Skandinavísk hönnun er ein sú vinsælasta í heiminum í dag, ekki síst retro-hönnun frá fyrri part síðustu aldar en ekki allir þekkja söguna á bak við munina.
Hér eru nokkrar klassískar hönnunarvörur frá Skandinavíu sem er að finna á fjölmörgum íslenskum heimilum og smáskot um hönnuðina á bak við þær.
Kay Bojesen og Apinn
Hönnuðurinn Kay Bojesen menntaði sig upprunalega sem silfursmiður og var í læri hjá Georg Jensen. Það var ekki fyrr en hann eignaðist fyrsta son sinn, Otto, sem hann sneri sér að viðarleikföngum.
Hann mundi hvað honum þótti gaman í æsku þegar faðir hans tálgaði leikföng úr við fyrir hann. Hann vildi einnig rækta sköpunargáfu barna sinna með leikföngum sem væru frumleg og glaðleg.
Hann er án efa þekktastur fyrir Apann en eftir hann liggja þó yfir 2.000 munir og margir eru enn framleiddir í dag.
Poul Henningsen og PH-ljósin
Poul Henningsen kom fyrst til starfa hjá Louis Poulsen árið 1925 og starfaði þar til dauðadags árið 1967.
Hann hóf strax handa við að hanna ljós fyrir sýningu í París og það reyndist upphafið á PH-vörulínunni.
Helsta markmið hans var að hanna ljós sem voru laus við endurkast þannig að þau veittu þarfa birtu en sköpuðu jafnframt mjúka skugga.
Til eru ýmsar útfærslur á PH-ljósum en vinsælastar eru eflaust hangandi PH 3.5 og PH 5-lampinn.
Arne Jacobsen og Eggið
Arkitektinn og hönnuðurinn Arne Jacobsen er flestum kunnur og ekki er hægt að tala um skandinavíska hönnun án þess að minnast á hann. Þegar hann var ungur átti hann sér draum um að verða listmálari en faðir hans fékk hann til að velja frekar arkitektúr því það væri praktískara. Hann hóf samstarf við húsgagnaframleiðandan Fritz Hansen árið 1934 sem enn í dag framleiðir stólana hans. Þótt hann sé ef til vill frægastur fyrir Eggið þá eru ekki allir sem hafa efni á að kaupa sér eitt slíkt. Á mörgum íslenskum heimilum er hins vegar að finna Sjöuna í einum eða fleiri litum.
Alvar Aalto
Finnski arkitektinn og hönnuðurinn Alvar Aalto var sannkallaður þúsundþjalasmiður en hann er þekktur bæði fyrir byggingar, húsgögn, textíl og glermuni. Á flestum íslenskum heimilum er að finna að minnsta kosti einn mun úr vörulínunni sem Alvar Aalto hannaði fyrir finnska fyrirtækið Iittala, hvort sem það er glervasi, kertastjaki, bakki eða eitthvað annað. Aalto sigraði Karhula-Iittala glerhönnunarkeppnina árið 1936 með þeirri línu. Innblásturinn fékk hann frá öldum hafsins og er línan í dag ein þekktasta hönnun Finnlands.