Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Nýuppgerð 50‘s íbúð með upprunalegu eldhúsi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðla nóvembermánaðar kíktum við í heimsókn til Hildar Rutar Ingimarsdóttur en hún býr í notalegri íbúð í Laugarneshverfinu ásamt unnusta sínum og tveim börnum.

Húsið var byggt árið 1959 og ber íbúðin sem er 80 fm greinileg merki um það, með fallegum skrautlistum og ávölum línum. Fjölskyldan flutti inn fyrir um ári síðan og tóku eigendurnir íbúðina nánast alveg í gegn, en ákváðu þó að halda í allar innréttingar og innbyggða skápa og fríska heldur upp á það með hvítri málningu.

„Okkur þótti upprunalega innréttingin svo falleg og rennihurðarnar skemmtilegar, svo við ákváðum að setja nýja borðplötu á bekkinn og skipta um öll tæki frekar en að splæsa í nýja innréttingu – þetta var svakaleg vinna en auðvitað vel þess virði,“ segir Hildur.

Fjölskyldan bjó áður í Bryggjuhverfinu en hún segir þau kunna mun betur við sig í Lauganesinu, enda sé bakarí, sundlaug og barnvæna kaffihúsið Kaffi Laugalækur handan við hornið.

Innanhússinnblástur frá veitingastöðum

- Auglýsing -

Breyttist stíll heimilisins mikið við flutningana? „Já, við höfum verið dugleg að endurnýja húsgögnin síðastliðið ár; sófann, borðstofustólana og ljósin sem dæmi. Ég var orðin svolítið leið á borðstofuborðinu og ákvað að lakka eikarplötuna dökka svo það myndi passa betur inn í stofuna og við veggfóðrið, ég fæ mestan innblástur fyrir heimilið við það að fara út að borða, en á veitingastöðum er oft búið að skapa svo notalega stemningu og ég vildi reyna að ná því í stofuna hér heima.“

Veggfóðrið bakvið borðstofuborðið er úr Esja Dekor.

Hildur lýsir stílnum sínum sem skandinavískum og kósí og segist um þessar mundir hrífast meira af dekkri tónum í bland við græna liti, ásamt því að vera með æði fyrir fallegum plöntum til að lífga upp á heimilið. Henni þykir einnig mikilvægt að nýta þá hluti sem hún á og finnst gaman að blanda saman eldri hlutum með sögu við nýrri heimilismuni, en passar þó að hafa ekki of mikið uppi við í einu og er dugleg að setja hluti í geymslu eða gefa yngri systrum sínum það sem hún er hætt að nota.

Eitt af aðal áhugamálum Hildar er að nostra við heimilið og sem betur fer hafa hún og unnustinn svipaðan smekk þegar kemur að innanstokksmunum.

- Auglýsing -
Áður en þau fluttu inn skiptu þau um gólfefni, parketið er frá Agli Árnasyni.

Eru einhverjar verslanir sem þú heillast frekar af en aðrar? „Ég er mjög hrifin af öllu úr Heimahúsinu og Pennanum og svo er ég ótrúlega ánægð með komu HM Home hingað til lands, en það er svo gaman að geta keypt sér fallega hluti á góðu verði.“

Aðspurð hvort einhver hlutur á heimilinu sé í uppáhaldi svarar Hildur að það sé par af messingkertastjökum sem voru í eigu langömmu hennar og myndin af New York sem hangir yfir sófanum. „Kærastinn minn bað mín efst í Rockafeller Center í New York í fyrra og á myndinni er akkúrat útsýnið sem við höfðum yfir borgina á því augnabliki. Mér þykir gaman að hafa hluti uppi við sem hafa persónulega merkingu fyrir okkur.“

Sófinn er úr Heimahúsinu og myndin úr Rockafeller Center kveikir sérstakar minningar hjá Hildi og unnustanum.

Hildur nefnir að á næsta ári muni þau fjölskyldan líklegast leita sér að stærra framtíðarhúsnæði, því dóttir þeirra þurfi eigið herbergi fyrr eða síðar. „Við erum strax byrjuð að líta í kringum okkur og munum pottþétt fara aftur í einhverjar framkvæmdir en það er svo skemmtilegt að geta valið gólfefnið og flísarnar sjálfur og gert húsnæðið alveg að sínu. Það er svo mikið rót að flytja, svo núna ætlum að leita að húsnæði sem er til frambúðar.“

Þess má geta að Hildur gaf út vinsæla matreiðslubók fyrir um tveimur árum sem bar nafnið Avocado. Spurð út í hvort það sé í kortunum að gefa út fleiri bækur segir hún: „Já, ég ætlaði að reyna fyrir þessi jól, en svo varð ég ólétt og plönin breyttust aðeins. Stefnan er þó að gefa út aðra bók á komandi árum og taka þá fyrir annað hráefni eins og ég gerði með Avocado-bókina.“

Lampann í forstofunni ættu flestir að þekkja, en hann er frá versluninni Snúrunni.

Ljósmyndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -