Þekking sem kemur að góðum notum þegar innrétta á heimilið.
Stólar eru vafalaust ein mikilvægustu húsgögn heimilisins en þekktustu hönnuðir og arkitektar heims hafa margir hverjir hannað stóla eða einhvers konar sæti á starfsævi sinni. Þegar velja á stóla fyrir heimilið er gott að hafa í huga hvaða þarfir þeir þurfa að uppfylla. Fagurfræði og notagildi þurfa því að tvinnast saman. Hugmyndir að baki stólahönnunar geta verið af ýmsum toga og hefur sagan kennt okkur að uppspretta hugmynda er ótæmandi. Hér eru þrír þekktir stólar sem hafa vakið heimsathygli.
Maurinn
Maurinn eftir Arne Jacobsen leit fyrst dagsins ljós árið 1952. Hönnunin þótti nýstárleg og féll ekki í kramið í fyrstu. Upphaflega voru fætur stólsins aðeins þrír en Jacobsen sagði að tilgangurinn hafi verið að gera stólinn stöðugan á ójöfnu gólfi. Það þótti öðrum hins
vegar erfitt að skilja. Formið minnti á maur í uppréttri stöðu en þaðan dregur hann nafn sitt. Í heimalandi Jacobsen þótti hönnunin bæði vera uppreisnargjörn og byltingarkennd sem var ekki viðeigandi inni á dönskum heimilum. Stóllinn er framleiddur, líkt og fleiri stólar Jacobsen, úr formbeygðum krossvið og er hann í dag fáanlegur hjá framleiðanda bæði með þremur fótum sem og fjórum fyrir þá sem það kjósa heldur. Einnig er hann fáanlegur í ýmsum litbrigðum og viðartegundum og svo virðist sem hann hafi verið tekinn í sátt því vinsældir hans hafa aukist gríðarlega á seinni árum.
Chaise Tout Bois
Chaise Tout Bois er eini stóllinn eftir Jean Prouvé sem er hannaður úr aðeins einu efni, viði, og er helsta ástæða þess að eftir seinna stríð var málmur af skornum skammti. Hönnuðir þurftu að leita í nærumhverfi sitt og jókst þá notkun viðar í húsgagnasmíði. Í Frakklandi var mikið framboð af harðviði, líkt og eik, á þessum tíma og nýtti Prouvé sér það. Hann kynnti sér vel mannslíkamann og reiknaði út að mesta álagið hvíldi á stólbakinu þegar setið er. Hann vildi því hanna stól sem var traustur, ekki einungis í notkun heldur einnig í ásýnd. Form hans og efnisval miðast því við að skapa trausta ímynd. Stóllinn var upphaflega fáanlegur í gegnheilli eik þar sem setan var gerð úr eikarkrossviði en festingar eru einnig úr viði. Litur stólsins var hinn náttúrulegi eikartónn. Viðskiptavinir kölluðu fljótt eftir því að Prouvé setti á markað fleiri útgáfur og stuttu síðar kom stóllinn á markað í svartbæsaðri eik. Í dag er stóllinn enn fáanlegur í sinni upprunalegu mynd.
Wishbone stóllinn
Þessi stóll er orðinn að vörumerki danska framleiðandans Carl Hansen & Søn en hann var hannaður af Hans J. Wegner árið 1949 og hefur verið í stöðugri framleiðslu frá árinu 1950. Wegner hannaði yfir 500 stóla á starfsævi sinni en Wishbonestóllinn er sá allra þekktasti. Hann hefur einnig gengið undir nafninu Y-stóllinn sem er vísun í form stólbaksins. Sagt er að Wegner hafi sótt innblástur að hönnuninni til Ming-héraðs í Kína þar sem aldagamlar handverkshefðir voru í hávegum hafðar og áhersla lögð á að efniviðurinn fengi að halda sínu náttúrulega útliti í einföldum formum. Stólinn er gerður úr gegnheilum við og er setan handvafin. Stólinn er táknmynd fallegs handverks og er útlit hans bæði fágað og tímalaust.
Myndir / Frá framleiðendum