Föstudagur 27. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Trendin sem verða ríkjandi árið 2019

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Litagleðin heldur áfram að ráða ríkjum innan heimilisins og munum við sjá bæði dekkri og dýpri tóna og á hinn bóginn koma hlýlegir og friðsælir jarðlitir til með að ná töluverðum vinsældum. Á árinu sem leið var fólk ansi duglegt að glæða heimili sín nýju lífi með hjálp málningarrúllunnar og þar verður svo sannarlega ekkert lát á! Við spáum því að fólk fari í meiri mæli að mála loftin í hressandi litum þegar líður á árið, en þetta mun breyta ásýnd og stemningu heimilanna umtalsvert – hvítt er svo sannarlega ekki heitasti veggliturinn lengur!

Listaverk

Undanfarið hafa stór og vígaleg listaverk verið að færast í auknum mæli inn í stofur og opin rými heimilanna. Ekkert lát verður á stórum áberandi verkum þetta árið og við hvetjum lesendur til að vera duglega að kynna sér íslenska listamenn, enda er listamannaflóran hér á landi til fyrirmyndar.

Kúrvur og lífræn form

Mjúkar línur og ávöl form hafa líklega ekki sést í jafnmiklu mæli síðan seventís-tískan leið undir lok. Þessi áratugur er svo sannarlega búinn að ryðja sér til rúms á nýjan leik og kemur til með að koma sterkt inn árið 2019. Sófar með fallegum sveigjum, rúnnuð hliðarborð og meiri mýkt er það sem koma skal.

Sérsmíði

- Auglýsing -

Við hjá ritstjórninni höfum veitt því athygli að sífellt fleiri láta sérsmíða innréttingar, hillur og skápa svo það sé sniðið akkúrat inn í rýmið sem því er ætlað. Okkur þykir sérsmíðin oft gefa rýminu aukna dýpt og annað útlit og spáum við því að þetta muni færast enn í aukana á næstu misserum.

Vistvænt

- Auglýsing -

Allt sem snýr að því að hugsa betur um jörðina okkar er sem betur fer komið í tísku, enda vel tímabært! Meira mun bera á vistvænni hönnun sem er framleidd í smærra upplagi og er jafnvel handgerð. Fólk fer að spá meira í að fjárfesta í gæðahúsgögnum sem endast frekar en einhverju sem kastað er til hliðar eftir stuttan tíma.

Fjölnota húsgögn

Sérfræðingarnir í heimi innanhússhönnunar spá því að húsgögn með fjölbreytta notkunarmöguleika muni verða áberandi þetta árið. Slík húsgögn hafa þann kost að notandinn getur aðlagað þau því rými sem hann vill nýta húsgagnið í þá stundina, svo þau henta breytingaglöðum einstaklingum eða þeim sem leigja eða breyta ört um húsnæði einkar vel.

Fínlegur iðnaðarstíll

Iðnaðarstíllinn hefur verið áberandi síðustu ár en nú förum við að sjá stílinn í töluvert fíngerðari og fágaðri útfærslu, hreinar og nútímalegar línur í bland við hrá og efni með grófri áferð.

Þægindi, lúxus og mýkt

Að líða vel í eigin skinni og á eigin heimili verður gegnumgangandi þema ársins 2019, þægindin verða í fyrirrúmi og áherslan verður á vellíðan. Ímyndið ykkur letidaga undir þykku teppi með góða bók og rjúkandi tebolla við höndina eða göngutúra um hverfið í kósí fötunum. Mjúk og notaleg efni með fallegri áferð sjást innanhúss og töffaralegir flatbotna skór, kjólar sem maður vefur utan um sig og bindur í mittið og kápur og notalegar peysur.

Bast, reyr og bambus

Náttúrulegur efniviður, ofin handverk og áferð halda velli og kemur bambus og reyr enn sterkar inn. Allt frá húsgögnum yfir í smærri muni; stólar, bekkir, hillur, hliðarborð, körfur og ljós. Við munum sjá meira af vörum í þessum stíl með sjálfbærari framleiðslu húsgagna og hluta sem hefur jákvæð áhrif á heimili okkar og umhverfi. Hlýleg efni sem eru að miklu leyti viðhaldsfrí og létt, sem hægt að nota bæði inni og úti. Fjölnota og feiknaflott!

Hvað dettur út?

Heimili í einföldum litum eins alhliða gráum litatónum þar sem bæði grá húsgögn og veggir eru ríkjandi gerir rými og heimili nokkuð einsleit að okkar mati. Svarthvítur stíll hefur að mati sérfræðinganna einnig sungið sitt síðasta í bili, við hjá ritstjórninni erum sammála þessum fregnum og tökum litagleðinni fagnandi. Það eru skiptar skoðanir á því hvort terrazzo muni halda velli eða ekki. Sumir virðast búnir að fá nóg af því á meðan aðrir spá áframhaldandi hylli efnisins.

Á hverju ári verðum við vör við aukna vitundarvakningu og miklar framfarir er varðar efni og notkun þess. Umræðan um plast hefur verið ofarlega á baugi lengi og alltaf er hægt að gera betur. Hönnuðir og framleiðendur eru í auknum mæli farnir að huga að því hvernig vörur eru búnar til, við hvaða aðstæður og úr hvaða efni; er það endurnýtanlegt eða fjölnota, býr það yfir gæðum, endist það kynslóða á milli?

Það virðist allt vera leyfilegt í dag hvað varðar innanhússhönnun. Fólk fylgir eigin innsæi fremur en að eltast við tískustrauma sem er jákvæð þróun að okkar mati. Er „tískan“ í innanhússhönnun jafnhröð og í fatatískunni?

Eftir okkar bestu vitund, þekkingu og rannsóknarvinnu breytist hún ekki endilega mikið ár frá ári, en að sjálfsögðu detta hægt og rólega inn nýir straumar og stefnur meðan aðrir fjara út. Bæði hvað varðar innanhússhönnun og fatatísku hefur verið að færast sífellt meira í aukana að fólk festi fremur kaup á vandaðri vörum og fatnaði, sem hefur betri líftíma og endist betur.

Meira um málið í janúarblaði Húsa og híbýla en febrúarblaðið kemur út í 15. febrúar. Áskrifendur fá blaðið inn um lúguna degi fyrr!

Umsjón / Elín Bríta og María Erla

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -