Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Skandinavísk jól í sveitinni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjarri öllum ys og þys stendur reisulegt sumarhús í sænskum stíl sem hefur yfir sér notalegt yfirbragð. Reykurinn úr strompinum myndar þykka bólstra í frostinu og nýfallinn snjórinn ýtir undir jólastemninguna. Innandyra snarkar í eldinum og kryddaður jólailmur fyllir vitin. Nýhöggvið og hóflega skreytt furutré úr næsta nágrenni stendur í stofunni og pakkarnir eru á sínum stað.

 

Nýtt og gamalt mætist

Húsið er í skandinavískum stíl og minnir byggingarstíllinn einna helst á gömlu sveitaþorpin í vesturhluta Svíþjóðar og er það allt panelklætt að innanverðu sem eigendurnir kusu þó að mála til þess að létta andrúmsloftið. Gólfin eru úr harðviði og brakar í þeim í hverju skrefi sem einkennir lifandi hús af þessari gerð og sveipar þau miklum sjarma. Húsið sjálft samanstendur af samliggjandi stofu og eldhúsi, hjónaherbergi, gestaherbergi, baðherbergi og svefnlofti. Eldhúsið er nýbyggingin sem var kláruð rétt áður en okkur bar að garði og er hún hönnuð í anda eldri byggingarhluta hússins. Húsgögnin koma hvaðanæva að en sum þeirra eru yfir hundrað ára gömul og hafa gengið í erfðir á meðan önnur eru ný.
Litapallettan er einföld, kaldir gráir tónar og bláir eru einkennandi á veggjum en markmiðið var að skapa róandi andrúmsloft og leyfa heldur húsgögnum og öðrum innanstokksmunum að vera í hlýrri litum. Þannig draga köldu tónarnir fram hlýju tónana og við það skapast skemmtilegar andstæður.

Aðventukransinn er eftir Bjarna Sigurðsson. Myndin með húsunum er eftir Ásgeir Smára og svartfuglseggið er eftir Pétur Gaut. Mynd/Aldís Pálsdóttir

Einfaldar skreytingar og náttúruefni

Eigendurnir hafa gaman af því að versla á nytjamörkuðum erlendis, þá sérstaklega í Danmörku og Svíþjóð, og ber innbúið vott um það. Einnig kunna þeir vel að meta listir og fallegt handverk og hefur þeim tekist vel að blanda saman gömlu og nýju svo úr verði falleg heild. Jólaskrautið er einnig í skandinavískum stíl, að hluta til keypt í Danmörku og sumt er heimagert. Við báðum einnig eigendurna um að dekka fyrir okkur kaffiborð innblásið af hátíðunum fram undan og eru náttúruefni þar áberandi. Stellið er hannað i Danmörku og framleitt úr ítölskum leir. Bollarnir eru á stærð við litlar skálar en notalegt er að ylja sér á höndunum og drekka heitt súkkulaði úr þeim á köldum dögum. Dúkurinn og servíetturnar eru úr hör sem gerir efniskenndina grófari. Skreytingarnar eru einfaldar, stjörnuanís og snæri er bundið utan um servíetturnar en ásamt því að vera fallegur að forminu til gefur anísinn frá sér dásamlega lakkríslykt. Furugreinarnar og könglarnir gefa borðinu hátíðlegt yfirbragð. Punkturinn yfir i-ið er sannarlega rjómatertan, hún er hefðbundin Pavlova sett í jólabúning en hún er skreytt með sprautuðum rjóma, heslihnetuflögum, berjum og myntulaufum ásamt því að flórsykri hefur verið stráð yfir sem minnir á nýfallinn jólasnjó. Við kveðjum þetta fallega sumarhús og höldum heim á leið með tilhlökkun í hjarta fyrir komandi hátíðum.

Mynd / Aldís Pálsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Tertan er hefðbundin Pavlova sett í jólabúning. Hún er skreytt með sprautuðum rjóma, heslihnetuflögum, berjum og myntulaufum ásamt flórsykri. Mynd / Aldís Pálsdóttir
Eldhúsinnréttingin er úr Ikea og svörtu loftljósin eru frá Lýsingu og hönnun. Mynd / Aldís Pálsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Kamínan er sérinnflutt frá Svíþjóð. Mynd / Aldís Pálsdóttir
Servíetta og diskur: Stellið er frá Bakgarðinum á Akureyri og hörservíetturnar frá Söstrene grene. Mynd / Aldís Pálsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -