Nýverið birtust myndir af þessu tignarlegt 370 fermetra glæsihýsi á síðum Húsa og Híbýla. Húsið, sem er í eigu íslensk listamanns, er vægast sagt magnað.
Í bænum Ubud á eyjunni Balí í Indónesíu stendur nýreist og tignarlegt 370 fermetra glæsihýsi í eigu íslensks listamanns en húsið heitir Flow House. Framkvæmdum lauk síðla árs 2018 og var húsið teiknað af þýska arkitektinum Alex Dornier.
Hluta árs er Flow House nýtt sem listamannabústaður, þar sem völdum listamönnum býðst tímabundin dvöl í húsinu meðan unnið er að skapandi verkefnum. Húsið er hugsað sem staður til að endurhlaða batteríin og gefa sköpunargleðinni lausan tauminn.
Hönnunin á húsinu bæði að utan og innan er innblásin af hljóðbylgju og á sá sem dvelur í húsinu að fá á tilfinninguna að vera staðsettur inn í hljóðfæri. Á efri hæð hússins er bjart og opið alrými en þar er eldhús, borðstofa og samverusvæði en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir hrísgrjónaakurinn sem er fyrir framan bygginguna.
Jarðhæðin hefur að geyma þrjú rúmgóð svefnherbergi, hvert með innangengnu sérbaðherbergi, en á hæðinni má einnig finna rúmgott vinnurými. Við leyfum myndunum að tala sínu máli, enda um stórglæsilega byggingu að ræða.
Fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar og jafnvel bóka þar gistingu má finna húsið undir „baliflowhouse“ á Instagram.
Ljósmynd / Tommasso Riva
Texti / Elín Bríta
Tryggðu þér áskrift að Hús og Híbýli í vefverslun