Ólafur hefur viðhaldið stöðugum áhuga sínum á vatnslitamiðlinum og notað hann allt frá 2009 til þess að rannsaka liti, hreyfingu og tíma. Verkin vekja tilfinningar um rými og birtu en Ólafur bar síendurtekið örþunnt vatnslitalag á pappírsörk í mjög nákvæmu sköpunarferli.
Í Gallerí i8 eru sýndar tvær seríur skyldra verka og nýtt stórt vatnslitaverk sem unnið er með bráðnandi jökulís. Sjö verk eru í annarri seríunni sem heita Solar short term memory og snúast þau um skínandi hringform en hin serían sem er með smærri verkum heitir Circular hand dance voids en þar koma fram fíngerðir sporbaugar sem teiknaðir eru fríhendis. Báðar seríurnar sýna samhengið á milli þess sem listamaðurinn kallar „eyður“ og „fasta“ milli nánast auðrar arkar og þeirra flata sem málað hefur verið á. Titilverk sýningarinnar, Beyond human time, var gert með því að nota ævafornan jökulís úr Grænlandsjökli en hann var notaður í innsetninguna Icwe Wathc árið 2014 sem Ólafur vann með jarðfræðingnum Minik Rosing. En sjón er sögu ríkari og hér er á ferðinni áhugaverð og skemmtileg sýning fyrir alla listunnendur. Sýningin stendur til 15. ágúst.