Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Risarnir í Basel

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Herzog & de Meuron – ein stærstu nöfnin í arkitektaheiminum í dag.

Arkitektastofan Herzog & de Meuron hefur hannað margar af stærstu og þekktustu byggingum heims á síðari árum og er því óhætt að segja að stofnendur hennar, Jacques Herzog og Pierre de Meuron, séu ein stærstu nöfnin í arkitektaheiminum í dag. Herzog & de Meuron stunduðu báðir nám við ETH í Zürich og hafa kennt við Harvard og ETH. Stofuna stofnuðu þeir í Basel árið 1978.

Í dag eru eigendur hennar fimm og starfsmenn rúmir 400 talsins í heildina sem starfa víðsvegar um Evrópu, Ameríku og Asíu. Verk þeirra spanna allt frá einbýlishúsum upp í borgar- og deiliskipulag en mörg af stærri verkum þeirra eru orðin helstu kennileiti þeirra borga sem byggingarnar eru staðsettar í. Stofan hefur unnið mörg af virtustu verðlaunum heims á sviði arkitektúrs.

Fílharmónían í Hamborg.

Hefðir og nýsköpun
Margar af þeirra þekktustu byggingum eiga það sameiginlegt að hafa verið umdeildar í upphafi og fengið misjöfn viðbrögð en stefna Herzog & de Meuron er einmitt sú að skapa samtal og hafa áhrif. Þeir vilja ekki einungis hanna það sem telst fallegt heldur vilja hafa áhrif á einstaklinginn og fá hann til þess að upplifa eitthvað stórfenglegt. Þeir hafa verið lofaðir fyrir það að halda í hefðir en á sama tíma verið talsmenn nýsköpunar.

Þetta hljómar þversagnakennt en það sem gerir verk þeirra áhugaverð er samspil þessara þátta, hefða og nýsköpunar, sem vega hvor annan upp. Verk þeirra örva skilningarvitin og eru bæði heillandi og spennandi og mörg þeirra eru unnin í samstarfi við listamenn en með þeirri samvinnu segjast þeir fá nýja sýn á veruleikann þar sem listamenn séu eðli málsins samkvæmt vanari að hugsa út fyrir rammann.

Nýr leikvangur Stamford Bridge tekur 60.000 manns í sæti.

Fjaðrafok, fuglahreiður og fílharmónía
Undirrituð heimsótti stofuna haustið 2017 í Basel sem var vægast sagt mikil upplifun. Nýr leikvangur Chelsea, Stamford Bridge, í Englandi var þá í brennidepli en ekki lá þá ljóst fyrir hvort bygging hans yrði að veruleika. Teikningarnar voru afhjúpaðar árið 2015 og byggingarleyfi fékkst snemma árs 2017 en í kjölfarið hófst mikið fjaðrafok. Mörgum þótti byggingin taka of mikið pláss í umhverfinu og íhaldsmönnum þótti hún of nýstárleg og ekki falla að enskum byggingarhefðum.

Stefnt var að því að byggingu leikvangsins ætti að ljúka árið 2021 en verkefnið var algerlega sett á ís á síðasta ári og mun framtíðin ein leiða það í ljós hvernig þessum málum lyktar.
Í hópi þeirra þekktustu verka að meðtöldu íþróttaleikvanginum Fuglahreiðrinu í Peking er Vitra-húsið í Þýskalandi á Vitra-reitnum svokallaða sem samanstendur af ráðstefnuhúsi, sýningarrýmum fyrir Vitra-safnið, verslun, móttökusvæði og veitingahúsi og er staðsett í Weil am Rhein við landamæri Þýskalands, Sviss og Frakklands.

- Auglýsing -

Vitra-safnið er aðeins eitt af mörgum verkum sem Herzog & de Meuron hafa hannað í Þýskalandi en það nýjasta er Fílharmónían í Hamborg. Hönnunarferlið spannaði um það bil 10 ár og er útkoman glæsileg. Fílharmónían er byggð ofan á vöruhús við Hamborgarhöfn sem nefnist Kaispeicher og var vöruhúsið byggt á árunum 1963-1966, ósköp venjulegt vöruhús sem fáir veittu eftirtekt. Í dag er byggingin eitt helsta kennileiti Hamborgar og mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -