Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Skemmtilega flippað og litríkt heimili

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heimili Áslaugar Snorradóttur ljósmyndara á efstu hæð hússins sem hún fæddist í á Dalbraut endurspeglar vel litríku, hressu týpuna sem hún sjálf er.

Við kíktum í heimsókn til Áslaugar og fengum hana til að sýna okkur nokkra hluti sem eru henni kærir.

Áslaug Snorradóttir við hvítt tré sem hefur staðið í stofunni síðan árið 2007 (sjá mynd að ofan). Þetta tré og fleiri voru borðskreytingar á góðgerðasamkomu Fiðrildahátíðar UNIFEM. Heiða Magnúsdóttir hannaði og lét útfæra þau og hvert tré var tileinkað gyðju. Þar sá Áslaug um matseðilinn. Forsnakkið var til að mynda gull á súkkulaði og kampavínsglas, svo egg á engi og alls konar réttir sem Dóra Svavarsdóttir kokkur útfærði ásamt liði snilldarkokka. Áslaug fékk að eiga þetta tré og þykir mjög vænt um það og minninguna sem því tengist.

Bláa borðið í stóru borðstofustofunni. Stór landslagsljósmynd eftir Pál Stefánsson og minni ljósmynd sem Áslaug tók af sundkonu með flothettu en sjálf á Áslaug tvær slíkar og segist elska flothettusund sem sé slakandi og endurnærandi. Dýrahausarnir tveir koma frá Mumbai, rétt við hverfið þar sem bíómyndin Slumdog Millionaire var tekin upp.

Áslaugu þykir sérlega vænt um gylltu stjörnulaga sprittkertastjakana sem afi hennar bjó til fyrir brúðkaupið hennar sem var haldið þann 28. desember árið 1991. Stjörnubjartur næturhiminn var þemað í brúðkaupinu ásamt flauelsrauðum lit.

- Auglýsing -

Áslaug og Helga Björnsson tískuhönnuður eru að kokka saman hugmyndir þar sem þær hyggjast leiða saman hesta sína og sköpunarkraft í verkefni sem er enn háleynilegt en við munum vonandi sjá verða að veruleika fyrr en síðar. Á bláa sófanum eru skissur þeirra beggja sem er grunnurinn að þessu samstarfi.

- Auglýsing -

Blómamyndin er eftir ömmu Áslaugar sem er henni kær.

Áslaug segist hreinlega elska bækur og tímarit og nóg er af hvoru tveggja á heimili hennar. Hún hefur myndað fyrir margar matreiðslu- og ferðabækur um Ísland og til að mynda komu út þrjár bækur í Þýskalandi nýlega sem Áslaug myndaði fyrir. Við getum kallað þetta bókaaltarið hennar Áslaugar þar sem hringlaga fimm arma kertastjaki með hangandi jólakúlu, glös og skrautmunir poppa upp stemninguna.

Að sjálfsögðu heldur ljósmyndarinn líka upp á ljósmyndir. Þessar prentaði hún nýverið út og hengdi upp enda litfagrar með eindæmum og algjört augnakonfekt eins og svo ótal margt á heimili Áslaugar.

Babúskur, sparistell, lillablár dúkur frá Udaipur á Indlandi en þar er endalaus fegurð og allskonar fínerí. Og uppskriftabókin hennar Ölbu ömmustelpu sem er að verða fimm ára í sumar. Alba býr í næsta húsi við Áslaugu ömmu og þær eru miklar vinkonur og bralla ýmislegt saman eins og þessa litlu uppskriftabók sem hún föndraði. Bóka- og matarást ömmunar hefur ef til vill kveikt áhuga litlu ömmustelpunnar á að búa til uppskriftabók?

Hjartalaga mósaíkspegill sem Kolla dóttir Áslaugar gerði. Faðir hennar gerði teikninguna 1970 en þá var hann fluttur til Stokkhólms í læknanám og Áslaug og mamma hennar fluttu þangað stuttu seinna. Þessi mynd endurspeglar fjölþjóðastemninguna á stúdentagarðinum. Ilmkertið er frá Ralph Laurent og ilmurinn er ómótstæðilegur að mati Áslaugar sem segist dekra við sig með góðum ilmkertum og ferskum blómum.

Rauða borðið þar sem fallegur stafli af matreiðslubókinni Náttúran sér um sína stendur. Þessi bók er í miklu uppáhaldi enda fylgdi gerð hennar skemmtilegur tími í Færeyjum, Flatey, Vatnsdal og á Snæfellsnesi þar sem Áslaug var með kokkinum Rúnari Marvinssyni og tók myndir og fangaði matarstemninguna fyrir bókina. Bókin kom út árið 2008. Gyllti fjögurra hæða kökudiskurinn kemur frá Taílandi þar sem Áslaug segist hafa farið á flug í glingurverslunum.

Flottar ljósmyndir eru í miklu uppáhaldi hjá ljósmyndaranum sjálfum og þarna standa þrjár myndir eftir ljósmyndara sem Áslaug heldur mikið upp á.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -