Sunnudagur 29. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Feiknaflott íbúð í hjarta Reykjavíkur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Blaðamaður og ljósmyndari Húsa og híbýla heimsóttu fallegt hús við Hverfisgötu í Reykjavík.

Í þessu reisulega húsi var hér áður fyrr starfrækt kaupfélag. Íbúðin er á annarri hæð og það er bæði hægt að taka stigann upp eða gamla, græna og mjög svo sjarmerandi lyftu sem okkur skilst að sé ein elsta lyfta landsins. Sólveig Andrea innanhússarkitekt tók að sér að hanna þessa feiknaflottu íbúð í hjarta Reykjavíkur þar sem iðandi mannlífið er beint fyrir neðan gluggana, Sólveig tók á móti tvíeykinu frá blaðinu, ásamt smekkdömunni sem þarna býr ásamt eiginmanni sínum og dóttur.

Hjónin keyptu íbúðina vorið 2016 eftir að hafa haft augastað á henni í nokkurn tíma. Þau ákváðu strax að taka hana alla í gegn og fluttu svo inn rúmu ári seinna. Það er hátt til lofts og fallegir stórir gluggar setja sterkan svip á rýmið sem er allt nýuppgert. Það fer ekki á milli mála að þarna búa fagurkerar sem hafa nef fyrir fallegri hönnun því íbúðin er öll ofboðslega smekkleg, stíllinn er töff en samt hlýlegur og örlítið rómantískur. Hlýlegt parket, kristalsljósakrónur, mildir brúnir tónar hér og þar, mottur, málverk og íburðamikil og klassísk húsgögn.

Íbúðin er öll ofboðslega smekkleg, stíllinn er töff en samt hlýlegur og örlítið rómantískur.

En hvað var það sem eigendurnir voru að sækjast eftir, voru ákveðnar hugmyndir eða kröfur frá þeim?

„Já, þeir voru að sækjast eftir þessum svokallaða loft-íbúða tilfinningu; rýmið opið, loftin frekar hrá og ófrágengnir veggirnir, það er að segja ekki pússaðir og spartslaðir. Það var samt ákveðið að mála alla veggina, líka þessa hráu og halda hráleikanum í loftunum og upprunalegu útliti gluggana. Gluggakistan í eldhúsrýminu var svona djúp og þau vildu halda henni þannig enda mjög flott svona djúp og mikil. Eigendurnir vildu í rauninni halda í allt það sem gerði íbúðina að iðnaðarhúsnæði,“ segir Sólveig og labbar með okkur um íbúðina.

Arkitektinn gæti vel hugsað sér að búa þarna

Ertu ánægð með útkomuna á þessari íbúð við Hverfisgötuna?

- Auglýsing -

„Já, alveg svakalega, líka af því húsráðendur eru svo rosalega smekklegir. Það var svo gaman að koma þegar allt var tilbúð og þau flutt inn og sjá útkomuna því það er allt svo smekklegt hjá þeim. Þau voru mjög opin fyrir mínum hugmyndum og höfðu skoðanir og áhuga á öllu sem þurfti að gera og ákveða í ferlinu. Við útfærðum margt í sameiningu og annað kom alfarið frá þeim eins og til dæmis brúni liturinn sem er á nokkrum veggjum, hann er frá Slippfélaginu.“

Það er hátt til lofts og fallegir stórir gluggar setja sterkan svip á rýmið sem er allt nýuppgert.

Við spyrjum við Sólveigu hvort hún sjálf gæti hugsað sér að búa í þessari íbúð? „Já, ekki spurning. Kannski ekki með þrjú börn en ég væri til í það þegar börnin eru farin að heiman. Staðsetningin er ekki mjög barnvæn en þetta er æðislegt ef maður er barnalaus eða með uppkomin börn,“ svarar hún brosandi og við kveðjum þessar smekkkonur og gamla sjarmahúsið við Hverfisgötuna.

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -