Fimmtudagur 23. janúar, 2025
2 C
Reykjavik

Hvað ætla hönnuðirnir að sjá á HönnunarMars?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Umsjón/ María Erla og Guðný Hrönn

HönnunarMars hefst á morgun, 19 maí, og er þetta í 13. sinn sem hátíðin er haldin. Viðburðurinn er stærsta hönnunarhátíð landsins. Við heyrðum í nokkrum hönnuðum sem sýna á HönnunarMars í ár og spurðum þau meðal annasr út í hvað þau ætla að sjá.

Sigmundur Freysteinsson fatahönnuður

Mynd/ Hallur Karlsson

Hvað ert þú að sýna á HönnunarMars?

Síðastliðið ár hef ég gert tilraunir á rúmlega 40 mismunandi litunarefnum frá plöntum, þangi og matarúrgangi. Afurðin er greinargóður gagnagrunnur náttúrulita úr íslensku umhverfi sem verður sýndur á HönnunarMars. Markmiðið með rannsókninni er að kanna möguleika íslenskrar textíllitunnar sem umhverfisvænan valkost fyrir framleiðslu á nútímahönnun. Sýningin verður á Hönnunarsafni Íslands og þar verður hægt að sjá hversu fjölbreytta liti má ná fram með náttúrulegu litarefni úr íslensku umhverfi.

Hvað ætlar þú að sjá á hátíðinni og hvers vegna?

Ég reyni alltaf að fara á fjölbreyttar sýningar á HönnunarMars til að fá góða innsýn í hvað hönnuðir Íslands eru að fást við. Ég er spenntur að sjá hvaða sýningar verða hjá textíl- og fatahönnuðum í ár. Einnig er ég forvitinn að sjá hvort sýningar verða öðruvísi í ár vegna þess að flest verkin verða unnin á tímum COVID en því geta fylgt ýmsar takmarkanir.

- Auglýsing -

Hvaða þýðingu hefur HönnunarMars fyrir þig?

Fyrir mér er HönnunarMars uppskeruhátíð hönnuða á Íslandi. Það er frábært að hafa vettvang þar sem hönnuðir geta komið saman og kynnt ný verkefni. Einnig finnst mér gaman og hvetjandi að sjá hversu mikil gróska er í landinu í mismunandi greinum hönnunar.

Viktor Breki Óskarsson leirlistamaður

Hvað ert þú að sýna á HönnunarMars?

- Auglýsing -

Verkefnið er samstarf milli Hannesarholts og Myndlistaskólans í Reykjavík. Hannesarholt er veitingastaður og sýningarrými staðsett á Grundarstíg í Miðbæ Reykjavíkur. Samstarfið felst í því að hanna disk og eldfast mót í formi skálar fyrir veitingastaðinn en einnig er sett upp sýning í rýminu sem varpar ljósi á sköpunarferlið.

Hvað ætlar þú að sjá á hátíðinni og hvers vegna?

Það eina sem ég hef neglt niður er Studioh50. Samtal á milli leirs og efnis, ég hlakka mikið til. Svo mun forvitnin draga mig áfram þegar nær dregur.

Hvaða þýðingu hefur HönnunarMars fyrir þig?

Mér finnst HönnunarMars hjálpa mér persónulega við að uppgötva hvað er að gerast í listsköpun og vöruhönnun á Íslandi á ári hverju. Ég er ekki nógu duglegur að sækja sýningar í það heila en HönnunarMars hefur gefið mér svolítið spark í rassinn.
Í stóra samhenginu vona ég einnig að ég muni geta notað HönnunarMars til þess að koma minni sköpun á framfæri á komandi árum.

Þórdís Erla Zoëga myndlistarmaður

Mynd/ Sunna Ben

Hvað ert þú að sýna á HönnunarMars?

„Ég og maðurinn minn, Kristján Jón Pálsson, erum með nýstofnað hönnunarstúdíó sem heitir Stúdíó Flötur. Stúdíó Flötur vinnur á mörkum myndlistar og hönnunar og leggur áherslu á fleti. Varan sem við erum að vinna í núna eru sérhannaðar vínylmottur sem koma í takmörkuðu upplagi og eru númeraðar og áritaðar. Þær eru hugsaðar sem listaverk á gólf, en einnig er hægt að hengja þær upp á vegg. Sýningin okkar á HönnunarMars heitir Funky terrazzo þar sem að motturnar eru undir áhrifum frá terrazzo-flísum, en þær geta samanstaðið af í rauninni hverju sem er á vínylmottufletinum. Við hönnum bæði okkar eigin mottur undir formerkjum Stúdíó Flatar og svo fáum við listamanninn Áslaugu Í.K. Friðjónsdóttur og hönnunardúóið And Anti Matter, en Þórey Björk Halldórsdóttir og Baldur Björnsson skipa það, til að hanna sínar eigin terrazzo-listaverkamottur í takmörkuðu upplagi. Viðburðurinn er haldinn á Hafnartorgi í Pop up-rýminu þar sem pílustaðurinn SKOR er með starfsemi sína.“

Hvað ætlar þú að sjá á hátíðinni og hvers vegna?

„Ég er mjög spennt fyrir sýningunni Sjónarhorn með Hönnu Dís Whitehead og Guðmundi Úlfarssyni. Það er eitthvað mjög áhugavert við samstarf þeirra þar sem að þau vinna út frá letri á mjög skapandi hátt í mörgum miðlum. En svo hlakka ég til að sjá restina af dagskránni!“

Hvaða þýðingu hefur HönnunarMars fyrir þig?

„Þetta er geggjað tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og að sjá allt sem er að gerast í hönnun á Íslandi í dag.“

Valdís Steinarsdóttir hönnuður

Verkefnið SniðMót snýst um að hella fljótandi náttúrulegu efni í tvívítt form í stað þess að klippa út snið og sauma saman flík.

Hvað ert þú að sýna á HönnunarMars?

„Verkefnið SniðMót er rannsókn á nýrri aðferðafræði við framleiðslu á fatnaði. Í stað þess að klippa út efni og sauma á hefðbundinn hátt er notast við tvívítt form sem náttúrulegu fljótandi efni er hellt í. Þegar efnið hefur þornað er það tekið úr mótinu og þá er flíkin að mestu tilbúin, einungis þörf á lítils háttar frágangi. Mótið er í raun hannað eins og púsl. Þannig er hægt að breyta sniðinu að vild, meðal annars er hægt að breyta stærð og sniði á flíkinni eftir því hvernig mótinu er raðað saman. Þegar notandinn hefur fengið nóg af flíkinni eða vill breyta til getur hann brætt hana og hellt efninu aftur í mótið. Þá hefur notandinn möguleika á því að breyta mótinu og nýta efnið til að búa til nýja flík. Ég mun líka sýna Mygluprentara sem ég hef verið að vinna að í samstarfi við hönnuðina Arnar Inga og Sigrúnu Thorlacius. Við höfum verið að skoða hvernig hægt er að nýta myglu sem eins konar lífrænt blek til að prenta á lífrænt efni.“

Hvað ætlar þú að sjá á hátíðinni?

„Ég er mjög spennt að sjá Stúdíó Fléttu, sýninguna Hlutverk í Ásmundarsal, samstarfið hjá Hönnu Dís Whitehead og Guðmundi Úlfarssyni og sýninguna Fylgið okkur í Gerðarsafni.“

Hvaða þýðingu hefur HönnunarMars fyrir þig?

„Mér þykir mjög vænt um HönnunarMars. Það er gríðarlega mikilvægur partur af vinnu hönnuða að miðla verkum sínum til almennings og HönnunarMars gefur okkur sviðsljósið til að gera það.“

Ragna Sara Jónsdóttir, eigandi hönnunarfyrirtækisins FÓLK

Mynd/ Saga Sig

 

Hvað eruð þið að sýna á HönnunarMars?

FÓLK verður í ár með fjölbreytta sýningu á Hafnartorgi, nánari tiltekið á Tryggvagötu 25. Við verðum í frábæru hornrými sem er rúmgott og gefur okkur tækifæri á að sýna bæði þær vörur sem við erum að hanna, framleiða og selja nú þegar undir vörumerkinu FÓLK Reykjavík en einnig munum við gefa innsýn í hönnunar- og þróunarferlin okkar sem við vinnum í samstarfi við bæði hönnuði og framleiðendur.

Í ár erum við með fókus á endurvinnslu og hringrás margs konar hráefnis og höfum verið að vinna í þróun ásamt spennandi hönnuðum sem við erum að vinna í fyrsta skipti með, en það eru Tinna Gunnarsdóttir, Stúdíó Flétta og Ragna Ragnarsdóttir. Allt eru þetta frábærir og hæfileikaríkir hönnuðir sem hefur verið virkilega spennandi að vinna með. Einnig munum við sýna glænýja hönnun eftir þá hönnuði sem við höfum verið að vinna með síðustu tvö til þrjú ár, en það eru Jón Helgi Hólmgeirsson, Ólína Rögnudóttir og Theodóra Alfreðsdóttir. Við erum mjög spennt að sýna ykkur afrakstur þessa hönnunarsamstarfs.

Við munum einnig bjóða upp á hönnunarspjall í nokkur skipti yfir HönnunarMarsinn þar sem við veitum innsýn í samstarf hönnuða og vörumerkis, þróunarferlið og áherslu okkar á sjálfbærni og hringrás hráefna.

Hvað ætlar þú að sjá á hátíðinni og hvers vegna?

Eins og alltaf þá verður án efa fjölbreytt framboð af spennandi sýningum og viðburðum á HönnunarMars. Það er alltaf spennandi að kíkja í Epal, á Hönnunarsafnið og í Fischer. Þá er ég sérstaklega spennt fyrir að kíkja á sýninguna Samtal hjá Studio H50, íslenska glerið hjá Kristínu og Fléttu og taka rúntinn niður í bæ og kíkja á sem flesta staði til að gera sem mest af nýjum uppgötvunum.

Hvaða þýðingu hefur HönnunarMars fyrir þig?

Fyrir íslenskt hönnunarvörumerki sem hannar og þróar allar sínar vörur frá grunni í samstarfi við íslenska hönnuði þá hefur HönnunarMars afar mikla þýðingu. Bæði veitir hátíðin almenningi og unnendum hönnunar tækifæri á að fá innsýn í störf hönnuða og skapandi ferla. En einnig veitir það okkur tækifæri til að sýna dagleg viðfangsefni okkar á spennandi hátt og fanga þannig athygli bæði almennings, arkitekta, nýrra söluaðila og síðast en ekki síst innlendra sem erlendra fjölmiðla, sem er afar mikilvægt fyrir okkur.

Hulda Katarína Sveinsdóttir og Hera Guðmundsdóttir, listakonur og hönnuðir hjá Studio H50

Mynd/ Hallur Karlsson

Hvað eruð þið að sýna á HönnunarMars?

Við í Studio H50 verðum með sýninguna Samtal sem er lifandi sýning á verkefni í þróun; samtal íslenskra jarðefna, þörunga og textíls þar sem hráefnið og eiginleikar þess stýra ferlinu. Verkefnið er í grunninn rannsókn á möguleikum þess að þróa vistvænan glerung fyrir keramík úr ösku þörunga og íslenskum jarðefnum, en það teygir anga sína líka í fleiri áttir. Sýningin fer fram á vinnustofunni okkar sem staðsett er á Hverfisgötu 50, 101 Reykjavík.

Hvað ætlið þið að sjá á hátíðinni og hvers vegna?

Við erum gífurlega spenntar fyrir samstarfsverkefnum eins og sýningu Studio Hönnu Whitehead og Guðmundar Úlfarssonar, Sjónarhorn, en það er alltaf áhugavert þegar ólíkir pólar mætast. Eins hlökkum við til að sjá sýninguna hjá Studio Valkea sem vinnur með sápur í mjög áhugaverðu upplifunartengdu samhengi.

Hvaða þýðingu hefur HönnunarMars fyrir ykkur?

Það frábæra við HönnunarMars er vettvangurinn sem hátíðin skapar fyrir samtöl á milli hönnuða og sýningargesta – það að geta myndað nýjar tengingar og kynnt sig og sínar hugmyndir á sama tíma. Við höfum báðar sýnt á HönnunarMars áður, hvor í sínu lagi, með fullkláruð verkefni svo við erum mjög spenntar að sjá í hvaða farveg hátíðin mun leiða verkefni sem enn þá verða í mótun þegar að opnun kemur.

Aníta Hirlekar fatahönnuður

Mynd/ Þórdís Reynis

Hvað ert þú að sýna á HönnunarMars?

„Ég er ótrúlega spennt að frumsýna og kynna gleraugnalínu sem ég hannaði í samstarfi við breska merkið Cutler and Gross í London.  Gleraugnalínan er hönnuð fyrir konur og einkennist af sterkum litasamsetningum, en við lögðum mikla áherslu smáatriðin í hönnuninni. Gleraugun eru framleidd á Ítalíu og eru handgerð en þau ríma vel við litríku sumarlínuna okkar. Það verður hægt að máta og forpanta í verslun Kiosk Granda og verður línan til sölu þar.“

Hvað ætlar þú að sjá á hátíðinni og hvers vegna?

„Ég er ótrúlega spennt að sjá nýjustu línuna frá MAGNEU sem verður einnig í Kiosk Granda. Og svo er ég alltaf spennt fyrir Ásmundarsal.“

Hvaða þýðingu hefur HönnunarMars fyrir þig?

„Mér finnst svo mikilvægt að taka þátt í HönnunarMars og sjá hversu mikið hönnunargreinarnar á Íslandi hafa farið vaxandi. Það er svo mikil sköpunarflóra í landinu og einstakt tækifæri að sjá hugmyndaflugið hjá fólki og hæfileikana.“

Hanna Dís Whitehead, hönnuður

Hvað ert þú að sýna á HönnunarMars?

„Ég er með tvær sýningar á HönnunarMars. Önnur þeirra heitir Sjónarhorn og er framhald á samstarfi mínu við leturhönnuðinn Guðmund Úlfarsson. Sýningin verður í Harbinger. Þar sýnum við samtal sem við höfum átt úr tvívídd í þrívídd og aftur til baka. Svo er ég með einkasýningu í salnum í Norræna húsinu. Þar er ég að leika mér að því að leyfa mynstrum að ráða formum. Sú sýning heitir Umskipti og má á henni meðal annars sjá stóla, vasa, borð og teppi.“

Hvað ætlar þú að sjá á hátíðinni og hvers vegna?

„Dagskráin þegar þetta viðtal er tekið er ekki alveg komin út en ég hef verið að fylgjast með mörgum verkefnum á Instagram. Ég kíki t.d. pottþétt í Hannesarholt á mjög metnaðarfulla sýningu þar á vegum nemenda í textíl og keramík í Myndlistaskólanum í Reykjavík, Hera og Hulda í Studio 50 á Hverfisgötu eru að gera spennandi tilraunir með íslenskan leir og glerung úr þörungum, það er alltaf eitthvað flott í Ásmundarsal og ekki spurning að ég athuga hvað Studio Flétta, Valdís Steinars og Gæla studio hafa verið að bralla. Ég reyni að kíkja líka alltaf í Epal þar er vanalega fjölbreytt úrval af alls kyns hönnun. Í raun er ég svo hönnunarþyrst að ég reyni að sjá sem mest alveg sama hvort það er tengt fatahönnun, grafískri hönnun, vöruhönnun eða einhverju öðru.“

Hvaða þýðingu hefur HönnunarMars fyrir þig?

„HönnunarMars er uppskeruhátíð hönnuða á Íslandi. Þar er tækifæri til að hitta fólk sem er að brasa það sama og þú allt árið um kring. Það er líka tækifæri á að eiga gott samtal við aðra gesti hátíðarinnar um verkefnin sín og fá innblástur af öðrum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Íslenskt fagtímarit um heimili og hönnun

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu 13 tölublöð á 1.538 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 2.430 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -