Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Léttur og listrænn retróstíll í 33 fermetrum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðasta sumar heimsótti Hús og híbýli hjónin Brynju Sveinsdóttur og Friðrik Stein Friðriksson í litla og litríka risíbúð við Flókagötu þar sem þau bjuggu ásamt syni sínum.

 

Risíbúðin er í fallegu steinhúsi byggðu 1947 sem stendur rétt við Kjarvalsstaði.

Mælanlegir fermetrar eru eingöngu 33 en gólfflöturinn er um 60 fermetrar, „þegar maður býr svona smátt verður maður að reyna að nýta rýmið sem best og velja húsgögnin út frá súðinni.“

Brynja segir þau Friðrik einnig hafa sett töluvert af búslóðinni sinni í geymslu því það sé mikilvægt að passa að ofhlaða ekki rýmið.

Blái sófinn gerir mikið fyrir rýmið.

„Þrátt fyrir fermetrafjöldann erum við dugleg að halda matarborð og erum oft með átta manns í mat! Maður verður svolítið að hugsa í lausnum og vera meðvitaðri um að vinna með rýmið en þegar von er á gestum færum við sem dæmi eldhúsborðið í stofuna og stækkum það. Kosturinn við það að búa svona smátt er að við verðum að halda íbúðinni snyrtilegri og við reynum að finna hverjum hlut ákveðinn stað og ekki fylla allt af dóti.“

Fallegt rúmteppi úr Geysi.

Myndlist í stað skrautmuna

- Auglýsing -

Bæði Brynja og Friðrik eru alin upp í Vesturbænum en segast fíla nýja hverfið sitt í botn „Það er svo margt spennandi að gerast hérna, Reykjavík Roasters og Mathöllin á Hlemmi er hér handan við hornið og það sem er svo æðislegt á sumrin er að Klambratún er eiginlega bara garðurinn okkar.“

Fáninn er útskriftarverk myndlistarkonunnar Kristínar Dóru Ólafsdóttur.
Naívistahornið, málverk eftir Stórval og hundur frá Búrma.

Þau segjast einnig vera svo lukkuleg að komast upp með að vera ekki á bíl vegna staðsetningarinnar, en Friðrik er í göngufæri við vinnu og hjá Brynju eru aðeins tvær stoppistöðvar með næsta strætisvagni.

Aðspurð um stílinn á heimilinu segir Brynja þau reyna að vera með frekar létt húsgöng því það fari betur í smáu rýminu, en þau eiga mikið af tekkmunum í geymslu.

- Auglýsing -
Gerviplöntur eftir Auði Lóu Guðnadóttur.
„Þrátt fyrir fermetrafjöldann erum við dugleg að halda matarborð og erum oft með átta manns í mat!“

„Við reynum að hafa ekki of mikið af neinu og hafa heldur myndlist á veggjum en skrautmuni til að lífga upp á rýmið. Sófinn okkar eftir Svein Kjarval er í miklu uppáhaldi og hefur verið í fjölskyldu Friðriks lengi. Við létum yfirdekkja hann nýlega og ákváðum að halda honum í upprunalega stílnum og völdum efnið í takt við hann, áður var sófinn drapplitaður en okkur langaði í eitthvað aðeins litríkara.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Brynja talar um litla naívistahorn heimilisins sem er í miklu uppáhaldi, en þar má finna fjölbreytta barnalist og verk eftir utangarðslistamenn.

Við kveðjum fjölskylduna í listræna risinu við Klambratún.

Sólargul Flowerpot-ljós eftir Verner Panton lífga upp á eldhúsið.
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Hjónunum tókst að nýta hvern krók og kima vel.
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Í Hnotskurn

Fagurfræði eða notagildi?
Best þegar fagurfræði og notagildi fer saman en þó vegur fagurfræði eitthvað þyngra hjá mér. Á heimilinu eru þó ekki margir skrautmunir svo sem blómavasar og kertastjakar heldur fær myndlist að ráða ferðinni.
Um helgar er …
hverfið fullnýtt með íþróttaskóla í Valsheimilinu, sundi í Sundhöllinni og hádegismat á Hlemmi. Síðan er slappað af og á góðum degi hjólað í kaffi til vina eða ættingja. Mætti jafnvel enda daginn á Ban-Thai.
Te eða kaffi?
Kaffi á vinninginn þar sem það er bæði er nauðsyn og nautn.
Uppáhaldshlutur eða -húsgagn?Mér þykir mjög vænt um sófann sem hefur fylgt okkur í þónokkur ár og fékk verðskuldaða yfirhalningu þegar við fluttum inn í íbúðina. Listaverkin í íbúðinni eru þó í uppáhaldi, Drawing in Round Frame eftir Kristján Guðmundsson þykir mér dásamlega fallegt og gerviblóm Auðar Lóu Guðnadóttur gleðja mikið.
Griðastaður heimilisins?
Íbúðin er að vissu leyti eitt meginrými þar sem stofa og eldhús renna saman og eyðum við mestum tíma þar, hvort sem það er að elda, hlusta á tónlist, föndra eða slappa af.
Besta sundlaugin?
Sundhöllin er í miklu uppáhaldi eftir breytingar þó að Sundlaug Kópavogs sé fast á hæla henni.
Uppáhaldsborg?
Róm er í sérstöku uppáhaldi og ekki síst vegna þess hversu margar góðar ferðaminningar ég á þaðan og frá Ítalíu. Við bjuggum í Stokkhólmi í þrjú ár og er alltaf gaman að koma aftur til borgarinnar og rifja upp uppáhaldsstaði og -stundir.
Besta kaffihúsið?
Reykjavík Roasters í Þverholti er rétt handan við hornið og förum við mikið þangað til að vinna, hanga og lesa.
Uppáhaldsverslun?
Við kaupum okkur ekki mikið af hlutum á heimilið en Rabbar Barinn á Hlemmi er orðinn minn uppáhaldsstaður fyrir kaup á plöntum og kryddjurtum.
Uppáhaldshönnuður/listamaður?
Uppáhaldslistamenn eru nánast of margir til að nefna en Hreinn Friðfinnsson, Sigurlaug Jónasdóttir, Arna Óttarsdóttir og Gerður Helgadóttir eru í miklu uppáhaldi og er svo heppin að fá að umgangast verk Gerðar á hverjum degi í Gerðarsafni.

 

Ljósmyndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -