Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Mikill misskilningur að lítil rými þurfi eingöngu að vera í ljósum litum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í litlum rýmum er mikilvægt að hönnunarlausnir séu góðar. Gott skipulag er einnig lykilatriði en auk þess þarf rýmisupplifunin að vera ánægjuleg. Við tókum Katrínu Ísfeld innanhússarkitekt tali og báðum hana um að gefa lesendum góð ráð varðandi hönnun á litlum rýmum.

Katrín Ísfeld innanhússarkitekt útskrifaðist með BSc í innanhússarkitektúr frá Art Institute of Fort Lauderdale á Flórída en að námi loknu vann hún á Miami Beach við hönnun á lúxusvillum. Því næst fluttist hún til Hollands þar sem hún starfaði á innanhússarkitektastofu um þriggja ára skeið. Á Íslandi hefur hún meðal annars starfað hjá Innlifun PKdM arkitektum ásamt því að starfa sjálfstætt. Í dag rekur hún eigin hönnunarstúdíó í Brítetartúni 9-11 ásamt Katrínu Fjeldsted innanhússarkitekt þar sem þær stöllur vinna að hönnun fyrir viðskiptavini ásamt því að flytja inn og selja innréttingar frá ítalska fyrirtækinu Arrital.

 

Hvaða straumar og stefnur finnst þér vera mest áberandi í dag í arkitektúr og hönnun?
Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að sjá meira af litum, mýkt í textíl og formum, listrænar ljósmyndir og plöntur eru í tísku. Leitað er meira eftir að upplifunin í rýminu sé ánægjuleg, frumleg og falleg. Það sem er hart og kalt er loksins á útleið.

Hvað skiptir mestu máli að hafa í huga þegar lítil rými eru hönnuð?
Lítil rými þurfa að hafa gott flæði með auðveldan aðgang að hlutum. Grunnmyndin þarf að vera úthugsuð, allir sentímetrar vel nýttir. Varast skal of mikið af ferköntuðum formum þegar kemur að húsgögnum. Einnig skal reyna að útrýma göngum og of mikið af lokuðum rýmum þar sem hurðir mega oft missa sín en þar koma rennihurðir eða jafnvel engar hurðir sterkari inn.

 

- Auglýsing -
Katrín hannaði litla kjallaraíbúð í Hafnarfirði með mörgum sniðugum lausnum. Mynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir


Hver eru algengustu mistökin sem fólk gerir að þínu mati þegar kemur að litlum rýmum?

Fólk á það til að gera skipulagið of flókið en einfaldleikinn er bestur og mikilvægt er að minnka við sig dótið. Að skipuleggja nýjar hirslur sem falla vel að rýminu er mikilvægt og þar kemur IKEA sterkt inn. Það þurfa ekki allir hlutir að vera litlir, jafnvel stórar ljóskrónur og fallegir stærri hlutir en færri til skreytinga og svo er mikilvægt að festast ekki í því að það þurfi bara að velja hvíta liti á allt.

Rennihurðir er sniðug lausn í litlum rýmum til þess að spara pláss. Mynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Hvaða leiðir er best að fara þegar kemur að litavali í litlum rýmum?
Það er mikill misskilningur að lítil rými þurfi að vera eingöngu í ljósum litum, í því samhengi nota ég ljósari liti á móti dökkum mjúkum jarðlitum sem mynda skemmtilegar andstæður og gera lítil rými að flottri upplifun.

Þegar kemur að efnisvali, er eitthvað sérstakt sem þarf að hafa í huga þar?
Það er gott að velja frekar gluggatjöld inni í gluggarammann, svokallað „screen“, heldur en mikið af hangandi þungum gluggatjöldum. Nota gler, jafnvel sandblástursfilmur sem hleypa birtu í gegn en stúka rýmin af í stað veggja. Hirslurnar þurfa að falla vel inn í rýmið, þannig að ekki er tekið eins mikið eftir þeim. Það kemur vel út að mála hirslur og skápa í sama lit og vegginn þá falla hirslurnar alveg inn í, þá má hafa þær í dekkri lit, annars er betra að velja þær í ljósum litum og ljósari viðartegund.

- Auglýsing -
Hér var borðplötu úr öðru efni bætt við í framhaldi af innréttingunni sjálfri og nýtist það sem aukaborð til að borða við eða sem vinnuaðstaða. Mynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Hvaða leiðir eru bestar til þess að láta rými líta út fyrir að vera stærri en þau eru í raun?
Til dæmis að mála hirslur í sama lit og veggina sem þær falla að. Minnka við sig í húsgöngum, burt með mikið af litlum hlutum, rennihurðir eru snilld og speglar eru alltaf töfrar í litlum rýmum. Góð lýsing sem lýsir fallega upp rýmið er mikilvæg svo rýmin verði ekki dökk og dauð. Svo er mikilvægt að gleyma aldrei dimmerum.

Finnst þér algengara nú en áður að fólk kjósi að búa í minna húsnæði og hver er þín framtíðarsýn varðandi þau mál?
Þetta er sambland ýmissa ástæðna. Í dag hefur yngra fólk ekki efni á að kaupa stærri íbúðir, enda íbúðarverð mjög hátt. Það fer því í smærra húsnæði. Svo er það fólk sem er á miðjum aldri og kýs að minnka við sig, selja húsið og fer í fallegar íbúðir með þægilegri aðstöðu og sækist í að nálgast fallega náttúru með góðum gönguleiðum. Það er margt búið að gerast í hönnun á smærri rýmum og þá sérstaklega hjá nágrannaþjóðunum þar sem ungt fólk kýs að búa í borgum, vegna náms og eða vinnu. Þar eru íbúðirnar minni og mikill metnaður lagður í hönnun fyrir smærri rými. Þar má nefna IKEA sem eru svakalega sterkir í hönnun fyrir lítil rými. Iðnhönnuðir hafa lagt mikinn metnað í hönnun hvað þetta varðar, má þar nefna alls konar útfærslur á rúmum sem hægt er að lyfta upp eða breyta í seturými, sniðugar hirslur og svo er algengt að fólk reyni að koma hjólunum sínum fyrir inn í íbúðinni og hafa sprottið upp margar flottar lausnir í þeim málum.

Mynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir


Geturðu nefnt einhver dæmi um sniðugar lausnir sem henta vel á litlum baðherbergjum?

Grunnmyndin þarf að vera vel hugsuð með sturtu sem er ekki of lítil og auðvelt aðgengi er að því allir vilja góða sturtu. Háir veggskápar og hillur koma sterklega til greina þar sem dýptin á þeim getur verið frá 20 cm – 35 cm og er oft sniðugt að vera með rúnnaða eða hringlaga vaska, jafnvel á fallegum borðplötum sem auðveldar umgang og vaskurinn tekur minna pláss. Svo er sniðugt að leyfa sér að hafa flottan spegil, jafnvel stóran með fallegri lýsingu til aðlífga upp á litla fallega baðherbergið.

 

Viðtalið birtist í heild sinni í 5.tbl. Húsa og híbýla 2020.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -