Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Skúlptúr sem skírskotun til framtíðar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Verner Panton þekkja flestir en hann var fæddur í Danmörku árið 1926 og er hans oft minnst sem eins áhrifamesta hönnuðar tuttugustu aldarinnar. Panton var menntaður arkitekt og útskrifaðist hann frá konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn árið 1951.

 

Honum þótti fátt skemmtilegra en að gera tilraunir og nýta áður óþekkt efni í hönnun sína. Panton sagði sjálfur að megintilgangur hönnunar hans væri að hvetja fólk til að nota ímyndunaraflið í ríkari mæli. Með því væri hægt að skynja heiminn á nýjan hátt og hversdagslífið yrði þar af leiðandi meira spennandi og notaði hann markvisst form og sterka liti til þess að ögra ímyndunaraflinu.

Panton gerði margar merkilegar tilraunir yfir starfsævi sína. Mynd/Louis Poulsen
Globe-ljósið kom fyrst á markað árið 1969. Mynd/Louis Poulsen

Globe-ljósið eftir Panton kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1969. Ljósið þótti afar framúrstefnulegt, ekki einungis hvað form varðar heldur einnig varðandi efnisval og samsetningu. Á þeim tíma sem Panton hannaði ljósið var áhugi almennings á geimnum gríðarlegur sem hönnuðir kepptust síðan við að fanga en sama ár og Globe-ljósið kom til sögunnar lenti Apollo 11 á Tunglinu.

Notkun á plastefnum þótti spennandi á sjöunda áratugnum og voru alls kyns plasthúsgögn vinsæl. Upphaflega var Globe-ljósið búið til úr gagnsæju akrýl-plastefni (PMMA) sem við þekkjum betur undir heitinu plexígler.

Ljósið er fáanlegt í mismunandi útgáfum. Hér er kjarninn gerður úr ópalgleri. Mynd/Louis Poulsen

Kjarninn er gerður úr krómuðu og lökkuðu áli sem endurkastar ljósinu og dreifir því um rýmið sem það er staðsett í. Þrjár stálkeðjur binda svo kjarnann saman. Form ljóssins minnir óneitanlega á hnött eða einhvers konar atóm með kjarna og er það skírskotun til framtíðarinnar og þeirrar sýnar sem almenningur hafði á hinni tæknilegu framtíð sem við þeim blasti seint á sjöunda áratugnum.

Ljósið er ekki einungis birtugjafi heldur líka skúlptúr sem nýtur sín jafnvel þegar slökkt er á ljósinu. Ljósið fæst enn þann dag í dag og er hvert og eitt handgert í Danmörku og kemur nú í hinum ýmsu litasamsetningum en einnig með kjarna úr ópalgleri eða brassi í stað áls.

Ljósið er nokkurs konar skúlptúr sem nýtur sín einnig vel þegar slökkt er á því. Mynd/Louis Poulsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -