Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Hrátt og heillandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorsteinn Eyfjörð Jónsson, eigandi Handverkshússins, og gullsmiðurinn Lovísa Halldórsdóttir Olesen búa í fallegu einbýlishúsi í Garðabænum ásamt börnum þeirra beggja og hundinum Myrru.

Einbýlishús þeirra Þorsteins og Lovísu var byggt árið 1968 og eru rúmir 240 fm að stærð. Húsið er vel skipulagt á einni hæð og er rýmið töluvert opið og flæðir skemmtilega. Þau fluttu inn sumarið 2017 og bjuggu þar á undan í lítilli íbúð í næsta nágrenni. „Við kunnum mjög vel við okkur hérna í Garðabænum og ákváðum bara að halda okkur í hverfinu.“  Áður en þau fluttu inn hafði töluvert mikið verið endurnýjað, svo þau þurftu ekki að fara í miklar endurbætur.

Handverkshúsið

Þorsteinn stofnaði Handverkshúsið fyrir um 20 árum, en Lovísa starfar einnig þar hluta dags þar sem hún er yfir gullsmíðadeildinni. Hún útskrifaðist sem gullsmiður frá Iðnskólanum árið 2007 og er með skartgripamerkið by lovisa. Hún með verkstæðið sitt heima og segir það algjöran lúxus. „Ég get verið að vinna heima á kvöldin og börnin að leika frammi, en þau vita bara af mér hér inni.“

Stofuborðið er útbúið úr vörum frá nýrri deild Handverkshússins: Home og ljósið er frá House Doctor úr Fakó. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Þosteinn talar um nýjung hjá Handverkshúsinu, en þau séu að koma á laggirnar Home Decor-deild. „Við fundum fyrir ákveðinni vöntun á markaðinum fyrir þann hóp sem vill skapa, smíða og græja sjálfur heima fyrir. Fólk getur þá fengið smávegis þjónustu og aðstoð í kringum það og keypt hráefni eða harðvið til að smíða hillur, borð og fleira inn á heimilið.“

Flotað gólf lætur húsgögnin poppa

- Auglýsing -

Hvaðan koma húsgögnin og hvar verslið þið aðallega inn á heimilið? „Þetta er algjört sambland hjá okkur en við finnum hitt og þetta sem okkur þykir passa inn, sama hvort það er úr Ikea, Pennanum eða Lumex.“

Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Þegar þau tóku við húsinu var gólfið flotað og var á dagskrá að velja annað gólfefni. „Svo erum við bara algjörlega að fíla gólfið svona flotað, húsgögnin fá að njóta sín svo vel, en þessi grái bakgrunnur virkar vel með eldri húsgögnum.“

Stíllinn okkar er frekar einfaldur, nýtt í bland við hlýleg eldri húsgögn með karakter, náttúrulegur hrár viður og dökkir tónar.

Aðspurð um stílinn segjast þau aðallega vera að reyna að skapa hlýlegt heimili og láta hlutina virka í rýminu. „Stíllinn okkar er frekar einfaldur, nýtt í bland við hlýleg eldri húsgögn með karakter, náttúrulegur hrár viður og dökkir tónar. Bæði hornskápurinn í stofunni og skenkurinn í forstofunni eru dönsk smíði og hefur hefur hvort tveggja fylgt Þorsteini í 25 ár. „Ég hef oft reynt að reynt að losna við hornskápinn í gegnum tíðina því hann er fyrirferðamikill og passar ekki inn allsstaðar, en nú er hann loksins kominn á réttan stað.“

- Auglýsing -

Persónuleg list á veggjum

Aðspurð um uppáhaldshlutina eru þau Þorsteinn og Lovísa sammála um að það séu þau verk eða myndir sem börnin hafa búið til og gefið þeim. Á veggjunum má sjá mörg persónuleg verk, innrammað ljóð sem er í sérstöku uppáhaldi, myndir eftir dóttur Lovísu, málverk eftir Arnþór Þorsteinsson, afa Þorsteins, og hin ýmsu verk sem hafa ratað með þeim heim eftir ferðalög.

Er einhver hönnuður í uppáhaldi? „Karl Lagerfield stendur upp úr hvað varðar fatahönnun, en hvað varðar innanhússhönnun erum við mikið fyrir þetta skandinavíska og svolítið að vinna með „less is more“.“

Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Parið segist safna fallegum bókum, en Þorsteinn segist hafa frelsast úr viðjum þess að sanka að sér hlutum fyrir um tveimur árum – hann safnar þó enn sjaldgæfum hráefnum sem er hægt að nýta í einhverskonar sköpun þegar tími gefst.

Aðspurð um hvað sé á döfinni tala þau um að næst á dagskrá hvað varðar húsið sé að taka garðinn í gegn og smíða harðviðarpall. „Við fluttum inn síðasta sumar og þurftum auðvitað tíma til að gera notalegt og koma okkur fyrir, en garðurinn var eins og Amazon-frumskógurinn og það þarf að taka hann í gegn,“ segir Lovísa og skellir upp úr. En þau hlakka til að gera notalegt í garðinum þegar að því kemur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -