Föstudagur 22. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Nornin á Vesturgötunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ljósmyndarinn og athafnakonan Íris Ann hefur komið sér vel fyrir í skemmtilega öðruvísi íbúð í gamla Vesturbænum ásamt eiginmanninum Lucas Keller og sonum þeirra tveim, Sky og Indigo. Íbúð fjölskyldunnar eru rúmir 90 fermetrar og stendur í steinhúsi byggðu árið 1930.

Saman hafa hjónin rekið veitingahúsið The Coocoo‘s Nest á Grandagarði í rúm fimm ár og sér Lucas um matseldina meðan Íris sér um reksturinn. Einnig er hún einn stofnenda samvinnurýmisins Minor Coworking sem staðsett er á Fiskislóð og í desember síðastliðinn opnuðu þau nýja staðinn sinn: Luna Flórens við hlið The Coocoo‘s Nest.

Við fáum hlýjar móttökur og Íris býður strax upp á rjúkandi heitan tebolla, sem er afar kærkominn í hrollkaldri rigningunni. „Ég er alveg þannig týpa að ég fatta allt í einu hvað ég er orðin stressuð og geri mér þá grein fyrir að það er bara allt of mikið koffín í líkamanum því ég er búin að vera á kaffiþambi, svo ég er að reyna að skipta svolítið yfir í te.“

Í loftinu liggur dásamlegur ilmur sem hún segir heita paolo santo og vera í miklu uppáhaldi.

Það er bara fínt hjá mér frá um átta á kvöldin til átta á morgnana, þegar börnin eru sofandi.

„Mig langar að byrja á að koma því á framfæri að heimilið er aldrei svona fínt en ég vil ekki að fólk geri óraunhæfar væntingar þegar það sér bara glansmyndina. Það er bara fínt hjá mér frá um átta á kvöldin til átta á morgnana, þegar börnin eru sofandi,“ segir Íris sem er greinilega mjög jarðtengd og afslöppuð.

„Mig langar að byrja á að koma því á framfæri að heimilið er aldrei svona fínt en ég vil ekki að fólk geri óraunhæfar væntingar þegar það sér bara glansmyndina.“

Litagleði og listaverk

Stíll heimilisins er skemmtilega ólíkur þeim mínimalíska norræna stíl sem hefur verið afar áberandi á íslenskum heimilum – hér hefur litagleðin tekið völd og veggirnir eru þaktir fallegum listaverkum og persónulegum munum.

- Auglýsing -

„Ég er mjög hrifin af því að hafa liti í kringum mig heima fyrir og eru sægrænn og grænn, fjólublár og bleikur í miklu uppáhaldi en ég klæði mig þó sjálf mestmegnis í svört föt.“ Aðspurð um uppáhaldsverslanir nefnir Íris NúsNús. „Ég elska þessa búð, hún er alveg dásamleg og verðin eru ótrúlega sanngjörn.“

Ég er mjög hrifin af því að hafa liti í kringum mig heima fyrir og eru sægrænn og grænn, fjólublár og bleikur í miklu uppáhaldi.

Einnig segist hún vera dugleg að versla í Portinu á Nýbýlavegi og ef sig vanti eitthvert húsgagn byrji hún fyrst að leita á nytjamörkuðum og á Facebook-hópum áður en haldið sé í verslanir.

Elhúsið var tekið í gegn þegar fjölskyldan flutti inn.

Þau Íris og Lucas keyptu sína fyrstu íbúð fyrir ári síðan. „Eldri strákurinn okkar sem er fimm ára hefur sem dæmi búið á fimm stöðum á sinni stuttu ævi en við erum rosalega fegin því að geta ráðið því sjálf hér eftir hvenær við flytjum.“

- Auglýsing -

Eldhúsið er nýuppgert og segir Íris það ekki hafa verið á dagskránni strax, heldur hafi eiginlega komið í ljós að það væri nauðsyn eftir að fjölskyldan flutti inn. Í stofunni ákváðu þau að opna á milli rýma og hafa barnaherbergið öðrum megin og stofuna hinum megin.

„Mér fannst svo þægilegt að ég gæti unnið í tölvunni í sófanum og þeir eru bara hérna að leika sér í sama rými, stundum sé ég auðvitað eftir því vegna þess að stofan er orðin að dótaherbergi en það er samt eitthvað svo kósí og gott flæði hér.“

Þau hjónin segjast vera mikið fyrir fallega list, enda sé Lucas sjálfur myndlistarmaður að mennt. Að sögn Írisar eru þær myndir sem prýða veggi heimilisins, sumar eftir hana eða Lucas, aðrar úr Góða hirðinum eða Hertex í bland við verk eftir ýmsa listamenn sem sett hafa upp sýningar á The Coocoo‘s Nest í gegnum árin.

Listamennirnir Þórdís Erla Zoëga og Hulda Vilhjálms eru í miklu uppáhaldi.

Víðsvegar um heimilið má finna fallega kristalla, ilmandi reykelsi og dulræn tarotspil. „Kuklheimurinn hefur alltaf fylgt mér, ég les í tarot og er mikil spákona – að vera næmur þekkist í fjölskyldunni minni. Ég var einu sinni voðalega feimin við að segja að ég væri norn, en ég trúi á ákveðna alheimsorku og að við getum nýtt okkur hana á margvíslegan hátt.“

Kuklheimurinn hefur alltaf fylgt mér, ég les í tarot og er mikil spákona.

Skemmtilegt að skapa andrúmsloft

Grandinn er hverfi sem er í hraðri uppsveiflu eins og mörgum er kunnugt, en Íris segir að þegar þau hafi tekið við húsnæðinu sem The Coocoo‘s Nest er í, hafi lítið líf verið á svæðinu.

„Það voru ekki einu sinni ljósastaurar í götunni svo það var niðamyrkur hér á kvöldin! Við vorum mjög tvístígandi því við vissum ekki hvort við myndum fá fótgangandi fólk hingað, en okkur fannst þetta svo mikið tækifæri að við slógum til og höfum svo sannarlega ekki séð eftir því.“ Íris talar um nýja staðinn Luna Flórens sem einskonar systrarekstur við The Coocoo‘s Nest en þessir staðir eru hlið við hlið og er innangengt á milli þeirra.

„Luna Flórens er samt algjörlega með eigin hugmyndafræði, eða konsept, ég myndi segja að þetta væri Gypsy bar og boutique en allt sem þú sérð inn á staðnum er til sölu.“

Gypsy barinn Luna Flórens opnaði nú í desemer.

Íris stofnaði einnig Minor Coworking árið 2014 sem hún rekur í dag ásamt Ragnari Visage. Þá var hún sjálf að leita að rými sem gæti nýst sem ljósmyndastúdíó.

„Heiða Birgis, vinkona mín sem stofnaði Nikita, var einnig að leita að húsnæði á þeim tíma svo við ákváðum að finna eitthvað saman, við duttum niður á þetta rými og urðum gjörsamlega ástfangnar.“ Hún segir húsnæðið hafa verið allt of stórt fyrir þær tvær svo ákveðið var að leigja hluta þess út og búa til einskonar samvinnurými þar sem sjálfstætt starfandi listamenn og hönnuðir gætu átt fastan vinnustað, verið í daglegum samskiptum við annað skapandi fólk og myndað tengsl.

 

Fagurbleiki liturinn sem prýðir stofuveggina ber einfaldlega nafnið Íris Ann og er frá Slippfélaginu.

Þau Íris og Lucas eru greinilega með mörg járn í eldinum og við hlökkum til að kíkja á nýja staðinn þeirra, Luna Flórens í Grandagarði.

„Okkur finnst svo gaman að skapa, eins og staðina okkar, það er svo skemmtilegt ferli að láta hugmyndina verða að veruleika.“

Ljósmyndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -