Hátíðarblað Húsa og híbýla er komið út. Blaðið er stútfullt af fallegum innlitum, hugmyndum, innblæstri og viðtölum við fagurkera. Þetta er blaðið sem kemur ykkur í hátíðarskap.
Við förum víða í nýja blaðinu, til dæmis heimsækjum við hlýlegt og smart heimili á Dalvík og skoðum töff nýbyggingu í Reykjanesbæ þar sem hver hlutur hefur verið valinn af kostgæfni.
Við hittum á Ingunni Emblu Axelsdóttur og fengum að forvitnast um hvernig hún skreytir alla jafna fyrir jólin.
„Heimilið mitt er í fullum skrúða allan ársins hring. En þegar ég legg í aukalegar hátíðarskreytingar hef ég einstaklega gaman að litlum jólatrjám sem geta síðar flokkast undir pottaplöntu eftir hátíðarnar,“ segir Ingunn meðal annars.
Við kíkjum þá í heimsókn til Hörpu Grímsdóttur sem býr í glæsilegu húsi í Garðabæ. Það var afar hátíðlegt að litast um hjá Hörpu þegar okkur bar að garði. Spurð út í hvernig hún skreyti yfirleitt fyrir hátíðirnar segist hún vera fremur minimalísk þegar kemur að skreytingum. „Ég skreyti ekkert sérstaklega mikið fyrir jólin en mér finnst alltaf skemmtilegt að nota lifandi greinar, hýasintur og amaryllis í skreytingar,“
Sunna Dögg, vöruhönnuður og listakona, hannaði póstkortið fyrir okkur en hún hefur komið víða við á lista- og hönnunarferli sínum. Hún lýsir sér sem sæblárri KitchenAid-hrærivél á hæsta snúningi; uppfull af hugmyndum, ósigrum og smásigrum.
Við heimsækjum Ingibjörgu Hönnu Bjarnadóttur hönnuð sem býr í fallegu Sigvaldahúsi í Hvassaleitinu ásamt manni sínum Jóni Trausta Kárasyni og þremur börnum. Fjölskyldan hefur búið í húsinu í eitt og hálft ár og unnið hörðum höndum að því að gera húsið að sínu.
Í blaðinu er svo einnig að finna innlit á heimili Karenar Óskar innanhússráðgjafa og Sóleyjar sem starfar sem viðskiptastjóri hjá Gallup. Karen lýsir stíl þeirra sem klassískum undir skandinavískum áhrifum. „Ég nota mestmegnis jarðliti eins og grænan, brúnan, rauðbrúnan og gráan í bland við sterkari liti í fylgihlutum og leyfi grunninum að vera frekar hlutlausum og notast þá mest við náttúruleg og endingargóð efni.“
Þetta og svo miklu meira í fallega hátíðarblaðinu.