Mánudagur 27. janúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Heillandi lífrænn heimur í Vallanesi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vallanes á Fljótsdalshéraði í Vallahreppi er sannkölluð paradís. Vallanes á sér langa sögu og ná heimildir um búsetu aftur til tólftu aldar.

Í Vallanesi í dag fer fram lífræn ræktun á korni og grænmeti, fullvinnsla og framleiðsla tilbúinna matvæla sem grundvallast á hráefni sem ræktað er. Þar er einnig umfangsmikil skógrækt en á jörðinni hefur verið plantað fjölda trjáa og skjólbelta. Markmiðið er að rækta og nýta hráefni úr nánasta umhverfi.

Móðir Jörð heitir hollustu- og sælkeralína þeirra í Vallanesi og grundvallast hún á íslensku korni, grænmeti og jurtum. Hreinleiki er lykilatriði í ræktun og framleiðslu í Vallanesi þar sem ekki er notaður tilbúinn áburður eða eiturefni. Matvörurnar eru auk þess lausar við tilbúin hjálparefni, gervi- og litarefni sem er aldeilis í takt við þá þróun sem er að eiga sér stað svo víðs vegar um heiminn. Umhverfisvæn framleiðsla og ræktun er framtíðin sem við viljum sjá. Þess má geta að allar vörur frá Vallanesi bera vottunarmerki Vottunarstofunnar Tún um alþjóðlega viðurkennda framleiðsluhætti um lífræna ræktun og framleiðslu.

Hjón með hugsjónir

Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir eru bændur í lífrænni ræktun, hann er búfræðingur að mennt og starfaði að loknu námi erlendis við búrekstur; í Bretlandi, Svíþjóð og Noregi. Eymundur hlaut Landbúnaðarverðlaunin árið 2004 fyrir notkun á skjólbeltum og skógrækt í landbúnaði og heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumkvæði á sviði búskaparhátta og matvælamenningar árið 2011.

Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir

Árið 2012 var hann tilnefndur til Umhverfisverðlauna Norðurlandanna m.a. fyrir að leggja áherslu á mannlegan fjölbreytileika en ár hvert starfa hjá honum ungir sjálfboðaliðar og mynda þannig alþjóðlegan félagsskap sem er trúr jörðinni og lærir að sýna umhverfi sínu virðingu. Eygló er viðskiptafræðingur og er hún er einn af stofnendum Slow Food- hreyfingarinnar á Íslandi og einnig formaður VOR; Verndun og ræktun, sem er félag lífrænna framleiðenda.

Einstakt hús úr öspum

- Auglýsing -

Húsið í Vallanesi, er kallað Asparhúsið og vekur athygli fyrir þær sakir að þetta mun líklega vera fyrsta húsið sem vitað er til að sé reist eingöngu úr íslensku timbri. Aspir sem uxu í Vallanesi voru nefnilega aðallega notaðar í húsbygginguna en einnig lerki og greni. Sami efniviðurinn var svo notaður í innréttingar og húsgögn sem skapar áhugaverða heild.

Aspirnar voru gróðursettar fyrir 30 árum og timbrið í húsið var unnið hjá Skógrækinni á Hallormsstað og hjá Skógarafurðum ehf. á Ytri-Víðivöllum í Fljótsdal. Húsið er sérlega heillandi og það er án efa gaman að sjá tré sem Eymundur plantaði sjálfur fyrir um 30 árum síðan verða að húsi. Húsið hýsir verslun Móður Jarðar þar sem í boði eru ýmsar lífrænar mat- og heilsuvörur sem framleiddar eru á staðnum úr íslensku hráefni, sem og ferskt grænmeti.

Asparhúsið er að miklu leyti úr asparviði sem hefur langar trefjar og er því sterkur. Þetta er viðurkenndur smíðaviður í burðarvirki húsa.
Mynd / Áslaug Snorradóttir

Í Vallanesi er boðið upp á staðbundinn morgunverð úr íslensku byggi og létta grænmetisrétti í hádeginu úr fersku, íslensku og útiræktuðu grænmeti. Eymundur og Eygló rækta lífrænt bygg og alls kyns grænmeti og framleiða fjöldann allan af vörum í Vallanesi undir vörumerkinu Móðir Jörð og við hvetjum alla sem eiga leið hjá að líta við hjá þeim og smakka lífrænt ræktaða hollustu beint frá bændum. Það er heillandi og skemmtilegt!

- Auglýsing -

Þess má geta að Asparhúsið í Vallanesi er opið frá 9-18 virka daga, opið alla daga júní-ágúst. Er ekki tilvalið að skella sér í sumar?

Myndir / Áslaug Snorradóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -