„Ég get ekki sagt annað en að ég sé mjög ánægður með þetta. Þetta er auðvitað bara toppurinn,“ segir Sigurður Þorsteinsson hjá Design Group Italia sem var að vinna til Compasso d’Oro-verðlaunanna fyrir Bláa lónið, en Compasso d’Oro þykja virtustu og eftirsóttustu hönnunarverðlaun Ítalíu.
„Við höfum unnið til ýmissa verðlauna í gegnum tíðina en þetta eru allra virtustu verðlaunin í hönnunarheiminum á Ítalíu og í raun á heimsvísu þannig að ég get ekki sagt annað en að ég sé mjög ánægður með þetta. Þetta er auðvitað bara toppurinn,“ segir Sigurður Þorsteinsson, „chief design officer“ og annar aðaleigenda hönnunarstofunnar Design Group Italia, DGI, í Mílanó, spurður hvernig tilfinning sé að vinna til þessara eftirsóttu verðlauna.
Það eru samtök hönnuða á Ítalíu, Associazione per il Disegno Industriale, ADI, sem afhentu Compasso d’Oro, eða Gullsirkilinn ítalska, eins og verðlaunin kallast í lauslegri þýðingu, við hátíðlega athöfn í hinu nýja safni ADI í Mílanó. Verðlaunin hafa verið veitt á tveggja ára fresti frá árinu 1954 og segir Sigurður ákvörðun samtakana um að verðlauna DGI fyrir vinnuna með Bláa lóninu hafa komið skemmtilega óvart.
„Við höfum unnið til ýmissa verðlauna í gegnum tíðina en þetta eru allra virtustu verðlaunin í hönnunarheiminum á Ítalíu og í raun á heimsvísu.“
„Oftast er Compasso d’Oro veittur fyrir áþreifanlega hluti eða vörur,“ útskýrir hann. „Það er sjaldgæft að óáþreifanleg verkefni, eins og langtíma hönnunarstefna á borð við þá sem við höfum unnið með Bláa lóninu, fái þessa viðurkenningu. Það gerir verðlaunin enn þá sérstakari fyrir okkur.“
Stýrum upplifun fólks
Sigurður gekk til liðs við stofuna árið 1992 og hefur frá byrjun leitt þá vinnu sem hún hefur unnið með Bláa lóninu. Hann segir að strax í upphafi hafi stofan og Bláa lónið komið sér saman um ákveðna hugmyndafræði og haft hana að leiðarljósi við mörkun fyrirtækisins, eða branding eins og það er kallað á ensku. Sú hugmyndafræði eigi mikilvægan þátt í góðu gengi Bláa lónsins.
„Hönnunarstefna Bláa lónsins sem þróuð var samhliða viðskiptastefnu fyrirtækisins, hefur verið mikilvægur hlekkur í árangri þess frá 1997,“ segir hann. „Við vinnum með svokallað „holistic aproach“ eða heildræna nálgun. Með öðrum orðum gengur okkar vinna út á að flétta saman og samræma innanhússhönnun, umbúðahönnun og þjónustuhönnun og fleira og ramma inn allt sem Bláa lónið stendur fyrir inn í heildstæða ímynd, hvort sem það eru ljósmyndir, þjónusta eða viðmót starfsfólks, því snertifletirnir við Bláa lónið eru svo margir. Við notum hönnun þannig til að auka áhuga á Bláa lóninu og stýrum mjög meðvitað hvernig fólk upplifir og sér það og höfum gert það alveg frá árinu 1997 með góðum árangri.“
Merkileg tímamót
Sigurður segir Compasso d’Oro-verðlaunin í raun vera viðurkenningu á hlutverki hönnunarhugsunar, þ.e. design thinking, í stefnumótun fyrirtækja og á áralöngu samstarfi þeirra Gríms Sæmundsen, stofnanda og forstjóra Bláa lónsins. Það sé ekki verið að verðlauna DGI og Bláa lónið fyrir eitthvað eitt tiltekið verkefni heldur alla hugmyndafræðina sem liggur að baki áratuga vinnu. Bláa lónið hafi einmitt fengið Hönnunarverðlaun Íslands fyrir „bestu fjárfestingu í hönnun 2017“ og nú sé Compasso d’Oro að staðfesta mikilvægi hönnunarstefnu í árangri framsækinna fyrirtækja.
„Margir eiga enn svolítið í land með að skilja fyllilega út á hvað heildræn hönnunarstefna gengur og þann mikla árangur sem hún getur skilað, þótt sumir séu farnir að kveikja á perunni, og því má líta á ákvörðun samtaka ítalskra hönnuðu um að verðlauna okkur fyrir vinnuna sem við höfum unnið með Bláa lóninu sem ákveðin tímamót, ekki síður en mikilvæga viðurkenningu.
Það er verið að verðlauna okkur fyrir þá ákvörðun að keyra stragedíu Bláa lónsins áfram út frá hönnunarstefnu.
Við erum auðvitað mjög ánægð með að einhverjir kunni að meta það og séu í stuttu máli að segja: Gott hjá ykkur,“ segir Sigurður léttur í bragði.
Spurður hvort hann telji að verðlaunin opni enn fleiri dyr segir hann að þau mun festa DGI enn betur í sessi og fái vonandi fleiri til opna augun fyrir mikilvægi heildrænnar hönnunarstefnu. Að hönnun gangi ekki bara út á að hanna áþreifanlega hluti heldur skapa stemningu með vörumerkinu og vekja ákveðin hughrif. „Samvinnan við Bláa lónið er einmitt dæmi um vel heppnað samstarf hönnuða og fyrirtækis,“ bendir hann á, „og sýnir bara hvað hægt er að ná langt ef samstarfsaðilar eru samstiga og með sterka sýn.“
Myndir / Bláa lónið og Design Group Italia