratugi. Það sama á við um efni sem innihalda sýrur; ef sítrónusafi t.d. fær að liggja á borðinu ætir hann upp marmarann. Og eins og með granítið, það má ekki heldur nota sterk hreinsiefni á hann. Niðurstaðan er þá konunglegur bragur á borðplötu sem þarf að hugsa um svo hún haldist falleg, og ekki sulla niður rauðvíni.

Granít

Granít er harðasta steintegundin, það er grófkornótt djúpberg, þolir mikið álag og er mjög slitsterkt þannig að ef þú ert í framtíðarhúsnæði og vilt borðplötu sem endist svo lengi að þú þarft aldrei að skipta um þá er granít kannski eitthvað sem hentar þér. Kosturinn við granítið er að á það má leggja sjóðandi heita potta og pönnur. Það er algengast í svörtu og ljósu. Það sem þarf að passa ef borðplatan er úr graníti er að nota ekki sterk hreinsiefni og að láta ekki efni sem innihalda sýrur liggja á borðinu því sítrónusafi t.d. ætir upp granítið. Einnig ætti að varast að láta fitu og rauðvín liggja á granítborðplötu því þá geta myndast blettir.

Viður

Olíuborið límtré er til dæmis einn viðarkostur í eldhús. Olían verndar viðinn og er vatnsfráhrindandi en passa þarf að bera reglulega olíu á límtrésplötur svo þær endist betur og haldi fegurð sinni. Eins geta myndast sprungur ef viðurinn þornar mikið og það viljum við ekki því þá er aðgangur vökva greiður inn í viðinn, þ.e. ef hellist niður í sprunguna. Viðurinn er alltaf hlýlegur og hann er líka hagkvæmari kostur en margt annað.

Kvarts

Kvartssteinn er unnin steinn. Við framleiðslu hans eru steintegundir muldar niður, blandað í þær litar- og bindiefnum og svo er þetta pressað aftur saman. Kvartssteinn er mjög slitsterkt efni og hann er með lokaðra yfirborð en náttúrusteinn, eins og marmari eða granít, sem þýðir að hann blettast ekki jafnauðveldlega og ef það hellist niður rauðvín sleppur þú væntanlega við bletti þótt það liggi á borðplötunni í einhvern tíma. Kvartsborðplötur er til í mörgum litum og með mismunandi kornastærðum. Kvarts er vinsæll í dag hjá þeim sem vilja steinborðplötu og kannski ekki síður vegna þess að hægt að fá hann í „hreinum“ litum, hvítum, gráum, svörtum og alls konar litum.

Basaltsteinn

Basalt er hægt að fá í borðplötu en basalt er algengasta steintegund á íslandi. Það er grátt og líka til nánast alveg svart. Basalt hentar vel á gólf og veggi inni og úti og einnig í eldhús. Basaltborðplata er mjög sterk því þetta er mjög lokuð steintegund. Það má setja sjóðandi heitt á basalt og það á ekki að blettast. Þessi algengasta steintegund á íslandi hefur því ýmsa kosti.

- Auglýsing -
Akrílsteinn

Til eru fleiri en ein samsetning af akrílsteinum (frá mismunandi framleiðendum) en hann er t.d. búinn til úr hreinu akrílefni, náttúrulegum efnum og náttúrulegum litarefnum og jafnvel trjákvoðu. Það koma ekki blettir á akrílsteininn því hann er mjög lokað efni, hann upplitast ekki og það er hægt að pússa upp rispur með sandpappír ef þær myndast með tíð og tíma. Það er hægt að fá hann í mörgum litum, samskeytin eru nánast ósýnileg og svo er mjög auðvelt að þrífa akrílsteininn. Hann er mjög hitaþolinn en það er víst öruggara að nota hitahlíf undir sjóðandi heita potta og pönnur. Það má ekki skera beint á akrílsteininn því hann getur þá rispast en ef það gerist skilst mér að hægt sé að pússa burtu rispurnar þannig að það er ekki hundrað í hættunni.

Harðplast

Harðplast er hagkvæmari kostur en steinninn sem er nokkuð dýr þar sem steinplata í meðalstórt eldhús kostar yfirleitt nokkur hundruð þúsund. Harðplastið er slitsterkt og ætti því að endast lengi, það er viðhaldsfrítt og vinsælt efni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -