Á HönnunarMars sem fram fór í júní síðastliðnum kynntu Kormákur og Skjöldur verkefni sem þeir hafa verið að undirbúa í nokkur ár. Verkefnið er framleiðsla á íslensku tweed-efni eða vaðmáli úr íslenskri ull. Slík vara hefur ekki verið framleidd á Íslandi síðan á sjöunda áratug síðustu aldar.
Kormákur og Skjöldur vilja snúa þróuninni við þegar kemur að vefnaði úr íslenskri ull og hafa lagt upp með að hún verði aftur eins og hún var á árum áður þegar öll stig framleiðslunnar voru unnin hérlendis. Þeir hafa því hafið framleiðslu á íslensku „tweedi“ bæði fyrir innlendan og erlendan markað. Efnið er einnig frábær kostur sem áklæði á húsgögn og í samstarfi við Epal var hinn klassíski EJ 270-3 frá Erik Jörgensen klæddur hinu íslenska „tweedi“ en auk þess var hinn sígildi Kjarvalsstóll endurgerður með efninu. Húsgögnin eru enn til sýnis í Epal, Skeifunni. Samhliða þessu stofnuðu þeir félagar einnig Klæðskerastofuna hjá Kormáki & Skildi sem er nýtt stórverkefni unnið í samstarfi við Birnu Sigurjónsdóttur, Rakel Ýr Leifsdóttur klæðskera og Ragnar Kjartansson myndlistarmann. Er þetta fyrsta klæðskerastofan sem er opnuð á Íslandi síðan um miðja síðustu öld. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á herrafataverslun.is og hægt er að senda fyrirspurnir á [email protected]. Veljum íslenskt!