Fólk deyr ekki ráðalaust í miðjum heimsfaraldri og hafa margir reynt að skapa sér atvinnu á meðan reglur um fjöldatakmarkanir hafa staðið sem hæst.
Ruth Ingólfsdóttir, hárgreiðslukona og kennari, var ekki lengi að sjá tækifærin og nýtti tímann vel í fyrri og seinni bylgju faraldursins. Hún virkjaði sköpunarkraftinn og úr varð merkið Watercolor By Ruth þar sem hún málar fallegar, stílhreinar myndir með vatnslitum.
Ruth hefur góðan grunn í myndlist og hefur sótt fjölda námskeiða í Myndlistaskóla Kópavogs í gegnum tíðina sem hefur nýst henni vel í því sem hún gerir í dag. Þetta hefur þróast hratt hjá henni og samanstendur úrvalið nú af dagatölum, veggspjöldum með íslenska stafrófinu og nýjustu viðbótinni tækifæriskortum og merkimiðum.
Fyrir áhugasama má fylgjast með Ruth á samfélagsmiðlum, watercolorbyruth, og á heimasíðunni watercolorbyruth.is. Stöndum saman og styðjum við bakið á íslensku listafólki.