- Auglýsing -
Annan sunnudag í maí er mæðradagurinn haldinn hátíðlegur á Íslandi og víðar og ber hann upp á 10. maí þetta árið. Sala á Mæðradagsblóminu 2020 er hafin en Þórunn Árnadóttir vöruhönnuður hannaði kerti sem er mæðradagsblómið í ár.

Kertin koma í fimm mismunandi útgáfum þar sem leynileg skilaboð koma í ljós þegar kertin eru brennd. Þau skilaboð hafa sérstaklega verið valin af nokkrum frábærum konum sem veita innblástur. Á meðal þeirra sem völdu skilaboðin eru Eliza Reid forsetafrú, Vigdís Finnborgadóttir fyrrverandi forseti Íslands og Sigríður Thorlacius söngkona.

Með kaupum á kertinu styrkir þú Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur en allt frá árinu 2012 hefur sjóðurinn styrkt efnalitlar konur til náms og nýrra tækifæra. Styrkirnir sem hafa verið úthlutaðir í gegnum árin eru yfir 100 talsins. Kertin kosta 3.000 krónur og fást meðal annars í Epal.
