Í Laugardalnum við Laugarásveg stendur þessi fallega og vandaða eign. Eignin er á tveimur hæðum og býður upp á stórkostlegt útsýni yfir dalinn.
Laugardalurinn er án efa vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda er svæðið einstaklega heppilegt fyrir útiveru, gróðursælt og skjólgott með vel skipulagða hjóla- og göngustíga. Laugardalurinn er jafnframt ein meginmiðstöð íþróttaiðkunar í Reykjavík og má þar nefna Laugardalshöllina, Laugardalsvöllinn, Laugardalslaugina og Skautahöll Reykjavíkur. Þá er Laugardalurinn miðstöð garðyrkju og er Grasagarður Reykjavíkur staðsettur í hjarta dalsins. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn í Laugardal er vinsæll meðal barna og fjölskyldufólks. Það má því með sanni segja að eignin sé þar sem hjartað í Laugardalnum slær og umhverfið er einstakt.
Stílhreint og hvítt
Þegar inn er komið í þessa fallegu og björtu eign sést að hvíti liturinn er í forgrunni í bland við gráan tón og má segja að stílinn sé fremur minimalískur. Inngangurinn er inn á neðri hæðina og þá er komið inn í opna og bjarta forstofu þar sem birtan nýtur sín til fulls. Á neðri hæðinni eru svefnherbergin sem eru stílhrein og hvíti liturinn gefur þeim hlýlegan blæ í bland við gráa tóna. Stórir og veglegir gluggar eru í herbergjunum og setja svip sinn á rýmin. Alls eru fjögur herbergi sem fylgja eigninni.
Einstakt útsýni sem svíkur engan
Smart hringstigi leiðir okkur upp á efri hæðina og leiðina upp prýðir fimm metra hár gluggi sem gefur eigninni sterkan svip og hleypir fallegri birtu inn. Á efri hæðinni er stofan og borðstofa í opnu og björtu rými með stórum og miklum gluggum með einstöku útsýni til norðurs, austurs og suðurs sem er mikið augnakonfekt.
Ítalskur marmari ráðandi í eldhúsinu
Eldhúsið er einstaklega vandað, skipulagið gott og er það í miklu uppáhaldi hjá eigendum. Eldhúsið prýðir stór og mikill gluggi til norðurs og gefur góða birtu inn. Marmaraflísarnar eru allsráðandi og nýleg hvít innrétting tónar vel við marmarann. Borðplatan er sérsmíðuð frá Fanntófell og kemur mjög vel út. Mjög vönduð heimilistæki eru í eldhúsinu, meðal annars frá Mile og Smeg. Ísskápurinn frá Smeg smellpassar inn í umhverfið og það er ákveðin reisn yfir honum í þessu fallega eldhúsi þar sem nýi og gamli tíminn mætast.
Vandað og fallegt
Eigninni fylgir baðherbergi og gestasnyrting þar sem vandað hefur verið til verka. Hvíti og grái liturinn eru í forgrunni og flísarnar með mynstrinu gefa rýminu töff útlit sem tekið er eftir. Vönduð blöndunartæki frá Tengi prýða rýmin og stílhreint yfirbragð er í forgrunni.
Fjölskyldu- og útvistarparadísin í Laugardalnum
Laugardalur er mikilvæg samgönguæð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og liggja göngu- og hjólastígar um dalinn og tengja hann við nálæg íbúðahverfi. Þessi faldi demantur á höfuðborgarsvæðinu býður upp á mikil lífsgæði fyrir þá sem vilja njóta garðyrkju, leiksvæða, íþróttasvæða, heilsuræktar, sundlaugar, göngustíga, hjólastíga, kaffihúsa, veitingastaða, fuglalífs eða dýragarðs. Skólarnir í hverfinu eru
grunnskólarnir Langholtsskóli, Laugalækjaskóli og Laugarnesskóli. Leikskólarnir eru Laugasól, Sunnuás, Vinagarður og Hof. Stutt er að fara niður í miðbæ Reykjavíkur, góður hjólastígur er með fram Sæbrautinni. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari.
Þessi glæsilega eign er til sölu hjá fasteignasölunni Húsaskjól og stærð eignarinnar er 154 fermetrar. Verðið á eigninni er 87.5 milljónir. Nánari upplýsingar gefur Ásdís Ósk Valsdóttir í síma 863-0402 eða gegnum netfangið: [email protected].
Myndir / Aldís Pálsdóttir