Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Sigurjón kemur aðdáendum á óvart

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurjón Pálsson, húsgagnahönnuður og rithöfundur, og Rammagerðin hafa sett á markað nýja línu sem hefur hlotið frábærar viðtökur. Línan byggir á norrænni goðatrú og er frábrugðin öllu öðru sem Sigurjón hefur áður sent frá sér.

„Viðbrögðin sem ég hef fengið hingað til eru þó frábær og benda til að við höfum hitt í mark,“ segir Sigurjón, spurður hvernig viðtökurnar hafi verið við nýju goðalínunni sem hann hefur sett á markað í samstarfi við Rammagerðina, en um er ræða þrjár litríkar tréfígúrur af Óðni, Þór og Freyju sem eru rétt a byrja að sjást í verslunum þessa dagana.

„Sem betur fer er goðafræðin okkar nær ótæmandi brunnur karaktera svo stækkunarmöguleikar seríunnar eru eftir því þannig að það eru spennandi tímar framundan við að skapa nýja.“

Sigurjón segir von á fleiri fígurum innan tíðar. „Já, það er stutt í næstu goð; nú þegar eru sex næstu í undirbúningi og komin mislangt áleiðis. Sem betur fer er goðafræðin okkar nær ótæmandi brunnur karaktera svo stækkunarmöguleikar seríunnar eru eftir því þannig að það eru spennandi tímar framundan við að skapa nýja,“ segir hann léttur í bragði.

Á fullt erindi við heimsbyggðina

Sigurjón hefur eins og kunnugt er getið sér góðs orðstírs fyrir fallega fugla, svokallaða Vaðfugla, sem hið virta hönnunarfyrirtæki Normann Copenhagen keypti til framleiðslu fyrir nokkrum árum og selur undir nafninu Shorebirds. Þeir slógu strax í gegn og eru nú meðal mest seldu vara þeirra. Hvað varð til þess að hann ákvað að snúa sér að norrænni goðafræði?

„Þetta byrjaði nú allt með því að Sigga Heimis, vöruhönnuður, sem starfaði þá sem hönnunarráðgjafi hjá Rammagerðinni, vildi kanna samstarf við okkur feðga, en við Páll Þór, sonur minn, rekum fyrirtækið Path ehf. sem sér um framleiðslu á allri minni hönnun nema þeirri sem erlend hönnunarfyrirtæki hafa keypt,“ segir hann. „Við Palli settumst fyrst niður með Siggu og Bjarneyju Harðardóttur, eiganda og stjórnanda Rammagerðarinnar og veltum fyrir okkur hvað við gætum gert saman, en við vorum frá upphafi sammála um að útkoman þyrfti að uppfylla kröfur um gæði og samkeppnishæf verð á alþjóða vísu. Eftir smá „brainstorm“ fannst okkur að æsirnir væru spennandi viðfangsefni ekki síst vegna þess að allur heimurinn þekkir orðið þessa karaktera. Okkur þótti líka spennandi að vinna með þá kynslóð í huga sem nú er á fyrri hluta æviskeiðs síns sem uppkomið fólk, því það er sú kynslóð, fyrst og fremst, sem tekið hefur ástfóstri við karakterana sem við erum að skapa í seríunni. Þannig fór þetta af stað.“

- Auglýsing -
Nýja línan samanstendur af þremur litríkum tréfígúrum af Óðni, Þór og Freyju sem eru rétt a byrja að sjást í verslunum þessa dagana. Að sögn Sigurjóns eru svo fleiri fígúrur væntanlegar. Mynd / Rammagerðin

Hann segir að kjölfarið hafi verið ráðist í viðamikla undirbúingsvinnu sem fjöldi fólks tók þátt í, grafískir hönnuðir, „illustratorar“, búningahönnuðir, tækniteiknarar, þrívíddarhönnuðir, umbúðahönnuðir, textahöfundar og fleiri, fyrir utan Siggu Heimis og Bjarneyju og hennar fólk hjá Rammagerðinni. „Þetta hefur verið afar skemmtilegt og gefandi samstarf, þannig að útkoman er ekki mitt verk eitt og sér, heldur stórs, opins teymis topp-fagfólks, íslensku sem erlendu, sem við handvöldum og ég leiddi en með aðkomu Páls Þórs. Hann er mjög vandlátur og naskur að finna nákvæmlega réttu verksmiðjurnar fyrir hvert verkefni og þurfti auðvitað að segja til um hvað var mögulegt og hvað ekki þegar kæmi að framleiðsluþættinum í þessu verkefni,“ útskýrir Sigurjón og nefnir sérstaklega aðkomu listamannsins Ásgeirs Jóns Ásgeirssonar að verkefninu. „Ásgeir Jón og textahöfundurinn, Huldar Breiðfjörð hafa mikla innsýn í þennan heim norrænnar goðafræði og Ásgeir Jón hefur unnið mörg verkefni sem byggja á honum. Það var Ásgeir Jón sem lagði línurnar að karakterútliti seríunnar. Maðurinn er snillingur á sínu sviði.“

Spurður hvort hann sé sjálfur mikill áhugamaður um norræna goðafræði hugsar Sigurjón sig um dálitla stund. „Við getum sagt að ég sé að minnsta kosti orðinn það núna því undirbúningur verkefnisins krafðist mikil lesturs um viðfangsefnið,“ segir hann svo og kímir. „Ég hafði mikla ánægju af lestrinum og komst að því að goðafræðin er einn helsti menningarfjársóður okkar Íslendinga. Það er því mál til komið að sýna umheiminum með einhverjum hætti hverra arfur norræna goðafræðin er.”

Normann Copenhagen opnaði ýmsar dyr

- Auglýsing -

Þetta er í fyrsta sinn sem Sigurjón og Rammagerðin taka höndum saman en hingað til hefur Epal verið einn helsti samstarfsaðili þeirra feðga. Hann fer þó ekki í grafgötur með að það hafi verið samstarfið við Normann Copenhagen sem kom honum fyrst á kortið. „Það opnaði tvímælalaust ýmsar dyr. Það er til dæmis orðið auðveldara fyrir mig að fá viðbrögð framleiðenda núna þegar ég sendi eitthvað til þeirra og jafnvel leitað þeir til mín og biðja um hugmyndir að einhverju sem þeir vilja framleiða. En þessi heimur er harður, samkeppnin mikil og ekkert gefið að þú komist að þótt þú hafir gert eitthvað sem slegið hefur í gegn,“ lýsir hann og segir COVID-19 hafa haft mikil áhrif á starf sitt eins og allra.

„Þessi heimur er harður, samkeppnin mikil og ekkert gefið að þú komist að þótt þú hafir gert eitthvað sem slegið hefur í gegn.“

„Spennandi verkefni sem ég var með í vinnslu með rótgrónu, dönsku hönnunarfirma og annað, sería, fyrir þekkt bandarísku hönnunafyrirtæki, eru nú komin á ís, sem dæmi, auk þess sem nýtt verkefni sem var í gerjun með Normann Copenhagen var sett í bið. Við Palli erum þó á fullu og mörg járn í eldinum hjá okkur en það er eins þar, kórónan setur sitt strik í reikninginn. Við erum þó að búa í haginn fyrir framtíðina því þetta ástand gengur yfir og hjólin fara aftur að snúast fyrr en varir og þá verðum við tilbúnir með mörg ný verk,“ segir hann bjartsýnn.

Með handrit að nýrri glæpasögu

Sigurjón hefur líka fengist við ritstörf og hlotið bæði lofsamlega dóma og góðar undirtektir. Fyrsta bók hans, Klækir, hlaut til dæmis verðlaun Hins íslenska glæpafélags, Blóðdropann 2012 og önnur bók hans, Blekking, gekk einnig vel í lesendur. Hvernig fer þetta eiginlega saman, skriftirnar og hönnunarvinnna? „Svo vel að ég hef nánast ekkert skrifað síðan ég fór aftur að helga mig hönnuninni,“ svarar hann og skellihlær. „Ég hef satt best að segja nánast alfarið fengist við hönnun eftir því sem Normann Copenhagen fuglarnir og verkefnin fyrir Epal hafa verið að aukast og það jafn verulega og raun ber vitni.“

Sigurjón hefur vakið heimsathygli fyrir Vaðfugla sína. Mynd / Poul Madsen Ceo Normann Copenhagen

Hann bætir við að flétturnar sem hann vilji skapa í bókum sínum sé oftast dálítið flóknar og margslungnar með duldum vísbendingum sem svo smella saman á síðustu blaðsíðunum. „Það krefst mikillar nákvæmni og skýrrar hugsunar þannig að fátt annað kemst fyrir á meðan ég er að koma fléttunum mínum af mjúka diskinum í hausnum á mér yfir á harða diskinn í tölvunni. Skriftirnar eru oft mikill eltingarleikur við smáatriðin. Ef maður breytir einu atriði framarlega í söguþræðinum getur það rakið sig í gegnum alla bókina og ef þú klikkar á að uppfæra staðreyndirnar á bara á einum stað, fellur bókin,“ útskýrir hann en tekur fram að það sé ótrúlega gaman að „hanna“ flóknar fléttur.

„Reyndar á ég ófullgert handrit að nýrri bók með sömu aðalkarakterum á harða disknum í tölvunni. Sögusviðið í henni er mikið til minn gamli, fallegi heimabær, Húsavík og reyndar Norður-Þingið allt því upphafið – aðdragandinn að margslungnum endi – og óvæntur snúningur í lokin, eiga sér stað á Brimalóni á Melrakkasléttu, bæ sem er mín hugarsmíð en í lok bókar, tveimur áratugum eftir upphafið, er Brimalón orðið eyðibýli. Þessi saga inniheldur bestu fléttuna mína hingað til,“ segir hann með blik í augum.

En nú er það sem sagt hönnunarvinnan sem á hug hans allan og auðheyrilegt að þeir feðgar, Sigurjón og Páll hafa nóg fyrir stafni. „Já, það er sko alltaf nóg í pípunum,“ segir Sigurjón og brosir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -