Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Fatahönnuður í Bryggjuhverfinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Birta Ísólfsdóttir fatahönnuður og kærastinn Kristján Pétur Sæmundsson fluttu í Bryggjuhverfið fyrir ári síðan með nánast nýfædda dóttur sína. Hvorugt þeirra á tengingu í hverfið, hún er frá Hvolsvelli og hann úr Árbænum.

„Ég flutti til Reykjavíkur 16 ára til að fara í menntaskóla og bjó þá með systkinum mínum sem voru líka í skóla. Við Kristján bjuggum síðast á Hverfigötu í pínulítilli íbúð þar sem við vorum með geggjað útsýni yfir Esjuna og þá var ekki aftur snúið. Þegar við fórum svo að leita okkur að íbúð til að kaupa, því hin var orðin of lítil fyrir þriggja manna fjölskyldu, vorum við með tvennt í huga sem okkur fannst verða að vera; útsýni og mikla lofthæð sem sameinast hér á efstu hæð í Bryggjuhverfinu,“ segir Birta og bætir því við að þessir stóru gólfsíðu gluggar í stofunni hafi heillað mest þegar þau sáu íbúðina fyrst. „Útsýnið er æðislegt í góðu veðri,“ segir hún og við horfum út um þessa fallegu glugga á grámyglulegt rok og rigningu sem lemur á rúðurnar fyrir utan en efumst ekki um fegurðina sem blasir við á góðviðrisdögum.

Mynd/Hallur Karlsson

Góð lofthæð setur svip á íbúðina

Birta og Kristján fóru ekki út í neinar stórframkvæmdir áður en þau fluttu inn, kalkmáluðu einn stóran eldhúsvegg gráan og þar með er það nánast upptalið enda ekkert sem þurfti að gera, þannig. Íbúðin er sirka síðan um aldamótin og er rúmlega 95 fermetrar með einum stórum svölum út af svefnherbergi og öðrum örlitlum út af stofunni; meira til að geta bara opnað út enda oft rok þeim megin; sjávarmegin. Mikil lofthæð setur sterkan svip á aðalrýmið sem telur stofu og eldhús sem renna saman í eina fallega heild. Eldhúsinnréttingin er svört og hvít og Birta segir okkur að þar sem borðplatan sé úr gleri og frekar óhentug sé planið að skipta henni út fyrir viðarborðplötu, þau ætla jafnvel að útfæra eyjuna eitthvað í leiðinni en ekkert sem búið er að negla. Lítill gangur, hjónaherbergi, bað og barnaherbergi er einnig á neðri hæðinni en uppi er hálf hæð þar sem stórt sjónvarpsherbergi er, þaðan sem hægt er að horfa niður í alrýmið.

Mynd/Hallur Karlsson

Safnar listaverkum

Birta útskrifaðist úr fatahönnun frá LHÍ árið 2010, flutti í kjölfarið til New York í eitt ár, kom svo heim og fór að vinna hjá 66°Norður í hönnunardeildinni og var þar í þrjú ár. „Það var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt. Ég ákvað svo að skella mér í mastersnám í listkennslu og á núna bara eftir að klára ritgerðina. Það er á döfinni hjá mér. Ég vann líka hjá NTC sem framleiðslustjóri en ákvað að hætta þar eftir fæðingarorlof og fara alfarið að sinna minni hönnun,“ segir hún og við dáumst að hugrekkinu; að segja upp vinnunni til að láta drauminn rætast sem virðist ætla fara vel af stað hjá Birtu og Kristjáni.

Eftir að hafa kíkt heim til þeirra í Bryggjuhverfinu þar sem Hallur ljósmyndari tók nokkrar myndir var ákveðið að keyra niður á Hallveigarstíg þar sem Birta er með vinnustofu og reyna að fanga stemninguna þar og sjá hönnunina sem mun verða sýnd í Epal á HönnunarMars. Vinnurýmið er skemmtilegt og það verður gaman að fylgjast með S. Stefánsson Studio í framtíðinni.

- Auglýsing -
Mynd/Hallur Karlsson.

Hanna undir merkinu merkinu S. Stefánsson & Co

Birta og Kristján hafa hannað undir merkinu S. Stefánsson & Co sem byggir á yfir 60 ára fjölskyldusögu æðaræktar í Hrísey. Afi Kristjáns stofnaði upphaflega S. Stefánsson & Co og seldi dúnsængur og fleira en var svo aðallega heildsala fyrir hinar ýmsu vörur. Parið ætlar að fara að hanna undir öðru merki til að aðgreina sig frá hinu upprunalega og mun það heita S. Stefánsson Studio. Birta hannar hágæða útivistarfatnað sem er einangraður með íslenskum æðardúni frá eyjunni fögru sem hún segir að þau heimsæki eins oft og þau geti því þau tína sjálf dúninn sem þau nota í framleiðsluna. „Eins og er er bara hægt að kaupa vörurnar okkar á síðunni okkar www.sstefansson.co.“

Mynd/Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -