Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Einföld ráð sem geta bætt svefninn svo um munar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Umræðan um mikilvægi góðs svefns hefur fengið aukið vægi síðustu ár enda fátt mikilvægara til að stuðla að góðri heilsu. Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum umhverfis á svefn og gefa niðurstöður til kynna að það geti haft víðtæk áhrif. Maðurinn ver þriðjungi ævi sinnar í svefn svo góð hönnun svefnherbergja ætti því að vera forgangsatriði þegar kemur að því að innrétta heimilið.

Aðrir þættir eins og góð rútína að kvöldi getur einnig skipt sköpum. Það er góð regla að venja sig á að halda raftækjum eins og sjónvarpi, tölvum og farsímum utan við svefnherbergið. Algengt er að ofnar séu of hátt stilltir í svefnherbergjum en gott er að hafa hitastigið í svefnherberginu aðeins lægra en í öðrum rýmum því líkaminn vill kæla sig niður fyrir svefn. Einnig er mikilvægt að gæta að góðri loftun í rýminu en útgufun líkamans er töluverð þegar við sofum og því hætta á óæskilegri rakamyndun í herberginu sé ekki gætt nógu vel að loftuninni.

Gluggatjöld
Það skiptir miklu máli að geta myrkvað svefnherbergið, þá sér í lagi yfir sumartímann þegar næturnar eru bjartar. Myrkur örvar framleiðslu hormónsins melatóníns í líkamanum sem stuðlar að því að okkur syfjar. Fyrir fólk í vaktavinnu sem sofa þarf yfir daginn skiptir einnig miklu máli að geta myrkvað herbergið sem auðveldar því að sofna. Það sama á við um fólk sem þjáist af dægurvillu. Gluggatjöld geta einnig gefið rýminu meiri dýpt og bætt hljóðvist.

Lýsing
Góð lýsing er lykilatriði hér eins og svo oft áður. Að hafa ljósdeyfi er góð hugmynd svo hægt sé að stilla birtuna eftir hentisemi. Snjallperur eru einnig góður kostur en þeim er til dæmis hægt að stýra með appi. Á morgnana í mesta skammdeginu er þá hægt að líkja eftir sólarupprásinni, tímastilla perurnar og láta birtustigið í svefnherberginu aukast hægt og rólega sem auðveldar mörgum að vakna. Staðsetning ljósa skiptir einnig máli en gott er að miða við að staðsetja lesljós ekki beint fyrir ofan koddann. Þumalputtareglan er að byrja á því að mæla 20 cm til hliðar frá brún dýnunnar og 60 cm upp en þar er best að staðsetja ljósið.

- Auglýsing -

Veggskreytingar og efni
Margir vilja hafa myndir á veggjunum í svefnherberginu en þá er gott að miða við að myndirnar séu ekki of margar og að litirnir í þeim séu ekki ögrandi líkt og rauðir tónar en þeir geta aukið stress. Ef of mikið af myndum er á veggjunum getur það reynst yfirþyrmandi og vakið upp streitutilfinningu. Það sama á við um þegar blandað er saman mörgum ólíkum textílefnum og þá sér í lagi þungum efnum líkt og flaueli. Mikið mynstruð veggfóður í ögrandi litum og þungar og þykkar mottur geta vakið upp sömu tilfinningar en þær geta líkað minnkað loftgæði. Einfaldleikinn er því bestur til að róa hugann og stuðla að góðum nætursvefni.

- Auglýsing -

Litir og málning
Litir hafa mikil áhrif á líðan og er mælt með grænum eða bláum tónum í svefnherbergi þar sem þeir hafa róandi áhrif og eru taldir geta lækkað blóðþrýsting. Aðrir litir eins og gráir eða brúnir tónar geta einnig verið góðir en þá er heppilegra að undirtónn þeirra sé kaldur frekar en heitur. Annað sem gott er að hafa í huga þegar málning er valin í svefnherbergi er að VOC-gildi hennar sé eins langt undir viðmiðunarmörkum og hægt er. VOC er rokgjarnt lífrænt efnasamband en ef gildi þess er of hátt getur það kallað fram ofnæmisviðbrögð, ógleði og höfuðverk. Rannsóknir hafa leitt í ljós að VOC getur losnað út í andrúmsloftið í allt að 18 mánuði eftir málun og er það sérlega slæmt í svefnherbergjum þar sem dvalið er að meðaltali átta klukkustundir í einu og innöndun mikil. Gildi VOC er breytilegt eftir málningartegundum svo gott er að spyrjast fyrir í verslunum og lesa vel innihaldslýsingar. Svansvottun tryggir til að mynda að VOC sé í algjöru lágmarki.

Sængur, koddar og sængurföt
Sængurföt úr náttúruefnum líkt og bómull og hör eru langbesti kosturinn. Gerviefni geta ert húðina, vakið upp ofnæmisviðbrögð og stuðlað að aukinni svitamyndun sem veldur því að svefninn raskast. Hör hefur forskot á önnur efni þegar kemur að því að tempra hita en í heitari löndum er það efni mikið notað í fatnað og sængurföt vegna þess hæfileika. Auk þess er notkun efnisins sérlega umhverfisvæn en til að mynda hefur hör það fram yfir bómull að minna vatn þarf til ræktunarinnar.

Sumum gæti þótt hör of gróft efni viðkomu til þess að nota í sængurföt en gott er að hafa í huga að efnið mýkist töluvert með notkun. Einnig er gott að eiga tvær sængur sem eru misþykkar eða svokallaðar sumar- og vetrarsængur sem auðvelt er að skipta út eftir þörfum. Annað sem gott er að hafa í huga er að dýnur og koddar geta innihaldið svampefni. Mörg svampefni innihalda óæskileg kemísk efni sem geta vakið upp ofnæmisviðbrögð og haft mikil áhrif á gæði svefns. Þeir sem upplifa það að vakna alltaf á morgnana með stíflað nef ættu til dæmis að athuga hvort svampefni leynist í koddanum eða dýnunni. Einnig er gott að athuga hvort önnur gerviefni, til dæmis í sængurfötum, séu að kalla fram þessi viðbrögð.

Lykt
Ilmolíur hafa róandi áhrif og því ekki vitlaust að fjárfesta í ilmolíulampa. Lavender hefur róandi áhrif og er tilvalið í svefnherbergið. Mjög mikilvægt er að nota hreinar ilmkjarnaolíur í miklum gæðum en þær endast einnig lengur. Ef ilmolíulampi er ekki til staðar er hægt að setja nokkra dropa í bómullarhnoðra sem svo má stinga inn í koddaverið.

Plöntur
Plöntur og tengingin við náttúruna hefur róandi áhrif. Þær stuðla einnig að bættum loftgæðum sem er mikilvægt að hugsa um þegar kemur að svefninum. Það sem þarf þó að athuga er að of margar plöntur í litlu rými geta haft öfug áhrif og gert loftgæðin verri en hættan er að þær kalli fram óæskilega rakamyndun, þá sér í lagi ef vökvun er of mikil. Það er því betra að velja plöntutegundir sem ekki þurfa mikla vökvun og ekki of mikla birtu til að þrífast.

Myndir / Úr safni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -