Fimm fallegar Instagramsíður sem stytta stundir og veita innblástur.
_designtales_ – Laura Muthesius ljósmyndari og Nora Eisermann fatahönnuður og stílisti sýna frá heimili sínu, stíliseringum og því sem veitir þeim innblástur hverju sinni. Stíllinn þeirra er hrár og hlýlegur og tekst þeim svo sannarlega að fanga rétta augnablikið. Einnig halda þær úti matarbloggi þar sem þær deila gómsætum glútenlausum uppskriftum.
citysage – Anna Sage hefur haldið úti vefsíðunni annasage.com síðan 2008. Þar deilir hún myndum frá heimili sínu, daglegu lífi og verkefnum sem hún tekur að sér í innanhússhönnun. Hún gaf út bókina Sage Living árið 2016, en þar er að finna fjölmörg falleg heimili og hugmyndir.
noranilpferd – Nora heldur úti síðu þar sem hún birtir myndir af fallegu heimili sínu í Köln. Íbúðin er björt og náttúruleg og veitir mikinn innblástur.
sarah_cocolapine – Hönnuðurinn Sarah Van Peteghem á smart heimili í München sem hún deilir með fylgjendum sínum. Hún hefur verið að hanna veggspjöld af ýmsu tagi sem hægt er að skoða á heimasíðunni hennar cocolapine.com en þar veitir hún einnig innanhússráðgjöf og deilir góðum hugmyndum fyrir heimilið.
marniehawson – Marnie er sjálfstætt starfandi ljósmyndari frá Ástralíu. Hún sérhæfir sig í innanhússljósmyndun og ferða- og lífstílsmyndum. Sjálfbærni er henni ofarlega í huga og starfar hún einungis með fyrirtækjum sem hafa slík markmið að leiðarljósi. Verk hennar hafa birst í fjölda tímarita um allan heim en stíll hennar einkennist af einfaldleika, náttúrulegum efnum og -litatónum.