Föstudagur 27. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Flugfreyja með látlausan stíl

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í hvítu og bláu fjölbýli við Boðagrandann í Vesturbænum, rétt við sjóinn, býr Erna Viktoría Jansdóttir, flugfreyja og smekkpía, ásamt fjölskyldu sinni. Fjölskyldan er alsæl í Vesturbænum.

Spurð út í hvað það er sem heillar hana mest við íbúðina segir hún: „Hvað hún er björt, það eru stórir stofugluggar og útsýnið út um eldhúsgluggann er æðislegt því við horfum beint út á sjóinn. Staðsetningin hentar okkur líka mjög vel því fjölskyldur okkar beggja búa hér í Vesturbænum. Ég er samt fædd og uppalin í Danmörku og bjó í Kaupmannahöfn fyrstu 11 árin.

Mér finnst líka sérlega gaman að heyra dönskuna og nota hvert tækifæri sem gefst til að tala hana.

Fyrir mér er Kaupmannahöfn mitt annað heimili og ég reyni að fara einu sinni til tvisvar á ári þangað. Þar er meiri stórborgarstemning en hér í Reykjavík en samt er lífið í Köben einhvern veginn miklu afslappaðara en hér. Mér finnst líka sérlega gaman að heyra dönskuna og nota hvert tækifæri sem gefst til að tala hana, eins og þegar ég er að fljúga og hitti Dani um borð. Það er eitthvað við Köben sem heillar mig, hún og New York eru  í uppáhaldi hjá mér,“ segir hún dreymin og þá leikur okkur forvitni á að vita hvort það séu alls engir gallar við að búa í Vesturbænum?

Jólatréð er úr Garðheimum og dúkurinn undir því er frá ömmu Ernu en tréð er svo stórt að hann sést ekki.

„Eini gallinn er að það er stundum rok hérna við sjóinn en á móti kemur að hér er allt í göngufjarlægð. Við erum mjög dugleg að rölta í sund, bæði í Vesturbæjarlaugina og Neslaugina sem er alveg æðisleg. Svo finnst okkur ljúft að geta gengið í hverfisbúðina sem er Melabúðin og á sumrin er líka voða þægilegt að geta gengið í miðbæinn og þurfa ekki að leita að bílastæði, eins og til dæmis á menningarnótt.“

Borðstofuborðið er úr hnotu og er frá Tekk Company, bekkurinn er frá Happy Furniture og stólarnir eru úr Húsgagnahöllinni.

Gaman að eiga húsgögn sem ekki eru fjöldaframleidd

Hvernig myndir þú lýsa stílnum á heimilinu?

„Ég er örugglega svolítið minimalísk því ég vil ekki hafa heimilið ofhlaðið af dóti, ég vil frekar að þeir hlutir og húsgögn sem eru á heimilinu fái að njóta sín. Mér finnst rosalega gaman að kaupa nýja muni sem eru í tísku en mér finnst líka gaman að eiga hluti með sögu. Við erum til að mynda með grænan flauelsbekk og stól í stíl frá ömmu og afa Kristjáns sem okkur þykir mjög vænt um.

Við erum til að mynda með grænan flauelsbekk og stól í stíl frá ömmu og afa Kristjáns sem okkur þykir mjög vænt um.

- Auglýsing -

Fengum það og kistuna undir hansahillunum í arf frá þeim. Hansahillurnar fengum við svo hjá tengdamömmu, hún var með þær í geymslunni og okkur langaði svo að leyfa þeim að njóta sín uppi við og fengum þær. Mér finnst gaman að vera með húsgögn sem eru ekki fjöldaframleidd, eins og til dæmis sófaborðið og bekkinn við borðstofuborðið sem frændi minn, Hafsteinn Halldórsson hjá Happy Furniture, sérsmíðaði fyrir okkur. Borðstofuborðið okkar er úr hnotu en það keyptum við á lagersölu hjá Tekk Company og við vorum lengi að leita að bekk við það. Ég sendi svo Hafsteini mynd af borðinu og hann smíðaði bekk sem smellpassar við það.“

Grænu bekkurinn er arfur og málverkið er eftir Auði Marinósdóttur.

Fannst hún ekki falleg í fyrstu en þykir vænt um hana núna

Hvað finnst þér skipta mestu máli þegar kemur að heimilinu; lýsingin, litirnir eða uppröðun hluta og húsgagna? „Ég er voða mikið fyrir að færa til hluti og held mér finnist uppröðunin skipta mestu máli. Á óskalistanum núna, eða þegar við flytjum næst, er Butterfly-stóll úr Casa, það væri draumur að eignast hann þegar við förum í stærra húsnæði. Mig langar líka að eignast ljós frá secto yfir borðstofuborðið og svo væri æðislegt að fá nýtt risastórt rúm svo við getum öll kúrt saman. En okkur vantar svo sem ekki neitt og erum ótrúlega ánægð. Það hefur alveg komið upp sú hugmynd að taka eldhúsið í gegn en það er alveg fínt þótt það sé orðið gamalt, það er meira bara pjatt að vilja skipta því út. Mér þykir bara vænt um það sem við höfum. Fyrst þegar ég kom hingað og sá svalahurðina fannst mér hún alls ekki falleg en með tímanum fór mér að þykja vænt um hana. Mér finnst einhver sjarmi yfir því að hafa hlutina ekki fullkomna. Í dag myndi aldrei vilja skipta um svalahurð.“

- Auglýsing -
Baðið var nýlega tekið í gegn. Innréttingin er úr IKEA, spegillinn úr Esju Dekor.

Með glasa-„fetish“

Hvar finnst þér skemmtilegast að versla hluti og annað fyrir heimilið? „Mér finnst rosalega gaman að kíkja í alls konar verslanir, ég er ekki háð því að hluturinn sé einhver merkjavara. Ég kaupi bara það sem heillar mig. Módern finnst mér rosalega falleg búð og ég viðurkenni að mér finnst Illum Bolighus í Kaupmannahöfn líka æðisleg, sérstaklega fyrir jólin, það eru svo fallegar útstillingar í gluggunum og í Kaupmannahöfn fær maður jólastemninguna beint í æð. Ég er að verða meira jólabarn með aldrinum og sérstaklega eftir að ég eignaðist son minn. Honum fannst til dæmis æðislegt að við skyldum skreyta jólatréð svona snemma í ár,“ segir Erna brosandi og þegar við spyrjum hana hvar hún fái helst innblástur fyrir heimilið segist hún skoða Pinterest mjög mikið.

Ég er að verða meira jólabarn með aldrinum og sérstaklega eftir að ég eignaðist son minn.

„Svo skoða ég líka oft tímarit eins og Bo Bedre og Hús og híbýli, Instagram-síður  og hönnunar- og lífsstílsblogg.“

Málverkið í herberginu hans Jóhannesar Inga er af fjölskyldukettinum Týra. Sigurður Sævar málaði það og gaf þeim en eiginmaður Ernu var sundþjálfari málarans til margra ára.

En hverju tekur þú helst eftir þegar þú kemur inn á önnur heimili? „Persónulegum stíl þeirra sem þar búa en mér finnst öll heimili hafa sinn sjarma,“ svarar hún einlæg en ætli Erna sé að safna einhverju sérstöku fyrir heimlið? „Ég safna kannski helst fallegum glösum, ég er með eitthvað glasa-„fetish“ og safna sérstaklega rauðvínsglösum.“

Sörubakstur og kósíkvöld í desember

Erna segist byrja að skreyta í byrjun desember og hún keypti á hverju ári nýtt skraut á jólatréð þar til í fyrra þegar hún keypti gylltar og silfraðar kúlur og ákvað að þær yrðu notaðar hér eftir. „Ég vil ekki vera með of mikið jólaskraut, frekar færri hluti og vandaðari. Mér þykir sérlega vænt um stjörnuna á toppnum því þessi stjarna var alltaf á jólatrénu þegar ég var að alast upp en mamma gaf mér hana svo fyrir nokkrum árum“.

„Ég safna kannski helst fallegum glösum, ég er með eitthvað glasa-„fetish“ og safna sérstaklega rauðvínsglösum.“

En hvað finnst þér ómissandi á aðventunni? „Ég og mamma reynum alltaf að baka saman sörur, mér finnst æðislegt að eiga sörur í frystinum. Á Þorláksmessu finnst okkur svo gaman að labba Laugaveginn og alltaf á föstudögum í desember höfum við kósíkvöld og horfum saman á jólabíómyndir.“

Hvernig eru svo jólin hjá ykkur? „Á aðfangadag erum við með tengdafjölskyldunni, við erum stór hópur saman sem mér finnst rosalega gaman, örugglega vegna þess að ég er sjálf einkabarn. Á gamlárskvöld ætlum við að vera hér heima og foreldrar mínir koma til okkar. Pabbi minn hefur alla tíð verið mikil sprengjukall.“

Og þá verðum við að vita hvað kemur þér í jólaskap? „Að kíkja á jólamarkaði í Kaupmannahöfn og fara í jólatívolí og fá sér heitt súkkulaði,“ svarar hún að bragði.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -