Laugardagur 14. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Sænska hönnunarteymið Broberg & Ridderstråle færir út í kvíarnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Broberg & Ridderstråle er teymi í hönnun og arkitektúr sem stofnað var af Mats Broberg og Johan Ridderstråle. Þeir eru menntaðir innanhússarkitektar og hönnuðir og útskrifuðust báðir með láði frá Konstfack-listaháskólanum í Stokkhólmi árið 2006. Vinnustofa þeirra er í Svíþjóð en verk þeirra hafa farið víða og verið sýnd meðal annars í London, Tókýó og Mílanó.

Broberg og Ridderstråle kappkosta í verkum sínum að bæta tilfinningalegt gildi hönnunar þar sem notandinn og þarfir hans eru í fyrirrúmi. Innblásturinn sækja þeir oftar en ekki í hið daglega líf, blandað vitsmunum og visku sem sameinast í góðri hönnun þar sem hagnýt nálgun og skynsemi er höfð að leiðarljósi.

Plugged Pendant-ljósið frá Muuto er ein þekktasta vara Broberg & Ridderstråle.

Húmor kemur ekki síður við sögu, að þeirra sögn, þar sem einföld vara getur breyst í einstaka vöru með því einu að bæta við smáatriðum sem fullkomna verkið; fuglsfótur verður að borðfæti, lauf verður að lampa og svo framvegis. Þá vinna þeir einnig með og deila um þá hugmynd hvað þyki „eðlilegt“ í raun – ef annar þeirra fær hugmynd sem myndi teljast „undarleg“ með einhverjum hætti sér hinn til þess að hún finni sér farveg. Það er það sem gerir þá að svo góðu teymi sem raun ber vitni.

Ein þekktasta vara sem þeir hafa sent frá sér er Plugged Pendant-ljósið fyrir Muuto sem kom á markað árið 2008. S-laga leiðslan á ljósinu er ýkt og gefur því einstakt og frísklegt útlit og lífgar upp á hvert heimili. Leaf-lampinn, einnig hannaður fyrir Muuto, hefur ekki síður notið vinsælda en hann kom á markað árið 2012. Leaf-lampinn er, eins og nafnið gefur til kynna, innblásinn af laufum trjánna en lampinn myndar skemmtilega skugga sem fara eftir sjónarhorni og staðsetningu lampans hverju sinni. Þá hafa Broberg og Ridderstråle unnið að ýmsum verkum síðan námi þeirra lauk og unnið til þónokkurra verðlauna fyrir verk sín. Þar má meðal annars nefna hönnunarverðlaun Wallpaper og Elle Decoration, Good Design-verðlaunin, auk þess hafa þeir hlotið titilinn hönnuðir ársins að mati Residence-tímaritsins.

Texti / María Erla

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -