Söngkonuna Siggu Beinteins þekkja allflestir Íslendingar og hefur hún heillað okkur með smellum eins og Eitt lag enn, Vertu ekki að plata mig og Allt eða ekkert. Við forvitnuðumst um hvað er að óskalista söngkonunnar.
Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Veistu, ég held að það sé ekkert sem mig dreymir um að eignast, draumurinn sem mig dreymdi alltaf var að eignast börn og sá draumur rættist fyrir sjö árum síðan – það var enginn draumur stærri og hann rættist.“
Ef þú ættir að óska þér einhvers í fataskápinn þinn hvað væri þá efst á óskalistanum? „Ég held að ég myndi vilja 365 dress í skápinn, að eiga til að spila í, það er alltaf stærsti höfuðverkurinn í hverju á að vera þegar maður kemur fram.“
Hvert myndir þú fara í ferðalag ef þú værir að fara í draumaferðina þína? „Ég held að draumaferðin væri til Ástralíu, eða Parísar en þangað hef ég aldrei komið – það gæti alveg verið að Ástralíudraumurinn rætist á þessu ári.“
Óskar þú þér einhvers í eldhúsið? „Í eldhúsið myndi ég helst óska mér að hafa kokk allan ársins hring, þá þyrfti ég aldrei að hugsa um hvað ég ætla að hafa í matinn, það væri mjög þægilegt.“
Stærsta óskin væri? „Stærsta óskin mín í lífinu er að fá að hafa heilsuna í lagi sem allra lengst.“
Áhrifaríkasta bók? „Ég er nú ekki mikill lestrarhestur, en mér fannst rosalega gaman og mjög áhugavert að lesa bókina um Ellyju Vilhjálms, þar sem farið er í gegnum ævi hennar. Enda hefur Elly verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan ég man eftir mér.“
Hvaða stóll væri draumastóllinn þinn? „Draumastóllinn minn væri Eggið, hann er alltaf svo töff og tímalaus.“
Besta kaffihúsið? „Te og kaffi í Borgartúni, yndislegt að sitja þar og slaka á.“
Besti veitingastaðurinn? „Ég held ég verði að segja Sumac á Laugaveginum, bæði flottur staður og æðislegur matur.“
Fallegasti liturinn? „Hann er svartur, og ég kaupi iðulega svarta bíla.“
Málverk eftir hvaða listamann væri á þínum óskalista? „Það væri gaman að eiga flott verk eftir Tolla, æðislegur listamaður.“
Fallegasta bygging á Íslandi? „Það er mikið til af fallegum byggingum á Íslandi og ég verð að nefna þrjár; Hallgrímskirkju, Hörpu og Akureyrarkirkju.“
Hvaða bíll er á óskalistanum og hvers vegna? „Að eiga geggjaðan jeppa, eins og til dæmis Toyota Landcruiser, en ég er mikil jeppakona, fer samt aldrei á fjöll en finn bara svo mikið öryggi á stórum bílum.“
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir