Hefur þú áhuga á arkitektúr og langar að fylgjast með því helsta sem er að gerast erlendis? Hér er að finna fimm áhugaverðar Instagram-síður sem arkitektastofur víðs vegar um heiminn halda úti og vert er að skoða.
1. Snøhetta – er norsk arkitektastofa sem stofnuð var árið 1989. Snøhetta er með höfuðstöðvar sínar í Osló og New York ásamt því að vera með stúdíó í Hong Kong, San Francisco, Innsbruck og París. Yfir 240 starfsmenn frá 32 löndum starfa hjá fyrirtækinu sem er leiðandi á sviði arkitektúrs og landslagsarkitektúrs. Meðal þekktustu verka stofunnar eru Óperuhúsið í Osló og bókasafnið í Alexandríu í Egyptalandi.
2. Andreas Martin-Löf arkitekter – er sænsk stofa sem stofnuð var árið 2008 og er með höfuðstöðvar sínar í Stokkhólmi. Andreas Martin-Löf, stofnandi fyrirtækisins, er ungur og upprennandi arkitekt sem hefur mikið látið til sín taka undanfarin ár þá sér í lagi varðandi nýstárlegar lausnir á húsnæðisvandanum í Stokkhólmi og hefur hann hlotið mörg verðlaun fyrir. Andreas var meðal þátttakenda á Design Talks í Hörpu á Hönnunarmars árið 2018.
3. Kengo Kuma and Associates. Kengo Kuma hefur verið eitt þekktasta nafnið í arkitektaheiminum síðast liðin ár. Hann stofnaði stofu sína í Tokyo árið 1990 og hefur hún verið starfrækt undir hans nafni allar götur síðan. Um 200 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu í Tokyo og í París þar sem nokkurs konar útibú stofunnar er rekið. Japanir hafa löngum verið þekktir fyrir einstaka þekkingu og færni í notkun timburs í byggingariðnaði og bera verk Kengos því fagurt vitni.
4. BIG – Bjarke Ingels Group. Arkitektinn Bjarke Ingels er forsprakki stofunnar sem stofnuð var árið 2005 og eru starfstöðvarnar í Kaupmannahöfn, London og New York. Í dag eru meðeigendurnir 17 talsins og eru verkefni stofunnar afar fjölbreytt. BIG hefur tekið þátt í samkeppnum víðsvegar um heiminn, þar á meðal á Íslandi, en stofan sendi frá sér tillögu að nýjum höfuðstöðvum Landsbankans árið 2018. Sú tillaga þótti afar vel gerð og athyglisverð en hún var unnin í samstarfi við Andra Snæ Magnason.
5. Kimmel Eshkolot Architects – er ísraelsk arkitektastofa stofnuð árið 1986 í Tel Aviv af Etan Kimmel og Michal Kimmel Eshkolot. Stofan er með 18 arkitekta innanborðs sem hafa unnið fjölbreytt verkefni bæði í Ísrael og í Evrópu. Mikil áhersla er lögð á tækni og að hún leiði af sér fjölþættar og skapandi nýjungar.