Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Þar sem ólíkir menningarheimar mætast

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurbjörg Pálsdóttir innanhússarkitekt starfaði hjá IKEA í mörg herrans ár og ekki bara á Íslandi heldur víða um heiminn. Sigurbjörg býr núna í Leuven í Belgíu ásamt manni sínum Peter Krumhardt sem er danskur arkitekt. Þau hafa búið sér og sínum fallegt og framandi heimili sem litast af flakki þeirra um heiminn. Við heyrðum í Sigurbjörgu og spurðum hana út í lífið í Belgíu og fyrirtækið Pals&Co sem hún stofnaði eftir að hafa búið í Jórdaníu í nokkur ár og heillast af handverkinu, menningunni og fólkinu þar í landi.

,,Ég flutti til Belgíu sumarið 2014, minn elskulegi maður, Peter, hafði þá unnið hjá IKEA í Belgíu í sjö mánuði eftir margra ára starf í Danmörku og Bretlandi. Ég var þarna búin að vera ein í Jórdaníu og Kúveit að setja upp nýjar IKEA-verslanir og þjálfa nýtt starfsfólk í næstum því þrjú ár og mig langaði að fara heim eftir dásamlegan tíma í Mið-Austurlöndum,“ segir hún.

Hvað var það við þessa íbúð í Leuven sem heillaði þig? ,,Ég skoðaði hana á Netinu þegar ég var í Jórdaníu, skipulagið og lofthæðin heillaði mig strax og þessi grófi verksmiðjustíll, gluggarnir eru líka svo fallegir og svo fannst mér heillandi að vera nánast miðsvæðis í svona gamalli, fallegri borg. Húsið er í grunninn gömul vindlaverksmiðja frá 1875 og voru það Jespers-Eyers, arkitektar sem endurhönnuðu húsið,“ segir Sigurbjörg.

Hönnun frá ólíkum löndum
Hvernig myndir þú lýsa stílnum á heimilinu? „Þetta er bara okkar stíll. Við erum með hönnun og hluti frá ólíkum löndum og frá mismunandi tímum, í alls konar litum frá ólíkum stöðum sem við höfum ferðast til og búið í. Ég myndi segja að á heimili okkar hér í Leuven tengist margir menningarheimar í ólíkri hönnun og handverki sem koma alls staðar að úr heiminum nánast. Getum sagt að Ísland og Danmörk mæti Mið- Austurlöndum. Í hillunni okkar erum við til að mynda með Arne Jacobsen og antík frá Jórdaníu og margt fallegt sem ég hef keypt á mörkuðum. En samt er líka stór hluti af okkar heimili hönnun mannsins míns, Peter Krumhardt, eins og til dæmis borðstofuborðið, stólar, vinnuborðið og barstólarnir sem eru framleiðsla Pals&Co. Teppin og púðarnir á heimilinu eru einnig hönnun Pals&Co og flest annað er annaðhvort klassísk hönnun eða hlutir sem við höfum fundið og heillast af á til dæmis mörkuðum.“

Stofnaði eigið hönnunarfyrirtæki
Þegar Sigurbjörg kom til baka til Íslands eftir nám vann hún hjá IKEA sem útstillingarstjóri í sex ár. „Það var dásamlegur tími. Svo vann ég hjá IKEA í mörgum öðrum löndum og það var ótrúleg reynsla að vera hluti af þessu flotta fyrirtæki, ég elskaði hverja stund í vinnunni og fékk flott verkefni sem yfirmaður og starfaði hjá þeim í 26 ár. Ég get ekki ímyndað mér betri skóla en IKEA.“

Sigurbjörg er núna með sitt eigið fyrirtæki ásamt manni sínum. Hvernig kom það til að þið stofnuðuð Pals&Co? ,,Þegar ég opnaði IKEA í Amman árið 2014, hafði ég þjálfað og hitt svo flott ungt fólk í Jórdaníu og þarna prófaði ég að búa í samfélagi sem er svo ólíkt því sem ég var vön og það var oft skrítið og erfitt en ég naut þess líka og lærði mikið. Mig langaði að flytja nær fólkinu mínu sem býr á Íslandi og í London en fannst samt erfitt að skilja alveg við vini mína í Jórdaníu. Ég ákvað því á þessum tímapunkti að hætta hjá IKEA og stofna eigið fyrirtæki og þá hafði ég frelsi og gat áfram átt í samskiptum við hæfileikaríku vini mína í Jórdaníu og komið handverki þeirra og hönnun áfram í gegnum mitt fyrirtæki. Mín hugmyndafræði er svolítið að tengja ólíka menningarheima og í framtíðinni langar mig að vinna miklu meira með íslenskum hönnuðum því það er svo margt frábært í gangi hjá þeim og á Íslandi,“ svarar hún brosandi.

- Auglýsing -

„Það er merkilegt hvað góð hönnun getur hjálpað okkur við að eiga betra líf. Hönnun snýst ekki bara um hvernig þú gerir heimilið fallegra, það snýst líka svo mikið um það hvernig þú gerir líf þitt auðveldara,“ bætir hún við að lokum.

Ljósmyndir / Johan Vancutsem

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -