Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Umhverfismálin eiga að vera í fararbroddi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Batteríið Arkitektar er með stærstu arkitektastofum á Íslandi með vel menntaða og reynslumikla starfsmenn sem hafa tekið þátt í stórum og fjölbreyttum hönnunarverkefnum bæði innanlands og utan. Við báðum Sigurð Einarsson arkitekt, sem stofnaði fyrritækið árið 1988 ásamt Jóni Ólafi Ólafssyni og hefur starfað þar óslitið síðan, um að veita okkur innsýn inn í arkitektúr á Íslandi í dag og gefa okkur sýnishorn af verkum sem Batteríið arkitektar hafa hannað.

Harpa – hönnuð í samstarfi við Henning Larsen Architects og Studio Olafur Eliasson tekin í notkun 2011. Ljósmynd: Nic Lehoux.

Hvaða straumar og stefnur eru mest áberandi í dag? „Allt og ekkert. Það sem ég á við með því er að það er erfitt að segja að ein stefna sé meira áberandi en önnur því í dag eru arkitektar víða að vinna út fyrir þægindarammann – í allar áttir. Arkitektúr á að vera leitandi og núna þegar nánast allt er tæknilega mögulegt sjáum við fjölbreytileikann blómstra sem aldrei fyrr.“

Hvar standa Íslendingar á heimsvísu er varðar arkitektúr og samkeppnishæfni? „Margt af því sem íslenskir arkitektar eru að gera stenst allan samanburð við það sem best gerist í heiminum. Arkitektasamkeppnir hér heima eru alþjóðlegar og þar standa íslenskir arkitektar sig með ágætum og það sama má segja erlendis – við hjá Batteríinu Arkitektum höfum t.d. bæði unnið arkitektasamkeppnir og alútboð í Noregi.“

Hvaða bygging á Íslandi finnst þér skara fram úr varðandi hönnun og gæði? „Það fyrsta sem kemur upp í hugann er einbýlishús eftir Högnu Sigurðardóttur í Garðabæ. Þar hefur ekki bara verið á ferðinni góður arkitekt heldur líka frábær verkkaupi sem hafði skilning og metnað til að halda í þessa ferð út fyrir þægindarammann með Högnu. Húsið er í senn með sterkar form- og efnislegar tengingar við Ísland, hefur umhverfisvænt yfirbragð löngu áður en slíkt varð móðins, rýmismyndun er frábær, lýsingin þjónar arkitektúrnum í hvívetna og húsið virðist „funkera“ vel með sveigjanlegum opnunum milli rýma svo það helsta sé nefnt.“

Hver er þín framtíðarsýn fyrir Reykjavík og þróun borgarinnar? „Ég er í stórum dráttum sáttur við stefnuna eins og hún birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur. Umhverfismálin eiga að vera í fararbroddi. Eitt af mikilvægu markmiðunum í því samhengi eru skjólmyndun sem allt of oft er meira í orði en á borði. Ég tel rétt að leggja ríkari áherslur á veðurfarslega þætti við skipulag og ekki síst útfærslur í uppbyggingu borgarinnar. Þessi atriði fara vel saman við þéttingu byggðarinnar.“

Hvernig verkefni finnst þér sjálfum skemmtilegast að fást við? „Mér finnst skemmtilegast að fást við flókin og krefjandi verkefni. Slík verkefni kalla á meiri tíma og yfirlegu og eru í eðli sínu stanslaus endurmenntun. Oft þarfnast þau mikilla samskipta við verkkaupann í sameiginlegri leit að hinni réttu lausn. Þetta geta allt eins verið lítil verkefni eins og stórar byggingar og skipulagsverkefni en eiga það sameiginlegt að stuðla að framþróun í hugsun, þróun og lausnum.“

Hvað er mikilvægast þegar kemur að góðri hönnun? „Forsendur fyrir góðri hönnun er góður verkkaupi. Það er sama hvað arkitektinn er góður, ef verkkaupinn hefur ekki skilning á því að fylgja honum og bakka upp hans hugmyndir verður útkoman oft eitthvert miðjumoð. Góð hönnun er vel útfært samhengi hlutanna og því ber að varast að steypa mörgum ólíkum óskum og hugmyndum í einn graut. Þar aftur spilar skilningur og samvinna verkkaupans stórt hlutverk.“

- Auglýsing -
Active living center í Winnipeg, Kanada.

Hvaða ráð vilt þú gefa arkitektum og hönnuðum framtíðarinnar? „Arkitektúr snýst fyrst og fremst um að búa til rými fyrir fólk til að lifa og starfa í. Ný og göfugri viðmið birtast okkur reglulega í mannvirkjum þar sem best tekst til að horfa á umhverfið okkar og þarfir í sífellt nýju ljósi. Arkitektar þurfa að vera trúir sjálfum sér og sinni sannfæringu og tilbúnir til að vera leiðandi í þessari endalausu vegferð.“

Skáli Alþingis – tekinn í notkun 2002. Ljósmynd: Bragi Þór Jósefsson

Á myndunum má sjá sýnishorn af þeim verkum sem Batteríið Arkitektar hafa hannað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -