Náttúran er rauði þráðurinn í gegnum tískustrauma í ár, líka þegar kemur að litum. Allt frá dempuðum grænum og gráum tónum yfir í djúpan bláan lit. Jarðlitatónar á borð við gulbrúnan, brúnan, rústrauðan yfir í muskutóna verða einnig áberandi. Þessi litapalletta minnir okkur á veðurfarið og þróun litaumhverfis okkar hvort sem það er í innanhússhönnun, arkitektúr eða á tískupöllunum.
Græna litinn má einnig draga fram á heimilinu í formi plantna sem ýta undir tengsl okkar við náttúruna og fríska upp á heimilið. Undanfarin ár hefur mikið verið rýnt í áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga sem reynt hefur verið að sporna við með aukinni áherslu á sjálfbærni. Naumhyggjan teygir anga sína inn á heimilin og sést hún í hönnun og byggingu mannvirkja almennt. Í dag snýst þetta í miklu mæli um að bera virðingu fyrir náttúrunni. Með þessu gefur þú heimilinu náttúrulegt útlit sem einnig má blanda saman við nýstárlegri efni og hluti.
Litir sem undirstöðuþættir náttúrunnar sjást í auknu mæli inni á heimilunum, hvort sem það er í formi málningar, málverka, vefnaðar eða veggfóðurs en jarðlitatónar eru meðal annars sagðir hágmarka þægindi, kyrrð og ró.
Mynstur í dag eru allavega, allt frá einföldum formum og blómum yfir frumleg og ævintýraleg mynstur, en veggfóður hafa sjaldan verið jafn vinsæl. Það virðast okkur engin takmörk sett þegar kemur að mynstri og áferð.
Myndir / Frá framleiðendum