Blaðamaður og ljósmyndari Húsa og híbýla fengu að kíkja til Unu og Björns sem búa ásamt börnum sínum tveimur og kettinum Eldibrandi í fallegu einbýlishúsi í Seljahverfinu. Una er verslunarrýmis- og útstillingahönnuður hjá IKEA og Björn er byggingatæknifræðingur hjá Þjóðskrá Íslands.
Stofan seldi húsið
„Húsið er teiknað af teiknistofu Hauks Viktorssonar árið 1980 en byggt 1981. Við keyptum húsið síðasta sumar,“ segir Björn. Aðdragandinn að kaupunum var skemmtilegur. „Við Bjössi vorum úti að skokka og hann bendir mér á húsið og segist hafa verið að pæla í þessu húsi fyrir nokkrum árum. Svo var það auglýst aftur til sölu og við fórum og kíktum á það,“ segir Una aðspurð að því hvernig þau komu auga á húsið.
Töluverður hæðarmunur er á hæsta og lægsta punkti lóðarinnar sem er afar vel leystur af hönnuði en stofan sem snýr í norðaustur er tekin niður og stendur á súlum. „Þegar við komum inn fyrir forstofuna og ég sá stofuna þá var þetta selt. Mig hefur alltaf dreymt um stofu sem er niðurtekin,“ segir Una en þau eru bæði sammála um að stofan hafi heillað þau mest auk lofthæðarinnar og bætir Björn við að skipulagið í húsinu sé gott og síðast en ekki síst hafi útsýnið úr stofunni að Esjunni heillað mjög.
Nauðsynlegt að bera virðingu fyrir arkitektúrnum
Þar sem Una starfar sem útstillingahönnuður er ekki úr vegi að spyrja hvort þeirra ráði meiru á heimilinu þegar kemur að vali á innanstokksmunum, litum og útliti heimilisins almennt.
„Það er klárlega útstillingahönnuðurinn, ég er samt yfirleitt spurður álits til að gæta jafnræðis,“ segir Björn. Una er sammála því en segir jafnframt að ef Björn sé í einhverjum vafa þá takist henni yfirleitt að sannfæra hann en þau séu samstíga í þeim framkvæmdum sem gerðar séu á heimilinu.
Loftin í húsinu eru panelklædd og veggirnir í stofunni einnig og er það mjög einkennandi fyrir húsið. „Fólkið sem byggði húsið dreymdi um að eignast sumarbústað en höfðu ekki tök á að eignast hvoru tveggja, hús og sumarbústað, þess vegna er svona mikill panell í húsinu,“ segir Una en þau ákváðu að halda öllum viðnum í upprunalegu horfi. „Það er geggjað að sitja í stofunni á sumrin, þegar trén eru laufguð og græn, þá er eins og maður sé í tréhúsi og mér líður eins og ég sé úti í skógi. Það veitir ákveðna hlýju og þetta lætur mér líða vel. Húsið er svolítið einkennandi fyrir okkar stíl og það er líka nauðsynlegt að bera virðingu fyrir arkitektúrnum, þess vegna ákváðum við að halda viðnum á veggjum og í loftum í upprunalegu horfi,“ segir Una.
Mikilvægt að finna ræturnar og vera trúr þeim
Ég rosalega höll undir „mid-century modern“, það heillar mig og appelsínugulir, grænir og brúnir tónar gera það líka. Ég er lítið fyrir hvítt. „Mid-century modern“ er hreyfing sem spratt upp eftir seinna stríð en einkennandi fyrir hana er meðal annars tenging við náttúruna og stórir gluggar þar sem samtal á milli þess sem er úti og inni er mjög mikilvægt. Viðarklæðningar og náttúrulegir tónar í bland við skarpa, bjarta liti, náttúruleg efni og plöntur sem hafðar eru inni við til að skapa náttúrulega stemningu er einning einkennandi fyrir stefnuna.
Meira um þetta skemmtilega hús í 3. tölublaði Húsa og híbýla sem er fáanlegt á sölustöðum til 28. mars þegar nýtt og ferskt Hús og híbýli kemur út!
Texti / Stefanía Albertsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson