Í Bryggjuhverfinu í Reykjavík eru stúdentagarðar sem falla vel að umhverfinu og eru í góðu samræmi við nærliggjandi byggingar en þar búa þau Helena Ósk Óskarsdóttir og Hafþór Eggertsson.
Helena er nemandi á öðru ári í arkitektúr við Listaháskóla Íslands og Hafþór er starfandi tattúlistamaður og hafa þau sett sinn svip á íbúðina sem er virkilega notaleg.
Helena tók á móti okkur og á sama tíma laumaði sex mánaða hverfiskötturinn Lóa sér inn, sat fyrir eins og atvinnufyrirsæta og vildi sig hvergi hreyfa fyrr en að heimsókn lokinni og hvarf þá á braut.
Íbúðin er 66 fm að stærð og samanstendur af tveimur herbergjum, stofu, eldhúsi og baðherbergi. Úr stofunni er svo gengið út á huggulegar svalir sem snúa í suður. Helena og Hafþór eru mjög ánægð í íbúðinni og segir Helena jafnframt að þótt innréttingar og gólfefni séu kannski ekki alveg í takt við það sem hún hefði valið, hefði hún fengið að ráða, hafi þau náð að setja sinn svip á íbúðina.
Velur hluti af kostgæfni
Andrúmsloftið er hlýlegt og minnir stíllinn á heimilinu svolítið á önnur lönd meginlands Evrópu, líkt og Belgíu og Holland, en dökkur viður og vönduð húsgögn eru einkennandi í innanhússhönnun þeirra landa. Er það mjög ólíkt skandinavíska stílnum þar sem ljósari litir og ljósari viður er ríkjandi.
Helena hefur skapað sinn eigin stíl og segist hafa sérstaklega gaman af því að fara á flóamarkaði og finna fallega hluti en innbú hennar og Hafþórs er að mörgu leyti tilkomið vegna ferða hennar á slíka markaði. Námsmenn þurfa oft og tíðum að vera útsjónarsamir og nægjusamir og eru því ferðir á flóamarkaði tilvaldar. Því hafi til að mynda Góði hirðirinn og Ikea reynst þeim vel en Helena segist ekki fylgja tískustraumum, heldur velur hún hluti inn á heimilið af kostgæfni, hluti sem henni þykja fallegir óháð því hvaðan þeir koma. Hún segir jafnframt að henni finnist eldri húsgögn gefa heimilinu skemmtilegan karakter.
,,Mörgum finnst ekki taka því þegar þeir búa í stúdentaíbúðum að gera þær fínar vegna þess að dvalartíminn þar er oft frekar stuttur í heildarsamhenginu.‘‘
Form og gerð rýmis þarf að fá að ráða för
„Mörgum finnst ekki taka því þegar þeir búa í stúdentaíbúðum að gera þær fínar vegna þess að dvalartíminn þar er oft frekar stuttur í heildarsamhenginu,‘‘ segir Helena og bætir við að það sé samt sem áður afar mikilvægt að líða vel heima hjá sér. Þess vegna hafi hún strax tekið þá stefnu að gera heimilið eins notalegt og hún gæti þrátt fyrir að ætlun hennar og Hafþórs sé einungis að búa í íbúðinni í nokkur ár.
Að búa í stúdentaíbúð setur fólki ýmsar skorður en til dæmis má ekki negla nagla í veggi og þarf því að finna aðrar lausnir. Þyngstu myndunum sem ekki er hægt að hengja öðruvísi upp en með nöglum kom Helena fyrir á skemmtilegan hátt á bekk í stofunni. Það er því vel hægt að finna góðar lausnir og aðlaga sig aðstæðunum en Helena bendir einnig á að það sé mjög mikilvægt að taka tillit til forms og gerðar rýmisins þegar innréttað er og leyfa því svolítið að ráða för því þannig sé hægt að laða fram það besta, þá sér í lagi þegar plássið er af skornum skammti. Hún segir einnig að það sé afar mikilvægt að geta gert gott úr því sem maður hefur, vera lausnamiðaður og nýtinn. Það þurfi því alls ekki að kosta mikið að gera heimilið huggulegt. Við kveðjum Helenu, þökkum henni kærlega fyrir en heimili hennar og Hafþórs veitir svo sannarlega góðan innblástur.