Tækniframfarir og notkun á endurnýjanlegri orku hafa gert það að verkum að hægt er að byggja íverustaði á afskekktum stöðum á sérlega hagkvæman hátt. Í bókinni Off the Grid – Houses for Escape er kannað og síðan fjallað um hvernig hægt er að byggja hús á afskekktum slóðum á hagkvæmari hátt en önnur hús sem byggð eru í þéttbýli og sveitum.
Það má segja að þessi afskekktu hús séu sérstök tegund af byggingarlist en þau innihalda einungis helstu nauðsynjar og markmiðið að húsin sjálf framleiði þá orku sem þau þurfa. Öll húsin sem fjallað er um í bókinni eru því að mestu leyti sjálfbær hvað varðar orku, vatn og í sumum tilfellum mat.
Arkitektinn og innanhússhönnuðurinn Dominic Bradbury er höfundur bókarinnar og tekst honum vel að gera arkitektúrnum í ósnortnu landslagi góð skil og á sama tíma að kynna sjálfbær hús sem spennandi kost.
Húsin sem hann fjallar um eru staðsett víða í heiminum og eru allt frá litlum skálum á norðurslóðum til húsa við strandlengjur á heitari stöðum þangað sem aðeins er hægt að komat til á bátum. Húsin eru því afar fjölbreytt og eiga það sameiginlegt að nýstárlegar hönnunarlausnir hafa verið fundnar upp og nýttar til þess að glíma við öfgar í veðurfari og þær miklu áskoranir sem staðsetning húsanna er bæði hvað varðar byggingu þeirra og gerð. Höfundur brýnir fyrir lesendum mikilvægi þess að draga úr kolefnisspori, ýtir undir notkun á endurnýjanlega orku og sýnir áhrif þess á daglegt líf og hvernig við getum endurskilgreint lífsstíl okkar með góðum árangri.
Bókin er sannarlega spennandi fyrir alla þá sem hafa áhuga á arkitektúr og hvetur hún jafnframt til ábyrgari lífsstíls. Bókin er gefin út af forlaginu Thames & Hudson og fæst meðal annars á Amazon.