Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Hátíðlegt heimili

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eva Sólveig Þórisdóttir og Jónas Einar Thorlacius búa í skemmtilegri íbúð skammt frá Digraneskirkju í Kópavogi.

Dóttirin Sigurrós dáist að trénu.

Það var einstaklega ljúft að mæta í jólainnlit klukkan níu á föstudagsmorgni, rok og rigning úti en þegar inn var komið tóku jólin á móti okkur löngu áður en þau áttu raunverulega hefjast. Fagurlega skreytt jólatré stóð í stofunni og svo var búið að að leggja á hátíðarborð, það vantaði bara jólasteikina!

Eva Sólveig Þórisdóttir og Jónas Einar Thorlacius búa í þessari skemmtilegu íbúð sem er í litlu fjölbýli ekki langt frá Digraneskirkju í Kópavogi. Þau tóku á móti blaðamanni og ljósmyndara með nýbökuðu kaffibrauði og alvörukaffidropum þennan hráslagalega morgun.

Sigurrós dóttir þeirra var komin í jólakjólinn og naut þess að fá að vera heima og handfjatla alvörupakka sem mamma hennar var búin að setja undir jólaskreytta tréð.

Eva lauk námi sem innanhússtílisti við Academy of Colour and Style vorið 2013 og segist hafa einstaklega gaman af því að dúlla við smáatriði og fegra í kringum sig og sína.

„Ég elska að dunda mér við að gera heimilið fallegt og legg mikið upp úr því að hafa huggulegt hjá okkur einfaldlega vegna þess að mér finnst það svo skemmtilegt.“

Nýtt þema á trénu um hver jól

Og hvenær ætli skvísan byrji að jólaskreyta heimilið? „Ég byrja vanalega að skreyta um miðjum desember þar sem mesti álagstíminn er þá í vinnunni, nema núna! Heimilið er næstum klárt fyrir jólin í nóvember af því þið kíktuð í heimsókn og ég get því bara dúllað mér í desember. Ég elska að dunda mér við að gera heimilið fallegt og legg mikið upp úr því að hafa huggulegt hjá okkur einfaldlega vegna þess að mér finnst það svo skemmtilegt.

- Auglýsing -
Eva lagði á hátíðarborð fyrir okkur og bjó til nafnspjöld fyrir gestina sína með stimpli sem hún keypti í Tiger. Diskarnir og glösin eru úr Garðheimum ásamt öllu skrautinu.

Ég fór í innanhússtílistanám til að geta nýtt þennan áhuga minn og ég hef verið að taka að mér að aðstoða fólk við að fegra heimilin sín og skipuleggja rými til hins betra heima hjá sér. Ég vinn sem stílisti í Garðheimum og sé um útlit verslunarinnar sem og útstillingar og uppstillingar upp fyrir auglýsingar. Ég er svo með síðu á Facebook sem heitir Eva-Innanhúsráðgjöf þar sem hægt er að hafa samband við mig,“ útskýrir hún brosandi.

Skreytir þú jólatréð alltaf eins eða aldrei eins fyrir hver jól? „Það er í raun aldrei eins, ég er yfirleitt með einhvers konar þema um hver jól sem sveiflast svolítið með tíðarandanum og hvað er í tísku hverju sinni, mínimalískur stíll er þó alltaf ráðandi hjá mér.“

Verslar mest erlendis

- Auglýsing -

Hvernig myndir þú lýsa stílnum á heimilinu? „Hann er hlýlegur, við heillumst af fallegri hönnun og viljum frekar eiga færri og vandaðari hluti en að drekkhlaða heimilið. Mig var til dæmis lengi búið að langa í Sindrastólinn og þegar ég varð þrítug fékk ég hann í afmælisgjöf frá pabba sem gladdi mig óendanlega mikið.“ Og hvar kaupið þið helst hluti fyrir heimilið? „Maðurinn minn er flugmaður hjá Icelandair og við kaupum flest, bæði föt og hluti fyrir heimilið, erlendis. Við höfum keypt stærri hluti, húsgögn þá sérstaklega, í verslunum hér á landi og hansahillurnar fengum við í Góða hirðinum. Svo kíkjum við í IKEA ef okkur vantar eitthvað,“ segir Eva hress að lokum og við kveðjum jólafínu fjölskylduna og dembum okkur út í rokið og rigninguna.

Pappapokinn svarti á gólfinu er úr netverslun sem heitir mixmix.is og einnig pappapokarnir í hillunni. Hillurnar í veggnum voru sérsmíðaðar hjá Sérsmíði á Skemmuvegi.

Aðalmynd: Borðstofuborðið er úr ILVA en stólarnir eru keyptir í Bretlandi. Ljósið fyrir ofan borðið er úr verslun sem heitir Dwell og er í London. Í bakgrunni sjást hansahillur úr Góða hirðinum og fallegir munir sem fegra heimilið.

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -