Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Mikilvægt að halda í mennskuna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Gunnlaugsson arkitekt og eigandi Teiknistofunnar Archus segir að manneskjuleg sjónarmið eigi að vera í forgrunni þegar verið er að byggja á Íslandi. Þétting byggðar sé af hinu góða en með ákveðnum fyrirvara; ekki megi byggja of þétt eða of hátt. Guðmundur er á meðal handhafa umhverfisviðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs í ár.

„Eigendur Dalarþings 23 vildu fallegt einnar hæðar fjölskylduhús með fagurt útsýni yfir Elliðavatn. Ég varð við því með að hanna hús með stofum og eldhúsi sem snúa að vatinu og er búið gluggum sem eru margir hverjir gólfsíðir,“ segir Guðmundur.

„Það er afskaplega gaman að fá svona viðurkenningar. Það gleður alltaf,“ segir Guðmundur Gunnlaugsson, arkitekt og eigandi Teiknistofunnar Archus, sem á dögunum veitti viðtöku umhverfisviðurkenningu umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs 2020.

Viðurkenningarnar hafa verið veittar frá árinu 1964 en með núverandi fyrirkomulagi frá 1995 og hafa einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök fengið þær í ýmsum flokkum, svo sem umhirðu húss og lóðar, endurgerð húsnæðis, hönnun, framlag til umhverfis og samfélags svo dæmi séu tekin. Fimm viðurkenningar voru afhentar í ár. Hlaut Guðmundur viðurkenningu annars vegar fyrir hönnun á einbýlishúsi við Dalaþing 23 og hins vegar fyrir götu ársins, Lund við Nýbýlaveg, en Teiknistofan Archus og Gunnar Páll Kristinsson arkitekt og stofa hans, Rýma Arkiktektar, hönnuðu þar í sameiningu 410 íbúðir í fjölbýli; rað og parhús.

„Með þessu eru umhverfisviðurkenningarnar sem við höfum fengið frá Kópavogsbæ orðnar ellefu talsins, ef mér reiknast rétt til, sem er kannski staðfesting á að við séum að gera góða hluti,“ segir Guðmundur sposkur.

Eins og fallegt Kjarvalsmálverk

Spurður hversu stórt hlutverk umhverfissjónarmið hafi spilað í hönnun húsana segir hann að umhverfið hafi alltaf mikið vægi í hönnun Archus. „Ég legg alltaf áherslu á að byggingar falli vel að umhverfinu, byrja að pæla í útsýninu og sólaráttum og vinn meðal annars út frá því,“ útskýrir hann. „Sem dæmi vildu eigendur Dalarþings 23 fallegt einnar hæðar fjölskylduhús með fagurt útsýni yfir Elliðavatn. Ég varð við því með að hanna hús með stofum og eldhúsi sem snúa að vatinu og er búið gluggum sem eru flestir hverjir gólfsíðir. Þannig tengdi ég náttúruna inn í húsið. Útsýnið þarna er auðvitað alveg magnað, eins og fallegasta Kjarvalsmálverk.“

- Auglýsing -

Gamla skipulagið vont

Guðmundur segist líka alltaf hafa íslensk veðráttu í huga. „Ég og við á stofunni hönnum hús alltaf með hliðsjón af veðráttunni, með það fyrir augum að fá það besta úr henni; skjólgóðar verandir í suður og vestur. Sem dæmi teiknum við oft góð skyggni yfir verandir og þegar við hönnum fjölbýlishús leggjum við mikið upp úr stórum svölum og gerum ráð fyrir svalarskjóli svo hægt sé að nota svalirnar sem sólstofu, það lengir svo mikið sumrin,“ bendir hann á.

„Það er um að gera að nýta betur borgarlandslagið en var gert í þessu gamla ameríska borgarskipulagi sem einkenndi Reykjavík að hluta en við þurfum samt að passa upp á að hleypa birtu til fólks og að það hafi pláss.“

„Mér finnst það oft hafa gleymst síðustu ár að við búum á Íslandi með lága sólarstöðu meginhluta ársins. Sumu hefur bara hrakað í nútímahönnun. Lóðaeigendur og byggingaaðilar eru til dæmis farnir að ráða of miklu varðandi skipulag og hafa svalirnar stundum ekki nema þrjá til fjóra fermetra, sem mér finnst of lítið, og byggja of þétt, sem rýrir gæði íbúa. Ég er þó ekki að gagnrýna þéttingu byggðar, alls ekki, því skipulagið sem við höfum unnið með í gegnum tíðina er vont, stakstæðar blokkir sem magna upp vind og tún umhverfis þar sem maður sér aldrei börn að leik. Það er því um að gera að nýta betur borgarlandslagið en var gert í þessu gamla ameríska borgarskipulagi sem einkenndi Reykjavík að hluta en við þurfum samt að passa upp á að hleypa birtu til fólks og að það hafi pláss. Við skulum ekki gleyma því að við erum á norðlægum slóðum og sólin og dagsbirta skiptir miklu máli fyrir okkar andlega líðan og heilbrigði.

- Auglýsing -

Mér finnst dásamlegt að hanna inn í skipulag kollega míns frá París; meistara Björns Ólafs eins og Kársnes og Sjáland í Garðabæ. Hann hefur fært okkur ný viðmið, þétta byggđ en afar manneskjulega.“

Frábært framtak

Guðmundi segir að honum finnist líka mikilvægt að bjóða „nettar“ íbúðir, eins og hann orðar það, alveg niður í 50 fermetra, í bland við stærri. Hafa fjölbreytni og samfélag mismunandi aldurshópa. „Við þurfum að byggja fleiri litlar íbúðir, eins og við erum til dæmis búin að hanna við Grensásveg 1, en þar erum við að hanna 183 íbúðir á þéttingarreit. Íbúðir sem henta vel sem leiguíbúðir og til fyrstu íbúðarkaupa. Þetta er allt gott í bland, leiguíbúðir, félagsíbúðir, stórar íbúðir og nettar. Síðast en ekki síst skiptir máli að skapa umhverfi sem er skemmtilegt og manneskjulegt, það er hið mikilvægasta,“ segir Guðmundur og notar tækifærið og hrósar Kópavogsbæ fyrir að veita árlega umhverfisviðurkenningu.

Á myndinnu eru Andri Steinn Hilmarsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Guðmundur og Ármann kr. Ólafsson bæjarstjóri.

„Þetta er frábært framtak og fleiri sem mættu taka sér það til fyrirmyndar, til dæmis Reykjavíkurborg sem ég minnist ekki að veiti sambærilega viðurkenningu. Þetta er nefnilega svo hvetjandi og jákvætt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -