Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Lýsingin gegnir lykilhlutverki

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sandra Dís Sigurðardóttir er innanhússarkitekt og lýsingarhönnuður og ein af fáum sem er hvort tveggja hér á landi. Fasteignablaði Mannlífs lék forvitni að vita meira um áherslur og verkefni Söndru Dísar og hvort það væri ekki mikill kostur að samþætta þessi tvö starfsheiti þegar kemur að því að hanna rými.

Getur þú sagt okkur frá nýlegu verkefni sem er þér hugleikið og hvar þú fékkst innblásturinn? „UMI Hótel opnaði í ágúst 2017 en hönnunin á því er mikið til sótt í náttúruna og liti hennar. Ég notaði haustlitina töluvert í hönnuninni ásamt formum og áferð úr náttúrunni eins og til dæmis mosann og stuðlabergið.“

UMI Hótel opnaði í ágúst 2017.

Skiptir lýsing miklu máli? „Hún gegnir lykilhlutverki í hönnun á öllum rýmum. Um leið og rökkva tekur gegnir hún mikilvægu hlutverki í að skapa stemningu. Með réttri lýsingu er sömuleiðis hægt að hafa áhrif á vinnuafköst hjá starfsfólki og nemendum ásamt því að hún getur hjálpað til við bata hjá sjúklingum.“

Hvað hefur þú í huga þegar þú hannar og innréttar með lýsingu í huga? „Ég spyr mig að því hvaða hlutverki þetta rými gegnir, hver muni nota það og hvort sérstakar lýsingarkröfur séu gerðar til þessa rýmis. Með mismunandi lýsingarkröfum á ég við að það eru öðruvísi staðlar ef um er að ræða lýsingu á skrifstofu eða á hjúkrunarheimili, svo dæmi sé tekið.“

Lýsingin setur punktinn yfir i-ið hér.

Ertu hrifin af opnum rýmum þar sem eldhús, stofa og borðstofa tengjast saman? „Ég er persónulega hrifin af þannig rýmum en það hentar ekki öllum. Það getur verið gott fyrir suma ef möguleiki er á að stúka eldhúsið aðeins af. Einnig er hægt að hafa eldhústækin innbyggð að miklu leyti þannig að eldhúsið falli betur inn í stofuna.“

Lumar þú á góðum lausnum þegar velja á lýsingu í hin ýmsu rými? „Það þarf að skoða hvort það séu eitthverjir ákveðnir hlutir sem við viljum lýsa upp, til dæmis málverk eða listaverk. Einnig hvar við viljum geta dimmað lýsinguna. Mikilvægt er að huga að lýsingunni meðal annars inni á baðherbergi þar sem þörf er á góðri og jafnri lýsingu á andlitið fyrir förðun.“

Skiptir máli hvernig lýsing er valin í stofu? „Í stofunni er mest verið að hugsa um stemningslýsingu. Þar skiptir útlitið á lömpunum miklu máli fyrir útlitið á stofunni en nauðsynlegt þykir mér að hægt sé að dimma þá lampa sem þar eru. Einnig er gott að hafa nokkrar týpur af lömpum, til dæmis hangandi, loftlampa og standlampa til að skapa mismunandi stemningu.“

- Auglýsing -
Sandra mælir með að nota nokkrar týpur af ljósgjöfum í stofur.

Skiptir litaval máli hvað varðar lýsingu og stærð? „Endurkast er mismikið eftir litum þannig að ef valdir eru dökkir litir inn í rými draga þeir í sig birtuna og þarf þar af leiðandi meiri lýsingu en ef rýmið er ljóst. Fólk þarf ekki að vera hrætt við að mála í litum heima hjá sér, það gefur oftast meiri hlýju inn í rýmið og minnkar það ekki eins og margir eru hræddir um.“

Mynd / Hallur Karlsson

Sandra Dís útskrifaðist frá Istituto Europeo di Design í Mílanó árið 2011 sem innanhússarkitekt. Að loknu námi fór hún í starfsnám í Helsinki á innanhússarkitektastofu að nafni Studio Arcibella. Eftir að hún flutti heim til Íslands hafði Sandra Dís lokið námi við lýsingarhönnun og vinnur við hana hjá Lisku ásamt því að vinna sjálfstætt sem innanhússarkitekt. Hún heldur úti síðu á Facebook og heimasíðan hennar opnar bráðlega.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -