Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Skandinavískur bóhemstíll heima hjá Linneu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í hádeginu á rólegum og björtum miðvikudegi banka blaðamaður og ljósmyndari upp á í fallegu raðhúsi í Fossvoginum. Til dyra kemur hin glæsilega Linnea, en hér býr hún ásamt fótboltamanninum Gunnari Þór og börnum þeirra, þeim Þóru og tvíburunum Viðari og Elvari. „Ég er fegin að þið eruð örlítið sein, en ég náði að skjótast í sturtu á meðan!“ segir Linnea, nýböðuð og fersk.

Húsið er byggt árið 1970, er rúmir 220 fermetrar að stærð, það stendur á tveimur hæðum og er á pöllum eins og svo mörg hús frá þessum tíma og þá sér í lagi í þessu hverfi. Á efri hæð hússins er forstofa, eldhús, gestabaðherbergi ásamt samliggjandi stofu og borðstofu og á þeirri neðri er vinnurými með beint aðgengi út í garð, svefnherbergin, baðherbergi og þvottaherbergi.

Hvernig líkar ykkur hérna í Fossvoginum? „Við höfum búið hér í hverfinu síðan dóttir okkar fæddist, en áður bjuggum við í íbúð í grenndinni og fluttum í þetta hús fyrir einu og hálfu ári. Gunnar ólst upp hér í hverfinu og foreldrar hans búa rétt hjá – svo staðsetningin er mjög góð fyrir okkur og krakkarnir elska að vera hér! En ég held að það sé fullt af öðrum æðislegum hverfum, eins og til dæmis Mosfellsbærinn, en þar gætir þú fengið nýtt hús með betra útsýni á svipuðu verði.“ Linnea bætir einnig við að veðrið sé oft mjög gott í Fossvogsdalnum og það sé auðvitað mikill plús.

Húsráðandi segir frá húsinu og talar um að allflestir hlutir hafi verið komnir á tíma og þurft á lagfæringu að halda þegar þau tóku við því. „Við lýstum gólfið og máluðum panelinn í loftunum, við reyndum að nýta það sem fyrir var eins og við gátum. Handriðið í stiganum létum við hækka og pólýhúða, ásamt því fjarlægja úr því mynstur sem var á milli rimlanna í stað þess að kaupa bara nýtt.“

Hún bætir því við að nokkrir veggir hafi fengið að fjúka til að opna rýmið, en áður var húsið töluvert niðurhólfað. „Uppáhaldsherbergið mitt er herbergi strákanna, það er svo notalegt – mér finnst það rými hafa lukkast mjög vel.“ Hún bætir við að með því að mála veggina upp til hálfs í barnaherbergjunum geti maður látið rýmið virðast stærra og opnara en það er í raun.

Okkur fannst betra að kaupa eitthvað sem ekki hafði verið endurgert.

En hvað ætli það hafi verið sem heillaði við þetta tiltekna hús? „Ég held við höfum skoðað tíu hús, okkur fannst þau of hátt verðlögð en við fengum þetta hús á flottu verði. Öll hin húsin sem við skoðuðum höfðu verið tekin í gegn nokkuð nýlega, en ekki eins og við hefðum gert sjálf. Okkur fannst betra að kaupa eitthvað sem ekki hafði verið endurgert, á lægra verði, og fá að gera það algjörlega eftir okkar höfði.“

- Auglýsing -

Eru einhverjar frekari framkvæmdir í kortunum? „Já, á næsta ári langar okkur að taka eldhúsið og baðið í gegn … og jú, garðinn líka!“ segir Linnea. Það er auðvitað alltaf nóg að gera þegar maður flytur og þá sérstaklega inn í eldra hús sem þarf örlitla ást og alúð.

Dugleg að ganga í öll verk

Stíll heimilisins er í grunninn léttur og skandinavískur, sem kemur ekki á óvart enda er Linnea ættuð frá Svíþjóð. Það má sjá mikið af tré, basti og náttúrulegum efnum í bland við grænar plöntur og vel úthugsaða litatóna, þar sem grænn, bleikur og grár eru áberandi.

- Auglýsing -

Ég er ansi lunkin í því að finna fallega hluti sem kosta lítið.

Hefur þú alltaf haft áhuga á innanhússhönnun? „Mamma mín er innanhússarkitekt, svo ég hef alist upp við þetta og hef líklega fengið mikið af áhuganum frá henni.“

Linnea segist vera dugleg að kaupa eitthvað fallegt fyrir heimilið þegar hún ferðast utan landsteinanna, enda sé svo gaman að eiga slíka minjagripi.

„Ég er ansi lunkin í því að finna fallega hluti sem kosta lítið og er dugleg að fara bæði á flóamarkaði og finna gersemar í verslunum eins og Bauhaus – ódýrari hluti sem eru samt sem áður vandaðir. Ég er stolt að segja fólki frá því að ég hafi gert góð kaup“! Hún segist vera dugleg að fara eigin leiðir til að ná fram þeim stíl sem hún vill hafa á heimilinu og nefnir meðal annars mottuna í stofunni, en hún einfaldlega pantaði teppi ætlað á stigaganga í fjölbýli sem búið var að skera í þá stærð sem hentaði.

Gráa mottan í stofunni er úr Parket og gólf og púðarnir frá bisou.is

Hvernig gengur að hafa svona hvítan sófa með þrjú börn?

„Hah, þú sérð kannski litamismuninn á sófapullunum og restinni af áklæðinu? Það er búið að þvo þær mjög oft, en fyrir nokkrum dögum máluðu strákarnir mínir einmitt á einn púðann! Það þarf allt að vera veggfast hérna heima, en átján mánaða tvíburastrákarnir mínir eru gjörsamlega út um allt og í öllu!“ segir Linnea og skellir upp úr. Í stofunni hangir fallegt og litríkt málverk sem Linnea fékk í þrítugsafmælisgjöf frá Gunnari, en hann keypti það á uppboði í Gallerí Fold.

„Málverkið er af Þingvöllum en er ekki alveg þessi hefbundna litapalletta, það er málað á svipuðum tíma og húsið er byggt svo það passar vel hér inn.“

Við rekum augun í glæsilegt borðstofuborðið og forvitnumst aðeins um það. „Ég er mjög stolt af borðinu, en við bjuggum það til sjálf og völdum okkur hnotu í stíl við gluggasyllurnar og eldhúsbekkinn. Við keyptum viðinn í Efnissölunni sem við svo pússuðum og olíubárum og létum síðan smíða lappir undir það í stálsmiðju. Ef ég get gert eitthvað sjálf kýs ég það alltaf fram yfir að borga iðnaðarmanni fyrir það. Við Gunnar filmuðum til dæmis allt eldhúsið svart í gær og náðum að klára það á einum degi!“ Það má með sanni segja að þau Linnea og Gunnar séu hörkudugleg en það er ekki á allra færi að gera upp heilt hús, ásamt því að reka verslun og ala upp þrjú ung börn á sama tíma!

Ef ég get gert eitthvað sjálf kýs ég það alltaf fram yfir að borga iðnaðarmanni fyrir það.

Petit og Bisou

Linnea hefur starfrækt barnaverslunina Petit í rúm fimm ár, verslunin hefur vaxið hratt og örugglega og í dag starfa þar fimm manns í fullu starfi. Ævintýrið hófst þegar Linnea var ólétt að dóttur sinni og fluttist til Íslands, en hún starfaði áður sem markaðsstjóri Volvo í Svíþjóð.

Himnasængin og flestöll leikföngin í herbergi Þóru, dóttur Linneu, fást í verslun Linneu, Petit.

Þegar hingað var komið stefndi hún á starf á svipuðum vettvangi, en segist hafa komið að lokuðum dyrum – enda stutt síðan efnahagskreppan gekk yfir. Hún tók þá ákvörðun um að skapa sína eigin atvinnu og opnaði vefverslunina Petit, með áherslu á lífrænar og vandaðar barnavörur. Verslunin er í dag til húsa í Ármúla 23 og segir Linnea reksturinn ganga vel, það sé alltaf brjálað að gera enda er þessi flotta kona greinilega með mörg járn í eldinum. Nú í nóvember opnaði Linnea einmitt nýja vefverslun sem ber nafnið Bisou, þar sem seldir eru fallegir munir fyrir heimilið ásamt fatnaði og húðvörum.

„Bisou er fyrir nútímakonur sem hafa lítinn tíma til að versla að degi til, en hafa frekar tíma á kvöldin þegar húsið er komið í ró og „ég-tíminn“ hefst,“ segir Linnea.

Við kveðjum hina athafnasömu og jarðtendgu Linneu að sinni og þökkum fyrir kaffisopann og hlýlegar mótttökurnar.

Ljósmyndir / Hallur Karlsson

 

     

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -