Svart, gult og risastór diskókúla mætir okkur á Black Box og þar tekur Jón Gunnar Geirdal vel á móti okkur með girnilegum flatbökum. Við spurðum kappann út í pítsuævintýrið.
Hvenær opnaði Black Box Pizza?
22. janúar 2018 í Borgartúni 26.
Hver hannaði staðinn?
Við hönnuðum staðinn sjálfir enda vorum við með ákveðnar hugmyndir hvernig útlit, andrúmsloft og upplifun við vildum skapa.
Hver er yfirpítsubakari?
Pítsusnillingur Blackbox er Viggó Vigfússon – bakari og conditori, eigandi Skúbb, bestu ísbúðar landsins, og einn af stofnendum OmNom-súkkulaðis. Hann var í kokkalandsliðinu í 12 ár og mögnuð reynsla hans og hæfileikar kristallast í geggjuðum pítsum.
Hvaða hugmynd var lagt upp með við hönnun staðarins?
Við vildum fyrst og fremst hafa staðinn hlýlegan en líka töff og svolítið öðruvísi. Við vildum hafa litapallettuna einfalda og völdum svartan og gulan sem koma vel út saman. Svo er það svarta diskókúlan sem einkennir Blackbox. Nonna Dead-andarnir vaka yfir staðnum en Jón Sæmundur málaði þá beint á vegginn, svo er hér 100 ára gamall drumbur í loftinu og alls konar svolítið skrýtnir gulir hlutir út um allt. Staðurinn er skemmtilega öðruvísi fyrir vikið.
Hvernig stemningu vilduð þið ná fram á staðnum?
Við vildum skapa skemmtilega New York/London-barstemningu utan um skyndibitann pítsuna. Blackbox á að vera öðruvísi, eitthvað nýtt og ögrandi en á sama tíma bara geggjuð pítsa og líklega sú besta hér á landi. Pítsa er nefnilega ekki bara pítsa eins og við segjum, stemningin á staðnum er ótrúlega skemmtileg. Það á nefnilega að vera skemmtilegt að borða pítsu.
Hver er ykkar sérstaða?
Sérstaða okkar eru sjúklega góðar pítsur á hrikalega góðum súrdeigsbotni með heimagerðri ítalskri tómatsósu, toppuð með fjölbreyttu fersku og öðruvísi hráefni.
Hvað heillaði ykkur við staðsetninguna og húsnæðið?
Við höfðum verið með þessa staðsetningu lengi í huga fyrir svona stað. Borgartúnið vex hratt, er lifandi hverfi sem rúllar hratt í gegnum daginn og okkur fannst tilvalið að mæta með pítsupönkarann Blackbox og gefa fólki loksins tækifæri til að fá eldsnögga og eldbakaða pítsu í hádegismat, eða eftir vinnu.
Elska Íslendingar flatbökur?
Miklu meira en það; Íslendingar eru með ástríðu fyrir pítsum. Það eru forréttindi að bjóða svöngum, pítsusjúkum Íslendingum upp á uppáhaldsskyndibitann þeirra, hlutverk sem við tökum mjög alvarlega með bros á vör.
Hvaða álegg er vinsælast?
Það er erfitt að nefna ekki pepperoni en Parma Rucola-pítsan er vinsælasta pítsan okkar og svo kemur trufflumarineraða andalærið vel á óvart enda brjálæðislega gott.