Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Notar listina til að segja sögur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íris Auður er fædd árið 1981 á brekkunni á Akureyri. Tvítug flutti hún til Spánar þar sem hún ætlaði að verða listmálari en plönin breyttust og skráði hún sig í fatahönnun við IED í Madrid. Hún útskrifaðist þaðan sem fatahönnuður. Eftir fjögur ár í Madrid flutti hún til Reykjavíkur en einnig er hún menntaður kennari og jógakennari. Síðastliðin tíu ár hefur myndlistin átt hug hennar allan og reynir hún að eyða öllum frístundum í að mála.

Hvernig listamaður ertu? Ég veit hreinlega ekki hvernig listamaður ég er. Hef ekki enn sett mig í eitt mót. Ég held áfram að læra og þróast svo lengi sem ég held áfram. Það er það skemmtilega. Ég veit aldrei í hvaða átt verkin mín eiga eftir að þróast. Þó að það sé óneitanlega mikilvægt að selja verk, þá er ekki síður mikilvægt að þróast áfram sem listamaður. Ég nota listina til að losa um tilfinningar, búa til sögur í huganum og hverfa inn í eigin hugarheim. Ekkert annað fær mig til að finnast ég eins frjáls og þegar ég mála.

Hvernig byrjaði ferillinn? Eftir námið við Myndlistaskólann á Akureyri fluttum ég og maðurinn minn, Heimir Freyr, til Madrid. Þar ætlaði ég að finna mér háskóla í myndlist en ákvað að skoða nokkra skóla og kynna mér möguleikana. Þegar ég gekk inn í IED (Istituto Europeo Di Design) var mér svo vel tekið, ég kysst hægri vinstri, sýndur allur skólinn og mikið spjallað, að ég eiginlega óvart skráði mig í fatahönnunarnám. Þó að ég vinni ekki sem fatahönnuður í dag hefur það nám veitt mér innblástur í mína myndsköpun. Fljótlega eftir að við fluttum heim myndskreytti ég margar kennslubækur og tók að mér eitt og eitt teikniverkefni fyrir fyrirtæki og sýningar. Í og með málaði ég og teiknaði fyrir sjálfa mig. Ég hélt svo sýningu í Hofi á Akureyri árið 2017 sem fékk boltann til að rúlla.

Þú málaðir mynd fyrir blaðið, af hverju valdir þú að gera þessa mynd og hvað heitir hún? Verkið heitir Himbrimi í kjarri. Ég mála mikið fugla, hvort sem þeir eru einir eða leynast með andlitsmyndum af fólki. Fuglarnir ásamt andlitsmyndunum eru einkennandi fyrir minn stíl þessa stundina.

Hvernig var myndin unnin? Þegar ég var yngri áleit ég að olía væri æðri en akrýlmálning. Ég veit ekki hvort nokkur hafi sagt það við mig beint. Mér leið bara þannig. Þegar ég svo byrjaði að mála fyrir alvöru bjuggum við í lítilli íbúð og neyddist ég til að mála inni í svefnherbergi. Þar varð ég að nota akrýl því hún er lyktarminni. Þá sá ég að þessa tvo miðla, olíu og akrýl, á ekki að bera saman, heldur hafa báðir sína kosti og galla. Þessi mynd, Himbrimi í kjarri, er máluð með akrýlmálningu á pappír.

Hvernig er ferlið frá hugmynd að mynd? Ég mála alltaf við tónlist. Ég held ég hafi í raun aldrei málað í þögn hreinlega. Oft tekur tónlistin völdin. Ég set á lag og hugmyndirnar koma til mín. Ég er ekki vön að skissa áður en ég byrja. Ef ég ætla að mála fugl er ég búin að ákveða fuglinn út frá ljósmyndum. Hugmyndir að andlitsmyndum fæ ég mikið úr tískublöðum og ljósmyndum. Stundum nota ég lýsinguna frá ljósmyndinni, augun frá þessu módeli og nefið frá hinu eða mála beint eftir ljósmynd og breyti stemningu og bakgrunni.

- Auglýsing -

Hvernig myndirðu lýsa þínum listræna stíl? Ætli ég sé ekki enn flakkandi milli stíla, ég fer þangað sem listin leiðir mig. Undanfarið hef ég dansað á línu einhvers konar töfraraunsæis en tek kannski abstrakt verk á milli eða jafnvel hefðbundið vatnslitaverk.

Hefur þú alltaf haft gaman af listum? Það má segja að ég hafi fæðst inn í fjölskyldu sem gerir listinni hátt undir höfði. Móðurafi minn, Einar Helgason, var mjög fjölhæfur myndlistarmaður og jafnvígur í ólíumálun og vatnslitum. Ég var mikið hjá honum og ömmu, Ásdísi Karlsdóttur. Þar var ýmislegt brallað og mikið teiknað. Ég skála stundum við hann í kaffi í huganum á meðan ég mála. Hann var mér mikil fyrirmynd í myndlist.

- Auglýsing -

Hvaða litir og form heilla þig mest? Þegar ég er úti í náttúrunni, borginni, heima eða hvar sem er sé ég allt út frá litum og formum. Hef alltaf gert það. Stundum tek ég myndir til að varðveita lýsingu, litasamsetningar eða form. Þannig byrjaði ég til dæmis að setja inn fléttur og skófir inn á myndirnar mínar. Horfði niður á stein, fram hjá hinni augljósu fegurð og niður í litlu fallegu smáatriðin sem oft fara fram hjá manni.

Hvaðan sækirðu innblástur? Innblásturinn kemur úr öllum áttum en þegar ég sest fyrir framan hvítt blað eða tóman striga veit ég yfirleitt ekkert hvað ég er að fara að mála. Fyrst þarf ég að kveikja á tónlist. Tónlistin stýrir mér, hún stjórnar tilfinningunni í myndunum, svipnum í andliti þess sem ég mála, litum og stemningu. Ég fór ábyggilega að mála konuandlitin vegna þeirra tilfinninga sem hægt er að ná fram með augnsvip einum saman. Það er markmið mitt að þær segi sögu með augunum. Það er svo túlkunaratriði hvað fólk sér.

Þó að það sé algjör klisja, þá hefur íslensk náttúra mikil áhrif á mig. Fegurðin í mosa, lyngi, skógum og fjöllum læðist inn í myndirnar áður en ég veit af. Ég er með eina mynd í vinnustofunni sem byrjaði sem saklaus andlitsmynd af konu. Ég byrjaði að bæta við örlitlum gróðri og áður en ég vissi af var ekkert eftir af konunni nema augun, falin í mosahjúp.

Hvenær sólarhrings finnst þér best að vinna? Ég kenni textílmennt á daginn og hef þar af leiðandi kvöldin fyrir mína sköpun. Þessi tvö störf fara einkar vel saman, ys og líf á daginn og ég með sjálfri mér seinni partinn. Svo er líka dásamlegt að rölta með kaffibollann út um helgar og byrja daginn í vinnustofunni. Ég er alls ekki B-manneskja, get ekki vakað fram eftir og get lítið mundað pensilinn seint að kvöldi.

Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér? Með tilkomu nýrra samfélagsmiðla er svo gaman að uppgötva nýja listamenn sem eru ekkert endilega frægir en ná til manns með ákveðnum stíl, litum, skilaboðum eða tilfinningum. Þegar ég var í myndlistaskólanum á Akureyri sótti ég mikið í gömlu meistarana, eins og Gustav Klimt, Egon Schiele, Van Eyck og Goya. Það sem þessir myndlistarmenn eiga sameiginlegt er að allir nota þeir mannslíkamann sem viðfangsefni. Eftir að ég fór svo óvart í fatahönnun hef ég haldið mig við þessa blöndu af tískuteiknun og listmálun. Listamenn sem ég sæki innblástur hjá í dag eru allt núlifandi, starfandi myndlistarfólk eins og Nicola Samori, gotneskur barokkmálari frá Ítalíu. Anne Sophie Tschiegg er frönsk listakona sem er óhrædd við liti og notar mikið hið mennska form. Það er svo yndislega mikið af hæfileikaríku listafólki um allan heim sem ég sæki innblástur til á ólíkan hátt.

Hvar fást verkin þín? Ég er svo heppin að hafa dásamlegt lítið „atelier“ við heimili mitt sem áður var bílskúr og við vinnum mikið þar bæði, ég og maðurinn minn. Þangað er hægt að kíkja við og skoða eftir samkomulagi. Mest af myndunum fara á Instagram-síðuna mína www.instagram.com/irisillustrator/.

Umsjón / Stefanía Albertsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Íslenskt fagtímarit um heimili og hönnun

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu 13 tölublöð á 1.538 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 2.430 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -