Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Tímalaus hönnun við rætur Öskjuhlíðar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rétt við Öskjuhlíðina í Reykjavík er nýtt hverfi í uppbyggingu, húsið sem við heimsóttum er enn á byggingarstigi en það er þó ekki að sjá þegar inn er komið. Sigurborg Selma og Gísli Ingimundarson búa hér ásamt þeim Kára sem er tíu ára og Benjamín litla sem er eins árs.

Gísli er forstöðumaður áhættustýringar og gæðamála hjá tryggingafélaginu Sjóvá og Sigurborg Selma er fatahönnuður að mennt, starfar sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu.

Nýbygging miðsvæðis

Sigurborg býður okkur ljósmyndara upp á dýrindis kaffi og við hefjum spjallið. Benjamín litli fylgist athugull með því sem fram fer, greinilega skemmtilegt þegar gesti ber að garði. „Ég átti Moccamaster-uppáhellingarvél en það tók svo langan tíma að hella upp á að ég náði aldrei að drekka kaffið því ég var alltaf eitthvað svo sein. Sjöstrand-vélin hentar mér mun betur,“ segir Sigurborg og hlær.

Parketið er úr hvíttaðri eik og kemur frá Birgisson.

Íbúðin er rúmir 100 fermetrar og gott flæði er í björtu í meginrýminu þar sem stofa og borðstofa liggja saman og opið eldhúsið er greinilega hjarta heimilisins en þaðan má ganga beint út á sólríkar suðursvalirnar. Í hinum hluta íbúðarinnar eru þrjú svefnherbergi með gólfsíðum gluggum og rúmgott baðherbergi með beinu aðgengi að þvottahúsi og geymslu.

„Gluggarnir eru mjög stórir og stundum er mjög heitt hér þegar sólin skín, en þá nýti ég tækifærið og fer út í göngutúr í með Benjamín.“

Hvað varð til þess að þetta hverfi varð fyrir valinu?

„Við vorum að leita að íbúð í Hlíðunum nálægt skólanum hans Kára, eldri sonar okkar, en það var einhvern veginn ekkert í boði sem hentaði okkur. Við duttum svo á þessa íbúð en byggingin er tæknilega séð í póstnúmeri 101 þótt hún sé eiginlega nær Hlíðunum. Kári er líka að æfa körfubolta hérna í Val svo það er mjög stutt fyrir hann að fara á æfingar, mjög praktískt.“

- Auglýsing -

Sigurborg segir það hafa verið lítið mál að selja gömlu íbúðina í Hlíðunum en hún skellti henni í story á Instagram og hún hafi selst nánast um leið og aldrei náð inn á fasteignavefinn. „Við vorum með þeim fyrstu sem fluttu hingað en það er auðvitað stutt síðan húsið var byggt.“

Hafa ekki verið mikil læti hérna?

„Ekki núna, en ég veit að íbúarnir hinum megin í húsinu heyra töluvert frá byggingasvæðinu. Síðasta sumar var þó verið að vinna í planinu hér fyrir framan og ég var að ærast, enda var Benjamín nánast nýfæddur og mikil læti,“ segir Sigurborg. Hún bætir því við að í dag sé hávaðamestu framkvæmdunum þó lokið og að hér sé yndislegt að vera og stutt í náttúruna í Öskjuhlíðinni.

- Auglýsing -
Borðstofustólana fann mamma Sigurborgar á antíksölu og Snowglobe-ljósið eftir Louise Poulsen fæst í Epal.

Tímalaus hönnun heillar mest

Stíll heimilisins er látlaus og klassískur, blanda af tímalausri hönnun og fallegum húsgögnum njóta sín vel við ljósa veggina. Greinilegt er að þau Sigurborg og Gísli hafa næmt auga fyrir fallegum hlutum.

Hvaðan koma húsgögnin ykkar?

„Margt er úr fjölskyldunni, stofuborðið er í miklu uppáhaldi en það kemur frá ömmu og afa sem eru miklir fagurkerar. Síðan fengum við Wishbone-stólana og stóra armljósið frá Flos í brúðargjöf síðasta sumar og við erum mjög ánægð með hvoru tveggja. Mamma hefur líka verið dugleg að hafa augun opin fyrir okkur á nytjamörkuðum og sölusíðum á Netinu, hún gefur okkur líka alltaf eitthvað fallegt fyrir heimilið í jóla- og afmælisgjafir.“

Sigurborg bendir á borðstofuborðið og -stólana og segir hvoru tveggja hafa komið af sölusíðum á Netinu en þar megi finna hinar ýmsu gersemar ef vel sé leitað. Við forvitnumst um rúmgaflinn sem er hrár og skemmtilegur, smíðaður úr krossvið.

„Rúmgaflinn er krossviðarplata sem vinur minn smíðaði fyrir sýningu en hún var á leiðinni á haugana.“

„Rúmgaflinn er krossviðarplata sem vinur minn smíðaði fyrir sýningu en hún var á leiðinni á haugana. Ég ákvað að prófa að skella henni upp bakvið rúmið og fannst hún koma svo skemmtilega út!“

Rúmgaflinn er hrár og skemmtilegur, smíðaður úr krossvið.

Greinilegt er að mikið er um smekkfólk í fjölskyldunni og ekki eru allir svo heppnir að svo klassísk og tímalaus hönnun berist á milli fjölskyldumeðlima.

Víðsvegar um íbúðina má sjá fallega keramíkmuni, blómapotta, bolla og skálar, við forvitnumst um hvaðan þeir komi? „Mamma mín, hún Guðbjörg Káradóttir, hannar undir merkinu Ker og hefur lengi hannað fallega keramíkmuni. Þessa dagana er hún mest að hanna fyrir einstök verkefni og hefur mikið gert fyrir veitingastaði, síðan er hún að sérhanna bolla sem eru seldir í HAF store. Það má líka alltaf koma við í vinnustofuna hennar í Mávahlíð og næla sér í eitthvað fallegt.“

„Síðan erum við alltaf að reyna að bæta við fallegum listaverkum á heimilið…“

Áttu þér uppáhaldsverslanir?

„Ég er mjög hrifin af HAF store og Epal og ég kaupi líka mikið á Netinu, en við erum bæði mjög hrifin af klassískri hönnun sem við getum alltaf átt. Gísli bjó erlendis svo hann átti í raun enga búslóð þegar við fluttum inn saman og við gátum svolítið ákveðið í hvaða átt við vildum fara. Síðan erum við alltaf að reyna að bæta við fallegum listaverkum á heimilið en pabbi Gísla er mikill áhugamaður um myndlist og er duglegur að mæla með fallegum verkum.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Þau Sigurborg og Gísli eru meðal annars með nokkur verk úr Gallery i8, verk eftir Sigríði Rún úr seríunni líffærafræði leturs, annað eftir Rán Flygenring og verk eftir Ignacio Uriarte sem er í miklu uppáhaldi.

Blaðamennskan heillaði

Nú starfar þú sem blaðamaður eftir að hafa lært fatahönnun, hvernig gerðist það? „Mér var boðið starf hjá Morgunblaðinu meðan ég var enn þá í námi í Listaháskólanum en ég ákvað þó að klára BA-gráðuna fyrst. Ég hef alltaf haft áhuga á blaðamennsku og ég held ég hafi í raun uppgötvað í náminu að það hentaði mér betur en að fatahönnun. Ég fór í starfsnám til Parísar á fyrsta námsárinu í LHÍ og starfaði þar á umboðsskrifstofu, ég fílaði það mjög vel og ætli áhuginn hafi ekki kviknað þá.“

Sigurborg Selma hefur starfað hjá Morgunblaðinu í um fimm ár og þar sér hún um tísku og hönnun í helgarblaðinu. Við þökkum Sigurborgu Selmu kærlega fyrir heimboðið, spjallið og kaffibollann og kveðjum að sinni.

Kaffivélin frá Sjöstand er í sérstöku uppáhaldi.
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Herbergið hans Benjamíns.

Ljósmyndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -