Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Eyjubóndi í Þjórsá

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á fallegri og afskekktri eyju í Þjórsá býr Hákon Kjalar Hjördísarson ásamt hundinum Skugga í tæpa sex mánuði á ári hverju. Árið 1676 varð mikið flóð á svæðinu sökum ísstíflu og er losnaði um hana flæddi Þjórsá yfir bakka sína og tún Traustholts, hólmurinn aðskildist frá landinu og áin streymdi sitt hvoru megin við hann.

 

Traustholtshólmi er staðsettur í 20 mínútna akstursleið frá Stokkseyri skammt upp frá ósum árinnar rétt utan bæjarins Hólmasels, um þriggja mínútna sigling er svo frá árbakkanum út í eyjuna.

Mynd / Unnur Magna
Mynd / Unnur Magna

Traustholtshólmi hefur verið í eigu fjölskyldu Hákons síðan árið 1940, en þá keypti ömmusystir hans hólmann ásamt eiginmanni sínum. Bærinn var byggður árið 1943 og var þá fyrsta steypta húsið á svæðinu, en einnig er Traustholtshólmi líklega eina byggða eyjan í jökulá á Íslandi. Við spyrjum eyjubóndann hvernig landið hafi eiginlega endað í hans höndum? „Mamma erfði eyjuna á níunda áratugnum þegar systir hennar ömmu lést. Árið 2016 þegar ég átti fertugsafmæli fékk ég landið frá mömmu í fyrirframgreiddan arf og hefur Traustholtshólmi verið undir mínum væng síðan.“

Mynd / Unnur Magna

Eyjan er 23 hektarar að stærð og er svæðið talið vera ein af fyrstu landnámsjörðunum. „Á næstu árum verður farið í uppgröft á landinu og til að mynda fannst hér eldstæði á 2,5 metra dýpi síðan fyrir árið 1000,“ segir Hákon. Á eyjunni er einnig afar fjölbreytt dýralíf en þar má finna villtan lax í ánni, mikinn fjölda fuglategunda og síðan synda selir við af og til.

Sjálfbærnin í fyrirrúmi

Blaðamaður og ljósmyndari bíða við árbakkann eftir fari sínu í hólmann og allt í einu birtast Hákon og hundurinn Skuggi handan árinnar og hoppa upp í bát sem siglir í okkar átt. Eftir stutta og hressandi bátsferð leggjum við að landi á áfangastað. Við erum leiddar að lítilli bryggju þar sem eyjarskegginn leggur út net í ána nánast daglega og í þetta skiptið er veiðin tíu laxfiskar, sem hann segir nokkuð mikið enda sé hápunktur veiðitímabilsins um þessar mundir. Fiskarnir eru vel flæktir í netinu og tekur það töluverðan tíma að fá þá lausa. „Það er ákveðin hugleiðsla að vinna með net, stundum er allt pikkfast og ég vill helst rífa þetta í tætlur. Maður þarf að tengja við sinn innri mann og anda með nefinu,“ segir Hákon meðan hann heldur áfram að leysa fiskana úr flækjunni. Hann verkar fiskinn og býður okkur upp á dýrindis ceviche (hrár fiskur með sítrónu) við árbakkann og erum við sammála um að þetta sé líklega ferskasti fiskur sem við höfum í okkur látið.

- Auglýsing -
Mynd / Unnur Magna
Mynd / Unnur Magna

Ásamt því að veiða sinn eigin fisk ræktar Hákon einnig kartöflur og annað grænmeti á landinu. Hann segist reyna að stunda sjálfsþurftarbúskap eftir besta megni en það séu alltaf einhver matvæli sem maður þurfi að kaupa, eins og olía, salt, pipar og fleira í þeim dúr. Á Traustholtshólma er ekkert heitt vatn, heldur er borhola með köldu vatni sem síðan er upphitað. „Ég nota gasofna til upphitunar en auðvitað væri óskandi að geta framleitt nægilegt rafmagn til að geta hitað upp á annan hátt.“ Hákon nýtir bæði sólarpanela og vindmyllu til rafmagnsframleiðslu.

Mynd / Unnur Magna
Mynd / Unnur Magna

Áhersla á upplifun og staðbundið hráefni

Haustið 2015 sótti Hákon um hjá Startup Tourism og hlaut styrk frá þeim til uppbyggingar á eyjunni. Hann segir þetta hafa verið ákveðin kaflaskil því nú gat hann haft atvinnu af því að dvelja á sínum uppáhaldsstað yfir sumarmánuðina. „Ég reyni að vera hér frá miðjum apríl fram í lok september ef veður leyfir en mig langar líka rosalega að prófa að vera hér heilan vetur – bara til að hafa gert það en það verður nú líklega bara í eitt skipti ef af því verður,“ bætir hann við.

- Auglýsing -
Mynd / Unnur Magna

Traustholtshólmi var opnaður fyrir almenningi sumarið 2016 og segir Hákon það hafa gefið honum tækifæri á að sjá eyjuna með augum annarra. Þegar hann tekur á móti gestum byrjar hann á því að sýna þeim svæðið og sækir svo ferskan lax úr netinu, verkar hann og býður upp á sushi og ceviche niðri á bryggju. „Fólki finnst þetta merkilegt en við erum orðin svo fjarlæg matnum okkar, krakkar halda að eplin komi úr búðinni en ekki af trjánum. Ég reyni að nýta það sem er staðbundið, lax, kartöflur, salat og jurtir – eins og hvönn, birkilauf, rabarbara, hundasúru í salatið og blóðberg í te og sem krydd.“

Mynd / Unnur Magna
Mynd / Unnur Magna
Mynd / Unnur Magna
Mynd / Unnur Magna

Gestir eyjunnar eyða nóttinni í mongólskum tjöldum eða yurts eins og þau eru kölluð á frummálinu. Á landinu er eitt stórt samkomutjald þar sem borinn er fram kvöld- og morgunverður og þrjú minni tjöld sem gestirnir gista í. Nýjasta viðbótin er útisturta við árbakkann. „Pælingin var að standa í vatni og horfa á vatn á meðan en það er fallegt útsýni yfir ána úr sturtunni.“ Aðspurður segir Hákon gesti sína yfirleitt eyða einni nótt í eyjunni og það sé alltaf að færast í aukana að Íslendingar bóki gistingu sem komi skemmtilega á óvart. Alla jafna tekur hann að hámarki við sex gestum og talar hann um mikilvægi þess að halda þessu smáu, „ég hef engan áhuga á að stækka þetta nokkuð, en þá myndi nándin og persónulega upplifunin hverfa.“

Mynd / Unnur Magna
Mynd / Unnur Magna
Mynd / Unnur Magna

Undir lokin spyrjum við eyjubóndann hvað hann aðhafist þegar hann er ekki að sinna eyjunni? „Ég bjó um tíma í Ósló í Noregi, en þar lærði ég að sigla og keypti mér skútu. Síðustu ár hef ég verið duglegur að sigla um Miðjarðarhafið yfir vetrartímann.“ Skútan hans sem ber nafnið Odessa er geymd í Grenada bróðurpart ársins og hefur Hákon eytt allt frá níu vikum upp í fjóra mánuði ár hvert við siglingar. Við getum ekki annað en kallað þetta líf í lagi.

Mynd / Unnur Magna

Mynd / Unnur Magna

 

Mynd / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -